Birgir Ármannsson
Birgir Ármannsson
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Við höfum verið að fara yfir athugasemdir.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Við höfum verið að fara yfir athugasemdir. Þing kemur aftur saman í síðustu viku aprílmánaðar og fram til þess tíma þurfum við að athuga hvað, ef eitthvað, er hægt að gera,“ segir Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, spurður hvort hann hafi hugsað sér að beita sér fyrir lagfæringum á hæfisskilyrðum fyrir kjörstjórnarfólk í sveitarstjórnarkosningum.

Forveri Birgis í embætti, Steingrímur J. Sigfússon, lagði fram frumvarp að nýjum kosningalögum þar sem ýmsum lögum um kosningar var rennt saman í einn lagabálk. Tóku lögin gildi um áramót.

Þegar á lögin fór að reyna nú í undirbúningi kosninga til sveitarstjórna kom í ljós að hert hæfisskilyrði kjörstjórna útilokuðu fjölda reyndra kjörstjórnarmanna frá störfum. Hafa afföllin orðið mikil og sannarlega til vandræða í sumum sveitarfélögum. Þá hefur verið bent á að ekki er kveðið á um undanþágu frá þessum ströngu hæfisskilyrðum í sveitarfélögum þar sem óhlutbundnar kosningar eru. Samkvæmt bókstaf laganna væru þar allir íbúar vanhæfir til setu í kjörstjórn. Landskjörstjórn túlkar lögin þó þannig að hæfisskilyrðin gildi ekki þar, annars væri verið að útiloka óhlutbundnar kosningar og það hafi ekki verið vilji löggjafans. Eigi að síður getur þessi galli á lagasetningunni leitt til þess að þeir sem ekki ná markmiðum sínum í kosningum freistist til að kæra og fara jafnvel með mál sitt fyrir dómstóla.

Einfaldar lagfæringar

Bent hefur verið á að hægt væri að leysa úr þeim vanda sem upp hefur komið með tiltölulega litlum lagfæringum á lögunum, meðal annars að skýr undanþága verði sett um að hæfisskilyrði gildi ekki um óbundnar kosningar og slakað verði á hæfisskilyrðum til fólks sem situr í undirkjörstjórnum.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fjallaði um málið á fundi í síðustu viku kallaði til sín gesti. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður nefndarinnar, sagði eftir fundinn að niðurstaðan hafi orðið sú að ekki væri hægt að grípa inn í málið nú vegna þess að kjörstjórnir hefðu þegar tekið til starfa og fresturinn væri að renna út. Hún útilokaði ekki að málið yrði skoðar frekar að loknum kosningum. Benda má á í þessu sambandi að enn hefur lítið eða ekkert reynt á kjörstjórnir í sveitarfélögum þar sem kosið er óbundið.