Í skotgröfum Úkraínskir hermenn skjóta úr skotgröfum sínum í nágrenni Luhansk, þar sem átökin eru að harðna.
Í skotgröfum Úkraínskir hermenn skjóta úr skotgröfum sínum í nágrenni Luhansk, þar sem átökin eru að harðna. — AFP/Anatolii Stepanov
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Úkraínskir landgönguliðar í Maríupol vöruðu við því í gær að „síðasta orrustan“ um hafnarborgina væri nú að hefjast, en Rússar hafa setið um borgina nánast frá fyrsta degi innrásarinnar.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Úkraínskir landgönguliðar í Maríupol vöruðu við því í gær að „síðasta orrustan“ um hafnarborgina væri nú að hefjast, en Rússar hafa setið um borgina nánast frá fyrsta degi innrásarinnar.

Vöruðu landgönguliðarnir við því að þeir væru að klára skotfærin sín, og áttu þeir von á því að þeirra biði annaðhvort dauðinn eða fangavist í klóm Rússa. Sögðust þeir hafa gert allt sem í þeirra valdi stæði til þess að halda borginni. Nái Rússar Maríupol á sitt vald munu þeir hafa tryggt sér óslitið landsvæði frá Krímskaga að Donbass-héruðunum og aftur til Rússlands.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti ávarpaði í gær suðurkóreska þingið, og sagði þar að Rússar hefðu lagt Maríupol í eyði. „Rússarnir eyðilögðu Maríupol algjörlega og brenndu til ösku. Að minnsta kosti tugþúsundir íbúa hennar hljóta að hafa farist,“ sagði Selenskí í ávarpi sínu, en hann hvatti þar Suður-Kóreumenn til að senda vopn til Úkraínu á borð við skriðdreka og flugvélar.

Suður-Kórea hefur hingað til sent hergögn á borð við hjálma og sjúkrabirgðir til Úkraínu, en stjórnvöld þar neituðu nýlega beiðni Úkraínumanna um að senda þeim loftvarnakerfi, á þeim forsendum að slíkt myndi veikja varnir landsins gegn Norður-Kóreu.

Fundaði með Pútín

Karl Nehammer, kanslari Austurríkis, fundaði í gær með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Moskvu, en Nehammer varð þar með fyrsti leiðtoginn á Vesturlöndum til að funda með Pútín frá upphafi innrásarinnar.

Sagði Nehammer í yfirlýsingu eftir fundinn að ekki hefði verið um „vinaheimsókn“ að ræða, heldur hefðu samskipti þeirra verið „beinskeytt, opin og erfið“. Sagðist Nehammer hafa lagt áherslu á að allir þeir sem hefðu framið stríðsglæpi í Bútsja og annars staðar yrðu að sæta ábyrgð fyrir þá, sem og að brýnt væri að tryggja að óbreyttir borgarar gætu flúið umsetnar borgir á borð við Maríupol.

Nehammer heimsótti Selenskí í Kænugarði á laugardaginn, og sögðu austurrísk stjórnvöld að ákvörðun hans um að heimsækja Pútín í Moskvu hefði verið tekin í kjölfarið, og með vitund Úkraínumanna og Þjóðverja.

Vill senda þungavopn

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, lýsti því yfir í gær að vestræn ríki ættu að veita Úkraínumönnum þungavopn til að liðsinna þeim í baráttunni við innrásarherinn. Ummæli Baerbock féllu fyrir fund utanríkisráðherra Evrópusambandsins í Lúxemborg í gær og voru þau túlkuð sem gagnrýni á Olaf Scholz Þýskalandskanslara, sem sagður er nú standa í vegi fyrir að Þjóðverjar sendi skriðdreka og loftvarnakerfi til Úkraínu.

Vísaði Baerbock til stríðsglæpa Rússa í Úkraínu og sagði að á hverjum degi virtist sem að hyldýpið yrði meira og þörfin á aðstoð vesturveldanna meiri. „Nú er ekki tími afsakana; nú er tími fyrir hugmyndaauðgi og raunhæfar lausnir,“ sagði Baerbock, og vísaði þar til svara Christine Lambrecht, varnarmálaráðherra Þjóðverja og flokkssystur Scholz, sem sagði það flókið mál að senda slíkan búnað til Úkraínu.

Úkraínumenn hafa á síðustu dögum kallað eftir brýnni aðstoð frá vesturveldunum, þar sem gert er ráð fyrir að Rússar muni á komandi dögum og vikum reyna stórsókn í austurhluta landsins.

Meðal teikna um að slík sókn sé í vændum var bílalest, sem teygði sig um tólf kílómetra eftir þjóðvegi í nágrenni Karkív og Isíum, og var sögð á leiðinni til Donetsk- og Luhansk-héraðanna í austurhluta Úkraínu.

Þá skipuðu Rússar um helgina hershöfðingjann Alexander Dvornikov sem yfirmann herferðarinnar, en fyrir þá skipan voru fjórir mismunandi undirhershöfðingjar sem stýrðu fjórum mismunandi sóknaraðgerðum Rússa, að því er virðist án samræmingar á milli herjanna.

Höfðu vestrænir sérfræðingar í varnarmálum undrast þá skipan mála, en Dvornikov hefur nokkra reynslu úr seinna Téténíustríðinu sem og inngripum Rússa í Sýrlandi. Þar er Dvornikov sagður hafa helst beitt stórfelldum árásum flughers og stórskotaliðs til að undirbúa jarðveginn áður en landher hæfi sóknina. Eiga vestrænir varnarsérfræðingar von á að svipað verði upp á teningunum nú, en Rússar beindu miklum stórskotaliðsárásum að austurhluta landsins um helgina.

Öðruvísi aðstæður en í norðri

En hverju má búast við í „orrustunni um Donbass“ þegar hún hefst? Rússar eru sagðir búa yfir nokkrum styrkleikum þar, sem ekki voru til staðar í sókn þeirra að Kænugarði sem misheppnaðist.

Í fyrsta lagi má nefna að landslagið í Donbass er sagt bæði flatara og opnara en í norður- og vesturhluta Úkraínu. Slíkt landslag hentar stórum skriðdrekaher betur til sóknar en landslagið í nágrenni Kænugarðs, þar sem Úkraínumenn munu hafa færri tækifæri til þess að sitja fyrir skriðdrekunum og beita eldflaugavopnum sínum gegn þeim. Á móti kemur að enn er nokkur leðja í jörðu, sem gæti hamlað tilraunum Rússa til að sækja fram.

Þá eru Donbass-héruðin mun nær Rússlandi, og því eiga Rússar að geta haldið her sínum birgðum betur en þeir gerðu í norðri, þar sem þeir teygðu á birgðalínum sínum og gáfu Úkraínumönnum þannig færi á að herja á birgðirnar. Að sama skapi þýðir það einnig, að fari sókn Rússa út um þúfur munu þeir eiga auðveldara með að halda því landsvæði sem þeir hafa þegar unnið gegn gagnsóknum Úkraínumanna.

Talið er að eitt helsta markmið Rússa í orrustunni verði að tengja á milli Isíum í norðri og Donetsk-héraðs og Maríupol í suðri, en slík tenging gæti þýtt að um þriðjungur alls herafla Úkraínu yrði luktur inni, og þar á meðal þær hersveitir Úkraínumanna sem hafa mesta bardagareynslu. Það er þó ekki hlaupið að því að umkringja fjölmenna heri, og gera má ráð fyrir að hluti þess herliðs sem varið hefur Kænugarð myndi reyna að koma til aðstoðar.