Eggert J. Levy sendi mér góðan póst, Vorljóð. Vorið svífur vægt um grund vinaþræðir kætast hentugt fyrir hal og sprund er hitaskilin mætast. Vorið faðmar vinastund veitir öllum gleði ástin gefur gull í mund gleymum öllu streði.

Eggert J. Levy sendi mér góðan póst, Vorljóð.

Vorið svífur vægt um grund

vinaþræðir kætast

hentugt fyrir hal og sprund

er hitaskilin mætast.

Vorið faðmar vinastund

veitir öllum gleði

ástin gefur gull í mund

gleymum öllu streði.

Um landið læðist vorið

lækirnir fullir af gáska

hamingjan hittir á sporið

þó heimurinn lifi í háska.

Baldur Hafstað sendi mér stökur úr vísnasafni Hofdala-Jónasar:

Veðrabrigði.

Sunnudagur sólarfagur

sveif um haga á geislatám,

en að kveldi kuls úr veldi

klæddist feldi þokugrám.

Litið í spegil.

Ekkert fagurt er á segg,

ofan brýrnar hanga,

þriggja daga skolgrátt skegg

„skreytir“ þunna vanga.

Efnahagurinn.

Smátt fer orð af auðlegð minni,

aldrei verð ég margálna;

hangi svona á horriminni

húsgangs milli og bjargálna.

Hallmundur Guðmundsson skrifaði 1. apríl: „Helstu tíðindi hádegisfrétta RÚV í dag eru að Raspútín er/var langafi Pútíns“:

Raspútín nú ættarlaukur er

allra mestu garpa.

Að Pútín í hans ætt sig sver,

um þarf síst að karpa.

Jón Jens Kristjánsson skrifar: „Monthús Landsbankans er klætt stuðlabergi utan“.

Svo haldið sé upp á heiður þann

að hafa þjóðina sogið mergs

er látin utan á Landsbankann

liggjandi klæðning stuðlabergs.

Enn skrifar Jón Jens: „Styttan af Guðríði Þorbjarnardóttur fannst í eldflaug fyrir utan Nýlistasafnið.“

Frá Hellnum Guðríður hófst á loft

með hjálp frá ókunnum skyttum

þetta kvað henda ekki oft

og allra síst hjá styttum

um erindi hennar enginn veit

þó ýmsir í málið lesi

og verður hún aftur vistuð í sveit

vestur á Snæfellsnesi.

Hér er limra eftir Kristján Karlsson:

Hávarður prestur á Hól

er hálfgildings skrapatól.

Hann gleymdi hér eyra

og einhverju fleira

sem lá andatak kyrrt í hans stól.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is