Albert Páll Albertsson
Albert Páll Albertsson
Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

„Ég hélt að ég væri bara að fara að deyja,“ svarar Albert Páll Albertsson, skipverji á Víkingi AK-100, um hvernig honum leið er svonefnd fallhlíf á loðnunótinni skyndilega dró hann með sér af skipinu út í sjó 20. mars síðastliðinn.

Hann kveðst hafa verið að sinna hefðbundnum verkefnum sem hann hefur margoft sinnt. „Maður passar sig alltaf á að flækjast ekki í þetta en einhvern veginn gerðist það, ég veit ekki hvernig. Ég sé bara allt í einu að fóturinn er kominn í einn hring og ég næ ekki að losa mig.“

Hann féll fyrir borð þegar skipið var á loðnuveiðum úti fyrir Sandvík, en þar var einnig fjöldi annarra skipa að eltast við loðnuna á lokaspretti vertíðarinnar. Áhöfninni á færeysku skipi sem var nálægt tókst, eftir nokkrar tilraunir, að kasta björgunarhring til Alberts Páls og voru félagar hans á Víkingi AK eftir skamma stund mættir á léttabáti og náðu honum um borð.

Albert Páll segir að tilhugsunin um að ungur sonur hans yrði föðurlaus hafi veitt honum kraft til að komast lífs af. „Ég næ að losa stígvélið þegar ég er í sjónum. Um leið og það losnar kemur einhver kraftur, ég hugsaði bara að ég væri ekki að fara að láta son minn verða föðurlausan og að ég væri að fara að bjargast.“

Þakklátur

Þegar slysið varð var faðir hans, Albert Sveinsson, skipstjóri um borð. Hann missti aldrei sjónar á skærgulum hjálmi sonar síns.

Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti Albert Pál á Landspítala og var líðan hans sögð „góð eftir atvikum“ en hann fótbrotnaði og fór úr lið, svo ekki séu nefnd áhrif kuldans.

„Einhvern veginn gekk allt eins og það átti að ganga – allir þekktu sitt hlutverk. Maður er bara þakklátur fyrir lífið og þakklátur skipsfélögununum. Ég þakka öllu þessu fólki sem kom að þessu. Strákunum á Víkingi, á Høgaberg, Gæslunni og fjölskyldunni minni sem hafa verið mikill stuðningur,“ segir Albert Páll um björgunarafrekið.