Orka Spáð er að efnahagur Rússlands dragist saman um 11,2% í ár.
Orka Spáð er að efnahagur Rússlands dragist saman um 11,2% í ár. — AFP
Rússland mun leita til dómstóla ef vesturveldin reyna að neyða landið í greiðslufall ríkisskulda, að sögn fjármálaráðherra landsins, Antons Siluanovs, sem ræddi málið við rússneska dagblaðið Izvestia í gær.

Rússland mun leita til dómstóla ef vesturveldin reyna að neyða landið í greiðslufall ríkisskulda, að sögn fjármálaráðherra landsins, Antons Siluanovs, sem ræddi málið við rússneska dagblaðið Izvestia í gær. „Auðvitað munum við höfða mál, af því að við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að lánardrottnar fái afborganirnar,“ sagði Siluanov og bætti við að greitt yrði af lánunum bæði í rúblum og erlendum gjaldeyri.

Eins og Reuters greinir frá sér Rússland nú fram á mögulegt greiðslufall ríkisskulda sinna í fyrsta skipti í meira en heila öld.

Ráðherrann segir erlendar skuldir landsins nema um 20% af heildarskuldum sem eru nú 21 trilljón rúbla, eða 261,7 milljarðar Bandaríkjadala. Þar af eru 4,5-4,7 trilljónir rúblna erlendar skuldir.

Rússar hafa ekki misst úr afborgun á erlendum skuldum sínum síðan um og eftir byltinguna í landinu árið 1917. Skuldir landsins hafa nú komist í sviðsljósið vegna efnahagslegra stimpinga landsins við vesturveldin sem eru tilkomnar vegna hernaðar Rússlands í Úkraínu.

Gengið veiktist

Reuters greinir einnig frá því að gengi rúblunnar hafi veikst snögglega í gær, eftir að hafa styrkst í síðustu viku í kjölfar þess að seðlabankinn slakaði á tímabundnum gjaldeyrishöftum sem koma áttu í veg fyrir veikingu gjaldmiðilsins.

Greinandi hjá ITI Capital sagði Reuters að Rússland fengi um 1,4 ma. dala á dag í útflutningstekjur og rúblan gæti styrkst frekar, vegna hafta og minni innflutnings.