Ingibjörg Gísladóttir
Ingibjörg Gísladóttir
Eftir Ingibjörgu Gísladóttur: "Lönd NATO hafa lengi þjálfað úkraínska hermenn og sent þeim vopn. Er stríðið í Úkraínu bein afleiðing af útþenslustefnu NATO?"

Heimurinn er genginn af göflunum – hatur á Rússum og öllu rússnesku er allsráðandi í fjölmiðlum. Íþróttamenn, tónlistarmenn, skákmenn og jafnvel kettir og hundar eru útilokaðir frá keppni séu þeir af rússneskum uppruna. Eignir Rússa og rússneska ríkisins eru frystar víða um heim og þeir jafnvel útilokaðir frá SWIFT-bankagreiðslukerfinu.

En hvernig á ég að hata Pútín og Rússa þegar sömu fjölmiðlar og nú segja hann óalandi og óferjandi hafa veitt mér ýmsar upplýsingar gegnum tíðina sem setja gerðir hans í röklegt samhengi?

Byrjum á Bill Clinton og útþenslustefnu hans á NATO. Var einhver þörf á að reyna að koma öllum ríkjum sem hefðu landamæri að Rússlandi þangað inn? Pútín kom í veg fyrir að Georgía gengi í NATO og allir máttu vita að hann samþykkti ekki heldur að Úkraína færi í bandalag sem væri stefnt gegn Rússum. Af hverju gaf NATO Úkraínumönnum vonir um það? Stjórnvöld sem eiga í stríði gegn hluta þegna sinna eru ekki gjaldgeng þar inn.

Fjölmiðlarnir, New York Times, Guardian og fleiri, sögðu mér að Úkraína væri eitt af alspilltustu löndum heims, ólígarkar hefðu sölsað undir sig það sem þeir gátu og almenningur byggi við sult og seyru. Einnig sögðu þeir frá nýnasískum hersveitum sem væru hluti stjórnarhersins og grimmdarverkum þeirra.

Huffington Post sagði frá því árið eftir Maidan-uppreisnina að ástandið á munaðarleysingjahælum landsins væri skelfilegt, mikið um kynferðisofbeldi og börn hyrfu jafnvel þaðan og fyndust svo myrt. Amma barns með Downs-heilkenni hafði fengið tilboð í barnið – það átti að selja úr því líffærin. Sumar sögur gleymast ekki.

Eftir stjórnarskiptin 2014 tóku Rússar yfir stjórn á Krímskaga átakalaust, enda höfðu þeir hersveitir þar, en Úkraínuher var sendur gegn íbúum Donbasshéraðs sem voru ósáttir við hin nýju stjórnvöld og stóð það stríð þar til nýverið. Talið er að yfir 14.000 manns hafi fallið og 2-3 milljónir lagt á flótta þaðan. Skrifað var undir samkomulag í Minsk um að héruðin í Donbass fengju sjálfstjórn en samt lýsti stjórn Úkraínu því yfir 2019 að úkraínska skyldi ein vera opinbert mál í landinu. Augljóst var að ekki stóð til að virða Minsk-samkomulagið.

Utanríkisráðherrar okkar hafa elt ESB í því að refsa Rússum fyrir að innlima Krímskaga sem var að 3/4 hlutum byggður Rússum og var aðeins talinn hluti af Úkraínu sakir hugdettu Krúsjoffs. Að þeirra mati áttu sömu örlög að bíða íbúa þar og íbúa Donbass – stríð og hörmungar. Illmennska eða heimska?

Eftir að innrás Rússa hófst þá bættust við fleiri upplýsingar. Á Ottawa Citizen mátti lesa að Kanadabúar og fleiri NATO-þjóðir hefðu þjálfað sveitir Úkraínuhers og sent þeim vopn á sama tíma og hernaður gegn íbúum Donbass var enn í gangi. Victoria Nuland (einn af skipuleggjendum Maidan) viðurkenndi tilvist lífefnarannsóknastofa í Úkraínu og gögn sýna að Obama kom að stofnun slíkra rannsóknastofa 2005. Pentagon virðist hafa eytt 200 milljónum bandaríkjadala til reksturs 46 rannsóknastofa í Úkraínu. Af hverju svo margar? Hvaða rannsóknir voru þar í gangi?

Fjölmiðlarnir sem áður fjölluðu opinskátt um nýnasisma virðast hafa fengið fyrirmæli um að gera lítið úr honum nú. En af hverju var fæðingardagur Stepans Bandera, samverkamanns nasista, gerður að opinberum hátíðisdegi í Úkraínu 2018? Skiptir dauði 1.000.000 Pólverja, gyðinga, Rússa og annarra mannvera engu lengur?

Sökin er öll hjá Rússum, segja fjölmiðlarnir nú: það hafi aldrei verið háð stríð þar sem sé jafn augljóst hver sé í órétti. Til þess þurfa menn þó að horfa fram hjá átta ára þjáningum fólksins í Donbass.

Er Selenskí bauð sig fram til forseta lofaði hann að koma á friði í landinu en hernaðurinn gegn Rússum hélt áfram. Hinar nýnasísku Azov-hersveitir höfðu aðsetur sitt í Maríupol (sem útskýrir af hverju borgin er nú í rúst) og herjuðu þaðan. Átti að koma á friði með því að útrýma Rússum (þeirra gyðingum) og koma á hrein-úkraínsku ríki?

Igor Konashenkov hjá varnarmálaráðuneyti Rússa hefur lagt fram skjöl, dagsett 22.1. í ár, sem eru sögð sýna að Úkraínuher hafi skipulagt innrás í Donbass-héruðin með hersveitum er Bretar og Bandaríkjamenn hefðu þjálfað í Lviv til að leggja þau undir sig. Var það kannski alltaf markmið NATO?

Pútín sagði strax í upphafi innrásarinnar hvert markmiðið væri; að frelsa austurhéruðin og afnasistavæða Úkraínu. Því markmiði virðist nú náð og brotthvarf skriðdreka Rússa sem bundu úkraínskar hersveitir við að verja Kíev og fleiri borgir er hafið þegar þessi orð eru skrifuð. Að auki hefur innihald líftæknirannsóknastofanna verið fjarlægt og flutt heim til BNA.

Erum við örugglega í réttu liði?

Höfundur starfar við umönnun aldraðra.

Höf.: Ingibjörgu Gísladóttur