Sólveig Anna Jónsdóttir
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sólveig Anna Jónsdóttir er tekin við á ný sem formaður Eflingar og átökin í félaginu halda áfram.

Sólveig Anna Jónsdóttir er tekin við á ný sem formaður Eflingar og átökin í félaginu halda áfram. Deilt er um stórt og smátt, meðal annars það hvort Sólveigu Önnu hefði verið óskað til hamingju með kjörið á aðalfundinum af þeim sem urðu undir, en hún hélt því fram að það hefði ekki verið gert, að hún hefði ekki fengið blómvönd og ekki verið ætlaður tími til ræðuhalda.

Að minnsta kosti hluti af þessu var borinn til baka af þáverandi varaformanni félagsins, en þetta er lýsandi og dapurlegt dæmi um ástandið innan verkalýðshreyfingarinnar. Sólveig Anna notar hvert tækifæri til að fjargviðrast og skapa sundrungu og hefur þetta háttalag sett allt í uppnám.

Á aðalfundinum hafði hún hugsað sér að breyta lögum þannig að völd sem áður voru hjá gjaldkera og ritara yrðu færð formanni. Þetta mætti andstöðu sem endaði með að Sólveig Anna dró tillöguna til baka og segir það nokkuð um stöðu hennar, enda var hún kosin formaður með afar litlum stuðningi félagsmanna, innan við 8% skráðra félaga, mun minna en hún fékk síðast.

Sólveig Anna heldur því fram að sá hluti stjórnarinnar sem kosinn var í fyrra sé umboðslaus, sem er auðvitað ekki rétt, en sýnir vel hvað hún ætlar sér með félagið. Þar á hún ein að ráða.

Væru völd verkalýðshreyfingarinnar, og þar er Efling stór hluti, ekki jafn mikil og raun ber vitni hér á landi væri þetta ástand ekki til að hafa miklar áhyggjur af. Raunin er hins vegar sú að félag á borð við Eflingu getur valdið miklu tjóni undir forystu sem engu eirir.