Sé horft til frönsku forsetakosninganna eftir tæpar tvær vikur sýnast sigurlíkurnar meiri hjá Macron en Le Pen

Sagt hefur verið að nokkur spenna hafi ríkt um niðurstöðu kosninganna í Frakklandi um síðustu helgi. Ekki svo að skilja að úrslit fengjust þá. Það hlaut að gerast í síðari umferðinni tveimur vikum síðar. En spennan, sem þó var nokkur, snerist um hvort kannanir „ættu kollgátuna“ um að mjórra yrði á milli keppendanna Macrons forseta og Marine Le Pen, helsta andstæðings hans.

Þegar baráttan hófst á milli flokka, fyrir fáeinum mánuðum, töldu sumir kosningaspekingar að frambjóðandi hefðbundinna hægrimanna myndi ná styrk til að etja kappi við forsetann. En þegar nær dró beindust sjónir á ný að frú Le Pen, en hún og faðir hennar áður hafa lengi verið kyndilberar hægra megin við hið hefðbundna hægri. Kannanir bentu ekki aðeins til að frúin myndi ná að komast í aðra umferð, heldur jafnframt að minna bil yrði á milli hennar og forsetans en ætla hefði mátt. Það gekk eftir, en engu að síður gat Macron verið sæmilega sáttur við útkomuna. En það munaði reyndar sáralitlu að leiðtogi Union Populaire, flokks vinstrisósíalista, skákaði Pen og kæmist í lokaslaginn við Macron.

Helstu stuðningsmenn Le Pen bera sig þó vel og telja alls ekki blasa við nú, hver niðurstaðan verði eftir tvær vikur. Þótt frambjóðendurnir tveir, Macron og Le Pen, séu þeir sömu og fyrir 5 árum, þá segir það ekki alla söguna að þeirra mati. Í huga margra kjósenda standi þessi tvö ekki lengur fyrir sömu gildi og síðast þegar þau tvö tókust á. Macron hafði verið skjólstæðingur sósíalistans Hollande, fráfarandi forseta, en hvarf frá stuðningi við hann og flokk hans er Hollande var rúinn fylgi og Macron stofnaði nýjan stjórnmálaflokk um sjálfan sig, tiltölulega skömmu fyrir kosningar, sem var töluvert afrek, og varð vel ágengt. Þannig þótti honum takast betur upp í kappræðu forsetaefnanna en Marine Le Pen. Í kosningabaráttunni þá hafði verið reynt að benda á að Macron hefði ungur rakað saman miklum fjármunum á fáeinum árum í skjólgóðu starfi í bankaheiminum, og var hann uppnefndur litli Rothschild-bankagaurinn. En það lag geigaði og Macron og hinum nýja flokki hans gekk vel að stilla honum upp sem nýjum baráttumanni almennings. Nú segja stuðningsmenn Le Pen að það gervi dugi ekki forsetanum lengur, enda passi hann ekki í hlutverkið. Það sé orðið langt síðan hann tók að sýna á spilin sín í þeim efnum. Hann hefði tekið mjög fast á móti kröfugöngum og mótmælum og sýnt ótrúlegt miskunnarleysi og stundum hreint lögregluofbeldi. Það færi því ekkert á milli mála lengur að þar færi maður ríka fólksins, þess hóps sem hefði ekkert að óttast og hvorki verðbólga né atvinnuleysi í bland við kaupmáttarrýrnun hreyfðu við í tilverunni. Le Pen legði á hinn bóginn höfuðáherslu á að bregðast yrði án tafar við framfærsluvanda heimilanna, sem hefði snarversnað í forsetatíð Macrons.

Forsetinn reiknar dæmið þannig nú, að þau 28 prósent sem hann fékk sem beinan stuðning í fyrstu umferð muni duga honum. Því nú dugi honum að fá þau rúmu 25 prósent af atkvæðum sem féllu á aðra til að greiða atkvæði gegn Le Pen í síðari umferð. Það fengist með hefðbundnum áróðri gegn „hægri öfgamönnum“ og hættunni miklu sem stafaði frá þeim. Þetta reikningsdæmi Macrons virðist vissulega vera tiltölulega þægilegt og öruggt og fordæmin eru mörg til um það. Flokkur vinstri sósíalista varð sem fyrr sagði þriðji hæstur í fyrri umferð kosninganna. Ef það fylgi færi að langmestum hluta á forsetann væri hann kominn langleiðina með sigur. Formaður þess flokks, Mélenchon, hefur þegar skorað á sína kjósendur í fyrri umferð, að láta ekkert atkvæði falla á Le Pen í þeirri síðari. En formaðurinn lét þó ógert að skora á þá að kjósa Macron, og leggja andstæðingar hans nokkuð upp úr því.

Seinustu kannanir sýna að um þriðjungur flokks vinstri sósíalista ætlar að kjósa Macron, þriðjungur Le Pen og aðrir ætla ekki að mæta á kjörstað eða skila auðu.

Slíkar tölur ýta nokkuð undir vonir stuðningsmanna Le Pen um að hún verði hinn óvænti sigurvegari kosninganna.

Enn sem komið er virðast sigurlíkurnar þó vera meiri hjá Macron forseta en henni.