Gölluð Kvikmyndin um hina lifandi vampíru Morbius er gölluð að flestu leyti. Hér sést Morbius í vampírulíki, verulega ófríður eins og sjá má.
Gölluð Kvikmyndin um hina lifandi vampíru Morbius er gölluð að flestu leyti. Hér sést Morbius í vampírulíki, verulega ófríður eins og sjá má.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Daniel Espinosa. Handritshöfundar: Matt Sazama og Burk Sharpless. Aðalleikarar: Jared Leto, Matt Smith, Adria Arjona og Jared Harris. Bandaríkin, 2022. 104 mín.

Enn ein persónan úr heimi Marvel hefur nú fengið sína upprunasögu á hvíta tjaldinu. Morbius heitir hún og er í einfölduðu máli bara vampíra, líkt og Drakúla, nema hvað þessi vampíra þolir alveg sólarljós, hvítlauk og vígt vatn. Vampírur eru nú alltaf skemmtilegar og margar afbragðskvikmyndir hafa verið gerðar um þær í gegnum tíðina en Morbius er því miður ekki ein þeirra.

Þessarar nýjustu myndar frá Sony hefur verið beðið nokkuð lengi en hún er sumsé ekki afurð Marvel-kvikmyndaveldisins sem Kevin Feige stýrir heldur Sony-deildarinnar, ef svo mætti útskýra í einfölduðu máli. Þaðan koma líka myndirnar um Köngulóarmanninn og Venom, fyrir þá sem ekki vita. En eins og gefur að skilja skarast þessir heimar að einhverju leyti og mun Morbius tilheyra heimi gömlu myndanna um Köngulóarmanninn, ef rétt er skilið hjá mér.

Morbius rekur sögu bráðsnjalls vísindamanns, Michaels Morbius (Jared Leto), sem haldinn er sjaldgæfum sjúkdómi sem veldur því að hann þarf blóðgjöf daglega til að halda lífi. Snemma myndar afþakkar hann sjálf Nóbelsverðlaunin fyrir afrek sín á sviði læknavísinda, þróun gerviblóðs sem bjargað hefur mörgum mannslífum. Þá strax sést hversu gölluð myndin er því verðlaunin eru kynnt og Morbius staulast á fætur og síðan er klippt yfir í næsta atriði þar sem hann segir barnungum sjúklingi að hann hafi afþakkað verðlaunin. Leikstjórinn ákvað sumsé að sýna ekki þá uppákomu í atriðinu á undan sem hefði verið öllu betra bíó enda væri það heimsfrétt ef einhver afþakkaði slík verðlaun. Og af hverju hann afþakkaði þau virðist algjört aukaatriði.

En gott og vel, áfram með smjörið. Morbius hefur sumsé þróað merkilegt gerviblóð og stundar í laumi tilraunir með blóð úr mönnum og leðurblökum. Úr því verður sannkallað töfralyf sem Morbius biður aðstoðarkonu sína um að sprauta í sig. Henni til furðu og hryllings breytist hann þá í einhvers konar leðurblökuskrímsli sem ræðst á fólk og drekkur úr því blóðið. Þetta gerist um borð í skipi utan lögsögu Bandaríkjanna því tilraunirnar eru ekki alveg löglegar, eins og Morbius segir sjálfur frá. Vellauðugur vinur hans, Milo (Matt Smith), kemst að því að Morbius hafi þróað þetta lyf eða öllu heldur eitur og tekur það sjálfur inn í leyfisleysi. Breytist hann þá úr frekar vinalegum náunga í siðlausan skíthæl og vampíru sem drepur mann og annan og blóðtæmir. Endar þessi þunna saga svo í átökum vampíranna tveggja og furðulegum fyrirheitum um framhaldsmyndir sem vonandi verða aldrei gerðar.

Eldist ekkert á 25 árum

Nú hefur þessa kvikmynd hlotið einhverja neikvæðustu gagnrýni sem sést hefur um kvikmynd sem unnin er upp úr heimi Marvel og það er skiljanlegt að mörgu leyti en þó ekki öllu. Jared Leto, sem leikur Morbius, hefur verið úthúðað sem hörmulegum leikara sem hann er þó ekki. Hann er sæmilegur leikari en lítið meira en það og líklega er leikstjórninni frekar um að kenna en leikaranum sjálfum þegar kemur að frammistöðu hans í Morbius . Morbius er þjáður, alvörugefinn og í raun óttalegur leiðindapúki. Matt Smith nýtur sín mun betur í hlutverki Milo og sýnir skemmtileg tilþrif eftir að hann umbreytist. Um aðra leikara er svo sem lítið að segja, Jared Harris er virkilega góður leikari en hvað olli því að hann tók þetta ómerkilega hlutverk að sér veit ég ekki. Hann leikur lækni sem annast Michael og Milo allt frá því þeir eru drengir. Samt sem áður eldist persóna Harris ekkert í myndinni, þó um aldarfjórðungur líði milli fyrsta atriðis og þess síðasta með honum. Einhverra hluta vegna er hann líka í Nóbelsathöfninni að afhenda sjúklingi sínum verðlaun sem hann svo afþakkar án þess að það sé sýnt.

Kannski var handrit myndarinnar hvorki fugl né fiskur, kannski var hún illa klippt, hver veit. Eitt er þó víst, eitthvað fór úrskeiðis í þessu ferli frá hugmynd að kvikmynd. Myndin er reyndar ekki svo slæm framan af, á meðan Morbius er að gera tilraunir á músum og loks að umbreytast, þar örlar á nokkurri spennu. Eftir umskiptin fellur myndin hins vegar alveg flöt og verður að hreinum leiðindum. Er það einkum vegna þess að hasaratriðin í seinni hlutanum eru algjör glundroði, oftar en ekki sér maður ekkert hvað er að gerast. Tölvubrellumenn hafa búið til einhvern graut sem engu skilar öðru en pirringi og áreiti og þá líka vegna þess að allri hreyfingu fylgir einhvers konar litaður reykur sem gerir óskýr atriðin enn óskýrari.

Úr litlu að moða

Morbius er blóðlaus bræðingur vampírusögu og Marvel-upprunasögu og erfitt að átta sig á því af hverju ráðist var í gerð myndarinnar yfirleitt. Hér er úr litlu sem engu að moða og skondið að hugsa til þess að Leto tók hlutverkið svo alvarlega að hann fór um í hjólastól á tökustað, eða svo segir sagan, til að festa sig betur í hlutverki Morbiusar sem er framan af mynd farlama og nær dauða en lífi. En fyrir kvikmynd af þessu tagi held ég að varla þurfi til hina svokölluðu „method acting“-leikaðferð, hlutverkið reynir það lítið á. Morbius er sumsé ekki alslæm, á einstaka góða spretti í fyrri hlutanum en óspennandi aðalpersóna, alltof einföld saga og fráhrindandi tölvubrellur munu líklega og vonandi gera þetta að fyrstu og einu myndinni um hina lifandi vampíru.

Helgi Snær Sigurðsson

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson