Brunavarnir Vissara að hafa hlutina í lagi, svo ekki sé þörf á slökkviliði.
Brunavarnir Vissara að hafa hlutina í lagi, svo ekki sé þörf á slökkviliði. — Morgunblaðið/Ómar
Nýlega framkvæmdi Brunavarnasvið HMS, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, könnun á stöðu brunavarna á heimilum fólks. Í ljós kom að 98% svarenda eru með reykskynjara, 86% með slökkvitæki og 75% með eldvarnarteppi.

Nýlega framkvæmdi Brunavarnasvið HMS, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, könnun á stöðu brunavarna á heimilum fólks. Í ljós kom að 98% svarenda eru með reykskynjara, 86% með slökkvitæki og 75% með eldvarnarteppi. Þá eru 54% með þrjár brunavarnir á heimilinu, 29% með tvær brunavarnir og 12% með eina brunavörn.

Könnunin var gerð af Maskínu og var spurt um brunavarnir á heimilum, flóttaleiðir og annað sem snýr að brunavörnum heimilisins. Markmið könnunarinnar var að ná fram upplýsingum um stöðu brunavarna á heimilum fólks í landinu, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Dagur reykskynjarans, 1. desember, sem er átak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og HMS er virkur þátttakandi að, hefur verið árangursríkur í gegnum árin og er sú herferð keyrð árlega þegar nær dregur jólum. Í kjölfarið á degi reykskynjarans lét Brunavarnasvið HMS gera umrædda könnun.

Fram kemur í tilkynningu LSS að viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff, sem brenndist illa í eldsvoða í Mávahlíð haustið 2019, hafi vakið mikil viðbrögð en hún steig fram í brunavarnaátaki LSS árið 2021. Vakti þetta almenning til umhugsunar um brunavarnir. Helmingur þeirra sem sáu átakið skoðaði brunavarnir heimilisins í kjölfarið.

Slökkviliðsmenn minna á að það sé ekki nóg að hafa eldvarnartæki á heimilinu, þau þurfi líka að virka og vera sýnileg. Fólk þurfi að kunna á þau, setja upp flóttaáætlun og skipuleggja flóttaleiðir á heimilinu.