100 Dagný Brynjarsdóttir lék tímamótaleik gegn Hvít-Rússum.
100 Dagný Brynjarsdóttir lék tímamótaleik gegn Hvít-Rússum. — Ljósmynd/Aleksandar Djorovic
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Eftir öruggan sigur á Hvít-Rússum í Belgrad á fimmtudaginn bíður kvennalandsliðsins í fótbolta mun erfiðara verkefni í tékknesku borginni Teplice í dag.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Eftir öruggan sigur á Hvít-Rússum í Belgrad á fimmtudaginn bíður kvennalandsliðsins í fótbolta mun erfiðara verkefni í tékknesku borginni Teplice í dag.

Íslenska liðið fær þar tækifæri til að komast aftur uppfyrir Hollendinga og í efsta sæti C-riðils, en þarf til þess að vinna Tékka sem sjá þennan leik sem sitt síðasta hálmstrá til þess að eiga möguleika á að komast áfram úr riðlinum.

Sigur myndi reyndar galopna möguleika Tékka sem eiga eftir þrjá leiki að honum leiknum, tvo gegn Hvít-Rússum og einn gegn Kýpur, og eru þar með níu stig í sigtinu sem gætu komið þeim í annað sæti riðilsins þegar upp verður staðið.

Tékkar hafa verið íslenska liðinu afar erfiður andstæðingur og liðin gerðu tvívegis jafntefli í undankeppni HM 2019, en þau kostuðu einmitt íslenska liðið sæti í umspili. Ísland vann heimaleikinn gegn Tékkum 4:0 í haust en þær lokatölur sögðu ekkert um leikinn sem var jafn lengi vel. Þar gekk hins vegar allt upp hjá íslenska liðinu.

Ísland vann síðan nauman sigur, 2:1, þegar liðin mættust í She Believes-mótinu í Kaliforníu í febrúar. Á því móti gerðu Tékkar jafntefli við Bandaríkin, og það segir sitt um styrkleika þeirra.

Holland er með 14 stig og á tvo leiki eftir, Ísland er með 12 stig og á þrjá leiki eftir, Tékkland er með fimm stig og á fjóra leiki eftir, Hvíta-Rússland er með fjögur stig og á fjóra leiki eftir og Kýpur er með eitt stig og á einn leik eftir.