Jón Hreinsson fæddist 15. september 1965. Hann lést 1. apríl 2022.

Útför Jóns fór fram 11. apríl 2022.

Kveðja frá Búseta

Fyrstu kynni mín af Jóni Hreinssyni voru árið 1999 þegar hann og vinur hans Gísli Örn komu til liðs við þá nýjan félagsskap sem hét JCC Höfði og var viðskiptaklúbbur fyrir ungt fólk. Fljótlega var ljóst að hér voru öflugir menn á ferð, báðir Norðlendingar og stoltir af sínum uppruna. Við Jón unnum saman að nokkrum verkefnum fyrir það félag, m.a. fjölmennum kynningarfundi þar sem Jón aðstoðaði mig við kynningu á félaginu.

Jón kom fyrir sem einkar glaðsinna einstaklingur með ríka kímnigáfu, en fylginn sér og gat verið alvarlegur þegar svo bar við. Það var þó ekki fyrr en ég kom inn í stjórn Búseta árið 2009 sem kynni okkar hófust fyrir alvöru, en Jón var þá búinn að vera stjórnarmaður síðan 2007. Jón sat samfellt í stjórn Búseta til 2020 þegar hann hvarf úr stjórn sökum heilsubrests. Jón lagði drjúgan tíma af mörkum til starfsemi Búseta og hafði einlægan áhuga á þessu búsetuúrræði fyrir fólk á öllum aldri, ekki síst yngra fólk. Kom þar berlega í ljóst að Jón var samvinnusinnaður maður sem trúði á hugsjónir húsnæðissamvinnufélaga. Hafði ég stundum á orði við hann að samvinnuhreyfingin væri honum í blóð borin enda ættaður frá Sauðárkróki. Það sem Jón lagði hvað mest af mörkum til starfs stjórnar var yfirburðaþekking hans á fjármálum og öllu því sem snerti ársreikninga og fjárfestingar félagsins.

Tölur vöfðust ekki fyrir Jóni sem var skarpgreindur og fljótur að hugsa. Svo fljótur var hann jafnan að við hin í stjórn vorum oft aðeins á eftir því hann talaði líka hratt. Jón var einnig hvers manns hugljúfi og var stutt í kímnigáfu hans þegar kom að mönnum og málefnum. Við ræddum oft okkar sameiginlega áhugamál sem var golfið, en Jón stundaði það af kappi á meðan heilsa hans leyfði. Jón var traustur maður að leita til og ávallt sjálfum sér samkvæmur í ákvörðunum í málefnum er vörðuðu stjórn.

Hans er enn sárt saknað úr stjórnarherberginu og mikill missir að slíkum manni með jafn mikla hæfileika til orðs og æðis. Vil ég þakka honum framlag hans til Búseta um leið og ég kveð hann fyrir hönd stjórnar Búseta. Ennfremur sendir stjórn Búseta innilegar samúðarkveðjur til eiginkonu hans, Regínu, og fjölskyldu. Megi minning Jóns lifa.

F.h. Búseta húsnæðissamvinnufélags,

Jón Ögmundsson

stjórnarformaður.