Haraldur Unason Diego fæddist 12. apríl 1972. Hann lést 10. febrúar 2022.

Haraldur var jarðsunginn 25. febrúar 2022.

Þá er dagsetningin loks upp runnin Haddi minn, kæri vinur.

Dagsetning sem var búin að taka veglegan sess í umræðum okkar á milli, plana hana og nánast skipuleggja í þaula í fylgsnum hugans, þetta yrði sko „legendary“ veisla.

Hinn 3. febrúar síðastliðinn dró ský fyrir sólu og lífið breyttist skyndilega.

Sá sem lék stórt hlutverk í lífi svo margra, hafði markað svo ótrúlega falleg spor með jarðvist sinni, var týndur ásamt þremur öðrum.

Hinn 25. febrúar síðastliðinn sá maður nákvæmlega hvaða mann þú hafðir að geyma, hversu góður vinur þú varst, hversu mikil áhrif þú hafðir á fólk út um allan heim.

Það er sannarlega skarð fyrir skildi við fráfall þitt elsku Haddi minn. Sorg ríkir en sorgin er í raun væntumþykja og ást, því engan er víst hægt að syrgja án þess að bera væntumþykjuna og ást í hjarta.

Fjölskyldan þín í Safamýrinni er eins og þú; rík að ást og væntumþykju og heldur svo sannarlega minningu þinni á lofti.

Þín plön varðandi fimmtugsteiti hafa svo sannarlega ekki verið slegin út af borðinu; þín verður minnst á fallegan máta, fjölskylda og vinir hittast í dag og margur kemur að utan, þetta er máttur vináttu þinnar í hnotskurn.

Það tísti oft í þér elsku vinur þegar við vorum að skjóta hvor á annan í góðlátlegu gríni, þar sem ég sagði að þú værir nú bara löglegur hobbiti að stærð, í mesta lagi sýnishorn.

En staðreyndin er sú að þú varst í raun risi og einn sá stærsti karakter sem ég hef kynnst á lífsleiðinni.

Með þakklæti til þín fyrir að vera einfaldlega þú, þakklæti fyrir að fá að kynnast þinni fjölskyldu, Gunni, Elísabetu, Alex Una, Óliver Nóa og Skugga.

Takk fyrir allt og við sjáumst síðar í vestrinu.

Til hamingju með afmælið „legend“!

Lárus Arnar Gunnarsson, Esja Bára og Anton Örn.