Læti Það fór ekki fram hjá nokkrum manni þegar þyrlur bandaríska sjóhersins voru mættar á vettvang í gær enda gífurlegur hávaði og hvinur sem fylgdi þyrlunum hvert sem þær fóru.
Læti Það fór ekki fram hjá nokkrum manni þegar þyrlur bandaríska sjóhersins voru mættar á vettvang í gær enda gífurlegur hávaði og hvinur sem fylgdi þyrlunum hvert sem þær fóru. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hólmfríður María Ragnhildardóttir hmr@mbl.is Allt gekk að óskum þegar lendingaræfing bandarískra landgönguliða, sem haldin var í tengslum við varnaræfingu Atlantshafsbandalagsins, Norður-Víking, fór fram á Miðsandi í innanverðum Hvalfirði í gær.

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Allt gekk að óskum þegar lendingaræfing bandarískra landgönguliða, sem haldin var í tengslum við varnaræfingu Atlantshafsbandalagsins, Norður-Víking, fór fram á Miðsandi í innanverðum Hvalfirði í gær.

Landgönguliðar komu af skipi sjóhersins, sem hélt til í mynni Hvalfjarðar, með þyrlum og svifnökkvum. Þeir sem komu af svifnökkvum fóru á land á bryndrekum en áhöfn þyrlunnar fór á tveimur jafnfljótum.

Að sögn Francis Donovans, hershöfðingja í bandaríska sjóhernum, var æfingin nokkuð flókin þó svo að hún hafi ekki minnt á Hollywood-hasarmynd. Var hann því ánægður með frammistöðu sinna manna enda fór allt samkvæmt áætlun.

„Það getur reynst afar hættulegt að framkvæma aðgerð frá sjó og að landi, jafnvel þegar þú ert að æfa. Það þarf að vinna saman sem teymi,“ sagði hershöfðinginn þegar blaðamaður náði af honum tali.

Þakklátur Gæslunni

Eugene H. Black aðmíráll tók undir orð samstarfsfélaga síns og sagði flækjustig æfinganna sem framkvæmdar voru í dag sýna hve vel þjóðir NATO vinna saman, þá sérstaklega Ísland og bandaríski sjóherinn. Tók hann sérstaklega fram þakklæti sitt gagnvart Landhelgisgæslunni sem hafði lagt sitt af mörkum við að gera þessa æfingu að raunveruleika.

„Þeir hjálpuðu okkur að skilja áhætturnar, þeir hjálpuðu okkur að glíma við þær, að framkvæma aðgerðirnar í miklum vindi og í köldum sjó. Ég gæti ekki verið ánægðari,“ sagði Black.

Aðmírállinn segir það mikilvæga reynslu fyrir sjóherinn að taka þátt í æfingum við strendur Íslands þar sem aðstæður eru afar frábrugðnar því sem hann hefur vanist. Sé sjórinn umhverfis landið til að mynda mun kaldari, sem gerir það að verkum að sjóliðar hafa ekki eins mikinn tíma til að athafna sig ef einhver skyldi lenda utanborðs. Krefjast aðstæðurnar snöggra viðbragða.

Þá segir hann íslensku veðuraðstæðurnar hafa verið eina stærstu áskorunina og var hann ekki spenntur þegar blaðamaður spurði hann hvort hann gæti hugsað sér að framkvæma næstu varnaræfingu hér á landi um miðjan desember.

Ekki vegna stríðsins

Engar sérstakar æfingar munu fara fram í tengslum við Norður-Víking sem miða að því að auka viðbúnað hér á landi vegna stríðsins í Úkraínu.

Upprunalega átti varnaræfingin að fara fram árið 2020 en var frestað sökum heimsfaraldurs Covid-19. Donovan hershöfðingi segir tímasetninguna núna einfaldlega hafa verið heppilega fyrir sjóherinn en hún hafi enga tengingu við innrás Rússa.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og vísindaráðherra, sem var viðstödd í stað Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur utanríkisráðherra, tók í sama streng og sagði tímasetninguna vera tilviljun. Hún segir þó ekki síður mikilvægt nú sem áður að styrkja samstarf ríkjanna í NATO og skerpa á sérstöðu og öryggishagsmunum Íslands og leggja okkar af mörkum í samstarfið. „Það er það sem við erum að gera í dag.“