Hvílíkur maður Tom Hardy í hlutverki sínu.
Hvílíkur maður Tom Hardy í hlutverki sínu. — Skjáskot
Ég veit ekki hvaðan það kemur en tilfellið er að ég er svakalega veik fyrir skoskum og írskum karlmönnum.

Ég veit ekki hvaðan það kemur en tilfellið er að ég er svakalega veik fyrir skoskum og írskum karlmönnum. Ekki einvörðungu er það hinn þokkafulli írski og skoski hreimur á enskri tungu sem bræðir mitt hjarta, heldur finn ég fyrir einhverri alveg sérstakri tengingu, eða því sem mætti kalla skyldleika. Kannski er þetta djúpt í genunum, hið keltneska blóð sem hingað barst upp á strendur Íslands fyrir margt löngu, eða eitthvað allt annað. Einn af þessum mönnum er breski leikarinn Tom Hardy, í hvers æðum rennur að hluta til írskt blóð, en fyrir honum féll ég fyrst í hlutverki Alfie Solomons í þáttunum um Peaky Blinders-gengið, sem einmitt er írskættað. Nýlega lauk ég við að horfa á þáttaseríuna Taboo, á Netflix, en þar fer Tom Hardy með burðarhlutverk og hann kemur líka að framleiðslunni og handritsskrifunum. Ekki varð ég fyrir vonbrigðum, hvílík veisla fyrir mína sál að hafa hann Tom minn svona mikið fyrir augunum. Auk þess fækkar hann líka oft fötum í Taboo, og hvílíkur líkami! Þess ber að geta að í Taboo segir frá James Delaney sem snýr aftur til Englands árið 1814 eftir 12 ár í Afríku og í farteskinu hefur hann demanta og kunnáttu í göldrum. Þarna fáum við að kynnast grimmum stéttarmun, pólitískri og viðskiptalegri spillingu og afar lítt aðlaðandi Englandskóngi og ýmsu fleiru. Mæli sem sagt með.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir