Nýverið lagði ég fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga.

Nýverið lagði ég fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga. Með því er brotaþolum kynferðisbrota veitt meiri aðkoma að sakamálum er þá varða og réttarstaða fatlaðs fólks og aðstandenda látins einstaklings við meðferð sakamála er bætt.

Með frumvarpinu er meginmarkmiðum þeirra umbóta sem krafist hefur verið náð fram. Ekki síst vegna hagsmuna brotaþola var sú ákvörðun tekin að vandlega íhuguðu máli, að gera brotaþola ekki að aðila máls. Ég hvet alla sem málið snertir að kynna sér þau auknu réttindi sem breytingarnar fela í sér.

Lagt er til að brotaþoli og réttargæslumaður brotaþola fái aukinn aðgang að gögnum á rannsóknarstigi. Aðgangur þeirra verður í aðalatriðum sá sami og sakborningur og verjandi hans njóta. Tryggður er réttur brotaþola til að vera viðstaddur lokað þinghald eftir að hafa gefið skýrslu.

Réttargæslumaður fær heimild til að leggja spurningar milliliðalaust fyrir vitni, brotaþola og ákærða við meðferð máls fyrir dómi. Hann má spyrja um atriði er varða refsikröfu ákæruvalds og einkaréttarkröfu brotaþola en ekki eingöngu beina tilmælum til dómara um að spurt verði um atriði sem lúta að einkaréttarkröfunni. Réttargæslumanni er sömuleiðis heimilt að beina tilmælum til lögreglu um að lagðar verði tilteknar spurningar fyrir sakborning og vitni.

Brotaþola verður heimilt að leggja fram sönnunargögn í refsiþætti málsins eða til að færa sönnur á einkaréttarkröfu brotaþola á hendur ákærða.

Rýmri skilyrði eru til skipunar réttargæslumanns fyrir æðri dómi. Breytingin styrkir brotaþola við það að fylgja því eftir að einkaréttarkröfur brotaþola fái efnismeðferð fyrir dómi, gætir hagsmuna hans við málsmeðferð fyrir æðri dómi og eykur líkurnar á að mál upplýsist að fullu.

Rétt er að nefna heimild brotaþola til að taka stuttlega til máls í lok aðalmeðferðar á sama hátt og ákærða og er breytingin til þess fallin að stuðla að jafnræði á milli ákærða og brotaþola.

Upplýsingaflæði til brotaþola verður aukið því lögreglu og ákæranda ber skylda til að upplýsa brotaþola ef sakborningur hefur verið úrskurðaður í eða látinn laus úr gæsluvarðhaldi sem og ef dómi í sakamálinu sem snertir brotaþola hefur verið áfrýjað eða sótt um leyfi til þess. Skyldur af þessu tagi er nú að finna í fyrirmælum ríkissaksóknara en rétt þykir að kveða á um þær í lögum. Lagt er til að Fangelsismálastofnun fái lagaheimild til að upplýsa brotaþola um tilhögun afplánunar fanga sem brotið hefur gegn honum.

Ég er sannfærður um að þær breytingar á lögum sem lagðar eru til feli í sér mikla réttarbót fyrir brotaþola kynferðisbrota og vænti þess að góð samstaða náist um málið á Alþingi og það verði afgreitt sem lög á yfirstandandi þingi.

Höfundur er dómsmálaráðherra.