Fyrir kosningarnar árið 2013 var aðeins einn leiðtogi stjórnmálaflokkanna sem lofaði miklum heimtum fjármuna úr fórum kröfuhafa hinna föllnu banka. Það var líka aðeins einn leiðtogi stjórnmálaflokkanna sem stóð við það loforð og gott betur.

Fyrir kosningarnar árið 2013 var aðeins einn leiðtogi stjórnmálaflokkanna sem lofaði miklum heimtum fjármuna úr fórum kröfuhafa hinna föllnu banka. Það var líka aðeins einn leiðtogi stjórnmálaflokkanna sem stóð við það loforð og gott betur. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tryggði heimtur til handa ríkissjóði í formi stöðugleikaframlaga frá kröfuhöfum, sem varð grundvöllur hröðustu efnahagslegu umskipta nokkurs ríkis í kjölfar efnahagshrunsins. Eignarhlutur ríkissjóðs í Íslandsbanka er hluti af þessu uppgjöri.

Þetta uppgjör við kröfuhafa föllnu bankanna reyndist líka forsenda þess að ríkissjóður var síðar í færum til að standa af sér þau efnahagslegu áföll sem dundu á Íslendingum í nýafstöðnum heimsfaraldri. Án stöðugleikaframlaganna undir forystu Sigmundar Davíðs væri staðan sannarlega slæm í dag.

Ríkissjóður fékk 95% af hlutafé Íslandsbanka afhent í formi þessara framlaga. Það hefur síðan skilað Íslendingum, raunverulegum eigendum bankans, miklu fé í ríkissjóð í formi arðgreiðslna og sölu á hlutum í bankanum; um 180 milljörðum nú þegar og enn á ríkissjóður hlut í bankanum upp á um 95 milljarða. Samtals skilar Íslandsbanki því um 275 milljörðum.

Miðflokkurinn, undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, lofaði því í síðustu alþingiskosningum að afhenda Íslandsbanka þeim sem þegar eiga hann; Íslendingum, með beinum hætti. Þannig hefði hver Íslendingur fengið úthlutaðan jafnan hlut sem næmi nú um milljón króna fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu. Það er eitthvað.

En sú leið var ekki farin heldur önnur sem nú hefur valdið miklu ósætti, tortryggni í garð sölu ríkiseigna og miklu vantrausti. Ekki bætir úr skák að þeir sem halda á ábyrgð í málinu á stjórnarheimilinu hafa stimplað sig út úr allri málefnalegri umræðu um söluna, horfa í hina áttina og vona að einhverjir aðrir endi með þetta í sinni kjöltu.

Í ríkisstjórninni er hver höndin upp á móti annarri. Þeir sem yfirhöfuð hafa gefið kost á viðtali við fjölmiðla eða tjáð sig á annað borð reyna að bera sakir á einhvern annan og upphefja sjálfa sig í leiðinni. Þingmenn stjórnarflokkanna sem tjá sig þykjast lítið vita um málið, segjast voða svekktir. Aðrir halda dauðahaldi í þögnina og vona að málið verði bara búið fljótt. Einn ráðherranna og formaður eins stjórnarflokksins fer áfram huldu höfði eftir alvarleg ummæli á búnaðarþingi sem honum hefur reynst erfitt að þyrla upp nægu ryki um svo fólkið sjái ekki það sem blasir við: lélegt innihald í smart umbúðum góðra almannatengla.

Ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir eru á flótta undan sjálfum sér.

Er þá ekki bara best að fara að ráðum Miðflokksins og afhenda Íslandsbanka með beinum hætti til raunverulegra eigenda, Íslendinga? Það er ekki of seint.

Höfundur er þingmaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is

Höf.: Bergþór Ólason