[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Rósu Guðbjartsdóttur: "Nýframlagður ársreikningur bæjarins endurspeglar aukinn fjárhagslegan styrk Hafnarfjarðarbæjar þrátt fyrir miklar áskoranir í rekstrarumhverfi sveitarfélaga á síðasta ári."

Við Sjálfstæðismenn í Hafnarfirði höfum staðið við loforð okkar um að taka fjármál bæjarfélagsins í gegn og vinna á þeim mikla skuldavanda sem var þungur klafi á sveitarfélaginu. Það var vitað að verkið myndi taka talsverðan tíma enda var bæjarfélagið komið undir eftirlitsnefnd ráðuneytis með fjármálum sveitarfélaga. Á meðfylgjandi línuriti má glöggt sjá hvernig til hefur tekist að ná skuldaviðmiði og skuldahlutfalli niður eftir að við Sjálfstæðismenn komumst í meirihluta árið 2014 eftir langa valdatíð Samfylkingarinnar.

Í ársreikningi Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2021 kemur fram að skuldaviðmiðið hélst óbreytt í 101% á milli ára. Það er vel undir 150% skuldaviðmiði samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Skuldahlutfall Hafnarfjarðar lækkar verulega milli ára, eða úr 161% í 149%. Þessir mikilvægu mælikvarðar um fjárhagslegt heilbrigði sveitarfélags hafa náðst hraðar niður en áætlanir og væntingar stóðu til.

Engin ný lán á síðasta ári

Þennan árangur má fyrst og fremst þakka ábyrgri fjármálastjórnun sem hefur gengið út á að framkvæma sem mest fyrir eigið fé bæjarins samhliða því að greiða niður eldri lán. Alls námu afborganir lána, á tímabilinu 2014-2021, 3,3 milljörðum króna umfram nýjar lántökur. Til dæmis voru engin ný lán tekin á síðastliðnu ári. Hafnarfjarðarbær er þó enn mjög skuldsett sveitarfélag og má lítið út af bregða í rekstrinum til að ekki fari illa. Þess vegna er afar mikilvægt að halda áfram að lækka skuldir bæjarfélagsins og lækka þannig vaxtakostnað til að geta haldið áfram að bjóða bæjarbúum góða þjónustu.

Íþyngjandi fortíðarvandi

Nýframlagður ársreikningur bæjarins endurspeglar aukinn fjárhagslegan styrk Hafnarfjarðarbæjar þrátt fyrir miklar áskoranir í rekstrarumhverfi sveitarfélaga á síðasta ári. Það sést ekki síst í stórauknum fjárfestingum og verulegri uppgreiðslu langtímalána eins og að framan greinir. En nú bitnar það einnig á okkur Hafnfirðingum hve fyrri meirihlutar hófu seint að greiða inn á lífeyrisskuldbindingar sveitarfélagsins eða ekki fyrr en árið 2012. Þarna er um íþyngjandi fortíðarvanda að ræða því bæjarfélagið var mörgum árum á eftir nágrannasveitarfélögunum í þessum efnum sem hófu niðurgreiðslu mun fyrr. Þess ber að geta að lífeyrisskuldbindingarnar eru þriðjungur allra heildarskulda og skuldbindinga Hafnarfjarðarbæjar.

Miklir uppgangstímar

Framtíðin er björt í Hafnarfirði og nú eru miklir uppgangstímar í bæjarfélaginu. Uppbyggingin er slík að talið er að um 15% allra byggingakrana í landinu séu nú í bænum. Hin mikla lóðasala undir íbúðar- og atvinnuhúsnæði hefur og mun skila bæjarfélaginu góðum tekjum, þar með talið varanlega auknum útsvarstekjum.

Til að Hafnarfjörður haldi áfram að vaxa og dafna er mikilvægt að haldið sé áfram á braut ábyrgrar fjármálastjórnunar. Ekki má undir neinum kringumstæðum hverfa aftur til þeirra tíma þegar fjármálaóstjórn réð ríkjum í bænum. Það besta fyrir Hafnarfjörð er að við Sjálfstæðismenn verðum áfram í forystu við stjórnun okkar blómstrandi og frábæra bæjarfélags.

Höfundur er bæjarstjóri Hafnarfjarðar.