Fyrirlesari Dr. Corentin Charbonnier heldur áhugavert erindi.
Fyrirlesari Dr. Corentin Charbonnier heldur áhugavert erindi.
Franski félagsfræðingurinn dr. Corentin Charbonnier mun kynna rannsóknir sínar á þungarokki sem samfélagslegu fyrirbrigði í Háskóla Íslands í dag, þriðjudag, kl. 9 í Odda, stofu 202 og seinna í dag í Háskólanum á Akureyri.

Franski félagsfræðingurinn dr. Corentin Charbonnier mun kynna rannsóknir sínar á þungarokki sem samfélagslegu fyrirbrigði í Háskóla Íslands í dag, þriðjudag, kl. 9 í Odda, stofu 202 og seinna í dag í Háskólanum á Akureyri. Það er námsbraut í félagsfræði við HÍ og hug- og félagsvísindasvið HA sem standa að fyrirlestrunum.

Dr. Charbonnier starfar við Tours-háskóla. Rannsóknir hans hafa meðal annars snúist um þungarokkshátíðir (Hellfest), veruhátt og félagslegar forskriftir þungarokksaðdáenda auk almennra rannsókna á þessum risavaxna menningarkima dægurtónlistarinnar.

Verðugt vísindalegra athugana

Að sögn Arnars Eggerts Thoroddsen, aðjúnkts í félagsfræði við Háskóla Íslands, er mikill fengur að komu dr. Charbonniers. „Hann er stundum erfiður róðurinn þegar kemur að því að sannfæra fólk um að dægurtónlist, að ekki sé talað um þungarokk, sé verðug vísindalegra athugana. Hér erum við komin með skínandi dæmi um nákvæmlega það en dr. Charbonnier hefur sýnt rækilega fram á það með rannsóknum sínum hvernig menning og afþreying mótar okkur og skilgreinir sem manneskjur, rétt eins og annað í umhverfinu,“ segir Arnar.

Hann hvetur alla áhugamenn um félagsvísindi, tónlist, þungarokk og samblöndun þessara þátta til að mæta en aðgangur er öllum opinn og ókeypis.