Indíana Sigfúsdóttir fæddist í Reykjavík 14. apríl 1945. Hún lést á Hrafnistu við Sléttuveg 31. mars 2022.

Foreldrar hennar voru hjónin Sigfús Sigurðsson, f. 22. maí 1902, d. 23. október 1972, og Bergþóra Jónsdóttir, f. 23. janúar 1908, d. 4. febrúar 1985.

Bróðir hennar er Sigurður Jón, f. 14. júlí 1950.

Indíana giftist 5. október 1968 Gylfa Guðmundssyni, f. 12. nóvember 1943. Börn þeirra eru: 1) Þóra Björg, f. 25. júní 1968, gift Davíð Ólafssyni, f. 28. maí 1968. Eiga þau þrjú börn: Gylfa, f. 23. janúar 1990, Ólaf Þór, f. 30. nóvember 1994, og Júlíu Margréti, f. 29. ágúst 1996. 2) Gylfi Jens, f. 17. maí 1974. Kona hans er Berglind Guðmundsdóttir, f. 16. janúar 1974. Eiga þau þrjú börn: Róbert Örn, f. 15. apríl 1998, Andreu Örnu, f. 23. maí 2005, og Daníel Örn, f. 8. júní 2011.

Útför hennar fer fram frá Langholtskirkju í dag, 12. apríl 2022, klukkan 13.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Í dag er ég kveð elsku mömmu er margs að minnast. Gott að eiga minningar sem ylja manni um hjartarætur. Mamma var mikill karakter, hjartahlý og afar hrein og bein. Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um hana og þurfti hún að glíma við ýmis veikindi í gegnum ævina. En alltaf reis hún aftur upp því Lykla-Pétur var ekki tilbúinn að taka á móti henni.

Barnabörnin voru hennar líf og yndi. Geta mín börn yljað sér við góðar minningar um ömmu og afa – ferðir í Flatey og sumarbústaði. Gott var að geta farið til ömmu í hádeginu og eftir skóla og fengið ömmuknús. En nú er komið að leiðarlokum og mamma að fara í sína hinstu ferð, veit ég að það hefur verið tekið vel á móti henni.

Blessuð vertu baugalín.

Blíður Jesú gæti þín,

elskulega móðir mín;

mælir það hún dóttir þín.

(Ágústína J. Eyjólfsdóttir)

Hvíl í friði elsku mamma.

Þóra Björg.

Elsku amma Inda.

Ég á rosa erfitt að koma því niður hversu mikilvæg þú varst mér virði og hversu mjög ég leit upp til þín. Þó svo að þú hafir alltaf verið á leiðinni að vinna í lottóinu, þá vorum við barnabörnin svo sannarlega heppin að eiga þig að.

Það var ekkert sem þú vildir ekki gera fyrir okkur og við svo heppin að alast upp með þig í hverfinu.

Við systkinin erum svo þakklát fyrir að hafa getað labbað til ömmu og afa eftir skóla á hverjum degi sem krakkar og svo seinna meir í öllum hádegishléum þegar við vorum í Réttarholtsskóla þar sem þú sást alltaf fyrir því að við fengum sko nóg að borða.

Þú varst kannski ekki há í loftinu en þessi stóra manneskja og mikli karakter er alltaf efst í huga þegar hugsað er til þín og alltaf er gaman að rifja upp gamla frasa frá þér sem eru kannski ekki viðeigandi að skrifa niður en húmorinn þinn stendur alltaf upp úr.

Það voru forréttindi að fá að ferðast með ykkur afa á sumrin, allar sumarbústaðaferðirnar sem við systkinin gleymum aldrei og svo allar næturgistingarnar þar sem þú kenndir okkur að fara með bænir sem aldrei gleymast, þó svo að óþolinmæðin næði hámarki því þú baðst fyrst fyrir öllum sem þér þótti vænt um og það var svo rosalega langur listi. Ég er viss um að allir sem þekktu þig kunnu að meta hversu hlý og góð þú varst, elsku amma, og erfitt er að trúa því að þú sért farin því ég veit að það er nú tómarúm hjá svo mörgum sem erfitt er að fylla upp í.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en mig langar að enda þetta á fyrstu bæninni sem þú kenndir mér og við fórum alltaf saman með á kvöldin eftir að þú varst búin að biðja fyrir öllum þínum nánustu:

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni.

Sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson frá

Prestshólum)

Elskum þig alltaf,

þín,

Júlía, Gylfi og Óli.

Elsku Inda. Margs er að minnast. Þegar við hittumst í fyrsta sinn var ég um 10 ára og Gilli bróðir var að hverfa að heiman. Hann var fámáll að venju en mamma komst að því að hann væri farinn að vera hjá þér í þinni fyrstu íbúð. Þá var þér boðið heim í mat svo við gætum hitt þig. Ég man að ég var búin að klæða mig í fínan grænan skokk, hvíta blússu, hvíta sportsokka og með tíkarspena í hárinu. Ég var svo spennt að ég sippaði á fullu inni í svefnherbergi því ég gat ekki setið kyrr.

Það sem var mér efst í huga var að með Gilla farinn að heiman fengi ég kannski mitt eigið herbergi.

Ég hafði gaman af því að heimsækja ykkur í kjallarann í Nökkvavogi. Þá leyfðir þú mér að máta háhæluðu skóna þína, enda aldrei hitt fullorðna konu með eins lítinn fót og ég.

Þegar Þóra Björg fæddist þá stalst ég með Dóru systur í heimsókn á fæðingardeildina, þar sem yngri en 14 ára fengu ekki aðgang, dressuð upp í bleiku slána sem þú keyptir á mig í London. Lýsingarnar hjá þér af fæðingunni voru svo svakalegar að ég hafði aldrei heyrt annað eins, sem varð til þess að ég gubbaði á gólfið. Ég komst að því snemma að þú varst aldrei hrædd við að segja þína meiningu og þorðir alltaf að segja það sem aðrir hugsuðu.

Síðan þá er liðin meira en hálf öld og minningarnar endalausar bæði á Íslandi og hér í Ameríku.

Síðastliðin ár hafa reynst þér erfið með ýmsum veikindum, en þú stóðst þig alltaf eins og hetja.

Kannski var það þess vegna sem trú þín á Guð varð sterkari með árunum.

Elsku Inda, ég er svo þakklát fyrir að hafa hitt þig óvænt viku áður en þú kvaddir. Ekki grunaði mig að það yrði okkar síðasta kveðja. Við áttum góða stund saman og ég var að skoða fallega englasafnið í glugganum hjá þér, sumir englarnir frá mér.

Ég þakka þér samfylgdina og fyrir þá væntumþykju sem þú ávallt sýndir mér og börnunum mínum. Við Joe og fjölskyldan sendum Gilla, Sigga Jóni, Þóru Björgu, Davíð, Gylfa Jens, Beggu og barnabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Inda, það er svo erfitt að geta ekki fylgt þér síðasta spölinn, en í staðinn sit ég hér í dag og kveiki á kerti og hugsa til þín.

Guð blessi þig Inda mín.

Þín mágkona,

Guðrún Ásta.

Hvers vegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Í dag kveð ég þig, elsku besta vinkona mín, eftir vinskap okkar í rúm sjötíu ár. Vinskap sem aldrei bar skugga á.

Við vinkonurnar höfum verið samferða í ferðalagi lífsins, allt frá því við vorum litlar stúlkur í Nökkvavoginum. Okkar vinskapur var traustur og mikið er ég þakklát fyrir það og þann tíma sem við höfum verið samferða.

Alltaf var gaman að vera í návistum við þig, þú varst raunagóð, traust, glöð og kát, þú naust þess að vera í kringum fólk, félagsvera, gestrisin, afbragðs kokkur, alveg einstök vinkona.

Takk fyrir samfylgdina og dýrmætan vinskap, elsku Inda, mín allra besta vinkona.

Þín vinkona,

Hanna.