Lilja Sigurðardóttir fæddist 26. september 1923 á Kirkjubóli, Mosdal, Arnarfirði. Hún andaðist á Droplaugarstöðum 2. apríl 2022.

Hún var dóttir hjónanna Jónu Kristjönu Símonardóttur frá Hjallkárseyri við Arnarfjörð, f. 13.8. 1895, d. 16.11. 1967, og Sigurðar Guðmundssonar bónda á Kirkjubóli, f. 10.4. 1886, d. 29.8. 1965.

Systkini Lilju voru 10 en þau eru í aldursröð: Pétur (Björn Jón Kristján), f. 15.3. 1914, d. 18.3. 2007, maki Þuríður Jónsdóttir, f. 12.3. 1920, d. 10.12. 2010; Númi, f. 21.5. 1916, d. 22.11. 1998, maki Elísabet Ragnheiður Jónsdóttir, f. 6.6. 1897, d. 14.12. 1977; Ólína Guðmunda, f. 8.12. 1917, d. 4.10. 2008, maki Dagur Daníelsson, f. 17.10. 1918, d. 27.7. 2001; Guðjón Árni, f. 17.4. 1921, d. 16.3. 2012, Sigurjón Markús, f. 17.3. 1926, maki Guðbjörg Elentínusdóttir, f. 11.8. 1929, d. 7.5. 2019, Þorbjörg, f. 26.12. 1927, d. 28.9. 2011; Kristinn, f. 20.1. 1931, maki Erna Gunnarsdóttir, f. 22.11. 1938 d. 7.12. 2016, Þórey, f. 19.1. 1934, d. 11.11. 2012, og Ágúst Sigurbjörn, f. 14.8. 1935, d. 2.7. 2010, maki Kristín Erla Bernódusdóttir, f. 5.10. 1933, d. 9.1. 2007.

Lilja giftist hinn 16. júní 1964 Bjarna Markússyni matsveini, f. á Hóli í Meðallandi 22.10. 1919, d. 5.11. 1988. Hann var sonur hjónanna Guðrúnar Vigfúsdóttur og Markúsar Bjarnasonar, bónda í Rofabæ.

Lilja bjó á Kirkjubóli til ársins 1941 þegar hún flutti til Reykjavíkur og fór að vinna sem barnfóstra og vinnukona hjá frú Margréti Ólafsdóttur Hjartar. Eftir það vann Lilja við afgreiðslustörf og hjá Vinnufatagerð Íslands við saumaskap. Lengst af sinni starfsævi vann hún hjá iðnaðardeild Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins eða þar til hún hætti að vinna vegna aldurs.

Lilja iðkaði leikfimi undir stjórn Ástbjargar Gunnarsdóttur leikfimikennara í tugi ára og tókst á milli þeirra mikill vinskapur. Hún var einlægur aðdáandi Karlakórs Reykjavíkur og sótti tónleika þeirra og styrkti í áratugi sem og leikhús og aðra menningartengda viðburði.

Lilja og Bjarni bjuggu á Laugarnesvegi 76 allt þar til hún flutti á Droplaugarstaði í maí 2016 en hún átti við heilsubrest að stríða síðustu árin.

Útför Lilju fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 12. apríl 2022, klukkan 13.

Lilja frænka var orðin háöldruð og lést rúmlega 98 ára. Ferðalag hennar spannar miklar breytingar á þjóðfélagsháttum og menningu frá árinu 1923 til ársins 2022.

Lilja var Vestfirðingur í húð og hár og stolt af uppruna sínum. Hún fæddist á Kirkjubóli í Mosdal við Arnarfjörð og ein af 10 systkinum. Dalurinn er fallegur, umvafinn skógi og útsýni yfir fallegan fjörðinn yfir á Hrafnseyri.

Það er mikið frelsi falið í því að búa á slíkum stað, þótt margar hindranir hafi verið í veginum svo sem samgöngur og þjónusta takmörkuð við svo afskekktan dal. Í dalnum voru nokkrir bæir á sínum tíma en í dag er hann að mestu kominn í eyði.

Lilja hafði mjög sterkar skoðanir á mönnum og málefnum. Hún var hrifinn af Davíð Oddssyni, Ólafi Ragnari Grímssyni og Kristjáni Jóhannssyni og hélt með þeim ef á þá var hallað. Morgunblaðið keypti Lilja alla tíð og kallaði Biblíuna sína.

Lilja tók aldrei bílpróf og fór allra sinna ferða í strætisvagni allt þar til hún fór á hjúkrunarheimili 93 ára gömul. Skipti þá engu hvort hún fór með staf eða göngugrind; allt fór inn í vagninn og oft var skipt um vagn ef með þurfi, lét ekkert stoppa sig, í hvaða veðri sem var.

Lilja hafði gaman af því að bjóða fólki heim í kaffi og mat og var hún þá mest í essinu sínu ef hún gat boðið upp á hraukað hlaðborð.

Minnisstætt er eitt síðasta matarboðið sem hún hélt á Laugarnesveginum og eldaði hún þá lax fyrir pabba og mömmu, Sigga og Guggu og okkur Geira og Ernu. Dugði ekkert minna en tveir eftirréttir og sá seinni borinn fram rétt undir miðnætti.

Við minnumst þess oft og brosum út í annað. Ég minnist líka jólaboðanna hjá Lilju og Bjarna. Boðið var upp á heitt súkkulaði sem var þykkt og matarmikið – ógleymanlegt. Já og svo kom Lilja og spurði hvort við vildum ekki örugglega eina sneið í viðbót. Ef maður sagði já, þá var sneiðin stór og maður reyndi að afþakka en þá sagði hún alltaf „er þetta svona vont hjá mér?“ og þá auðvitað sagði maður nei og fékk meira.

Ekki má gleyma pönnukökubakstrinum en hún hafði þann sið að strá sykri yfir allt saman þannig að síróp myndaðist á staflanum.

Lilja var þekkt fyrir snyrtimennsku og hversu þrifin hún var. Það sá aldrei á neinu hjá Lilju og nostrað við alla hluti. Hún sást oft á Laugarnesveginum úti á gangstétt að sópa, þrífa kanta og tína upp rusl og var mikið í mun að umhverfið væri hreint og fínt.

Lilja og Bjarni ferðuðust mikið fyrr á árum á fjarlægar slóðir þegar ferðalög milli landa voru ekki eins og þau eru í dag.

Lilja og Bjarni voru alltaf nefnd í sömu andrá og þeirra samband var sérstaklega innilegt eins og orð Lilju um Bjarna bera merki: „Hann var líf mitt og ljós augna minna.“

Guð blessi minningu Lilju frænku.

Jóna Kristjana

Kristinsdóttir.