Móttökumiðstöð Tekið er á móti flóttamönnum í Domus Medica.
Móttökumiðstöð Tekið er á móti flóttamönnum í Domus Medica. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Það hefur allt gengið vel hér í Domus og við erum að straumlínulaga alla ferla. Eina sem er að tefja okkur eru læknisskoðanirnar.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það hefur allt gengið vel hér í Domus og við erum að straumlínulaga alla ferla. Eina sem er að tefja okkur eru læknisskoðanirnar. Þar var mikill hali fyrir og nú er verið að reyna að vinna hann niður,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðastjóri teymis um móttöku flóttafólks frá Úkraínu.

Sameiginleg móttökumiðstöð umsækjenda um alþjóðlega vernd í gamla Domus Medica-húsinu hefur að sögn Gylfa gefið góða raun. Þar geta umsækjendur um alþjóðlega vernd nýtt sér þjónustu Útlendingastofnunar, lögreglu, heilsugæslu og fjölmenningarseturs, allt á sama stað. „Helsta verkefnið nú er að koma læknisskoðunum í enn betra horf og það gerum við í góðu samstarfi við heilsugæsluna,“ segir Gylfi.

Í gær höfðu 1.135 sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi frá áramótum og hafa aldrei verið fleiri á einu ári. Þar af eru 728 frá Úkraínu eða með tengsl við landið. Síðustu tvær vikur hafa 233 flóttamenn komið frá Úkraínu. „Þetta heldur áfram að vaxa og vaxa. Upprunalega var gert ráð fyrir 1.500 flóttamönnum vegna stríðsins en maður fer að halda að við verðum fljót að fara yfir þann múr,“ segir Gylfi.

Líkt og komið hefur fram í Morgunblaðinu kveða þeir samningar sem nú eru í gildi á um húsnæði fyrir tvö þúsund einstaklinga á öllum þremur stigum dvalar flóttamannanna. Að sögn Gylfa hafa fyrstu flóttamennirnir nú fengið inni í húsnæði Háskólans á Bifröst. „Það er kominn hópur þangað sem unir sér vel. Þar var tekið á móti þeim með kostum og kynjum. Skipulagið hjá Borgarbyggð hefur verið alveg frábært.“

Í stöðuskýrslu landamærasviðs ríkislögreglustjóra sem birt var í gær kom fram að frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst hafa 727 einstaklingar með tengsl við Úkraínu sótt um vernd á Íslandi, 391 kona, 208 börn og 128 karlar. Síðustu sjö daga hafa 123 einstaklingar með tengsl við Úkraínu sótt um vernd hér sem gerir um 18 einstaklinga á dag. „Ef 7 daga meðaltal er notað sem forspárgildi fyrir fjölda einstaklinga með tengsl við Úkraínu sem sækja um vernd næstu 4 vikur þá má gera ráð fyrir því að sá fjöldi verði um 492 manns,“ segir í skýrslunni.