[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Ný deilibílaþjónusta, Hopp, fer vel af stað að sögn framkvæmdastjórans Sæunnar Óskar Unnsteinsdóttur. Bílarnir komu á göturnar 18. mars sl.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Ný deilibílaþjónusta, Hopp, fer vel af stað að sögn framkvæmdastjórans Sæunnar Óskar Unnsteinsdóttur. Bílarnir komu á göturnar 18. mars sl. Um er að ræða fyrsta fasa verkefnisins þar sem gögnum um notkun er safnað til að meta frekari uppbyggingu. Notendur leigja bílana í gegnum Hopp-appið, en fyrirtækið rekur einnig vinsæla rafskútuleigu á höfuðborgarsvæðinu.

Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopps, segir í samtali við Morgunblaðið að verkefnið hafi gengið mjög vel. „Við erum rosalega ánægð með viðtökurnar. Helsta áskorunin er umgengnin. Ég er dálítið hissa á hvernig sumir notendur hafa gengið um. Þar er þó um mikinn minnihluta að ræða,“ segir Sæunn og bætir við að fyrirtækið sjái sig knúið til að taka upp sektarkerfi vegna þessa. „Við erum að búa til verðskrá fyrir sektir. Fólk getur átt von á sekt ef setja þarf bíl í þrif eftir notkun.“

Vantar fleiri bíla

Önnur áskorun í rekstrinum er fjöldi bíla. Vegna þess hve góðar viðtökur hafa verið er strax orðin þörf á fleiri bílum en þeim tíu sem nú eru í boði. „Við erum að greina gögn fyrir næsta fasa. Við hlökkum líka til þess að geta farið að nota stafræn ökuskírteini. Stafrænt Ísland vinnur nú að því að klára það ferli, sem mun auðvelda okkur lífið.“

Vandamálið segir Sæunn vera að margir eru ekki með gömlu plastökuskírteinin á sér þegar bíll er leigður.

Markmið Hopps er að sögn Sæunnar að bjóða umhverfisvæn samgöngutæki til að fólk fái meira val um samgöngumáta. „Við viljum hvetja til þess að í staðinn fyrir að kaupa bíl númer tvö á heimilið breyti fólk lífsstíl sínum og leigi bíl í skammtímaleigu.“

Sæunn segir að Hopp bíði nú í ofvæni eftir því að gögn um notkun bílanna verði nægjanlega marktæk til að hægt sé að merkja breytingar á lífsmynstri.

Spurð um stærð bílanna segir Sæunn að fyrstu bílarnir tíu séu stórir og öruggir, af Kia Niro- og Hyundai Kona-gerð. „Við stefnum á að bjóða margar mismunandi stærðir af bílum í framtíðinni.“

Öryggið mikilvægt

Eins og sagt hefur verið frá í fréttum er skýrsla verkefnahóps um smáfarartæki nú í samráðsgátt stjórnvalda. Meðal niðurstaðna hópsins er að refsivert verði að stjórna smáfarartæki ef magn áfengis er meira en 0,5 prómill í blóði ökumanna. Margir hafa leigt sér rafskútu frá Hopp til að komast heim eftir skemmtanir. Sæunn segir að rekstur Hopps standi ekki og falli með slíku banni. „Næturhagkerfið er risastórt. Fólk á leið heim úr vinnu notar gjarnan Hopp til að komast leiðar sinnar.“

Hún segir að Hopp sé ekki mikið fyrir boð og bönn en ef þörf er á lagasetningu til að fækka slysum þá styðji fyrirtækið það. „Við viljum auka öryggi notenda. Ein niðurstaða hópsins er einmitt að leyfa rafskútur á götum með 30 km hámarkshraða, sem ég tel skynsamlegt til að færa skúturnar af göngustígunum,“ segir Sæunn en varar við að of miklar hömlur verði settar á notkun hjólanna. Samgöngumátinn sé í stöðugri þróun og reglur megi því ekki verða of íþyngjandi.

Jafn mikið og strætó

Í skýrslunni kemur fram að mögulega verði heildarfjöldi ferða á leiguhjólum 2,5-3 milljónir árið 2022, en þar af verði ferðir á hjólum Hopps, sem er stærsta fyrirtækið sem leigir út rafhlaupahjól á Íslandi, 1,9 milljónir. Ef þetta gengur eftir verða samkvæmt skýrslunni farnar 7,5 til 12 milljónir ferða á höfuðborgarsvæðinu á rafhlaupahjólum árið 2022, en talið er að 25 til 30 þúsund rafhlaupahjól séu til í einkaeigu. „Til samanburðar má geta þess að farþegafjöldi Strætó er um 12 milljónir,“ segir í skýrslu verkefnahóps um smáfarartæki.
Deilibílar
» Rafbílarnir eru staðsettir í borgarlandinu.
» Leggja má í öll lögleg bílastæði, einnig gjaldskyld.
» Það kostar 300 kr. að starta bílum og mínútugjaldið er 45 kr.
» Aðeins er hægt að leggja deilibílunum innan Reykjavíkur.
» Stefnan er að fjölga bílunum jafnt og þétt.