Í hættu Selenskí mun ekki yfirgefa Úkraínu.
Í hættu Selenskí mun ekki yfirgefa Úkraínu. — Ronaldo Schemidt/AFP
Forseti Úkraínu, Volodimír Selenskí, er stórmerkilegur maður eins og flestum ætti að vera orðið ljóst eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu og Selenskí hefur verið nær daglega í fréttum.

Forseti Úkraínu, Volodimír Selenskí, er stórmerkilegur maður eins og flestum ætti að vera orðið ljóst eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu og Selenskí hefur verið nær daglega í fréttum. RÚV sýndi í síðustu viku virkilega vel unna og glænýja heimildarmynd um forsetann þar sem fjallað er um hann allt frá þeim tíma er hann var grínisti og leikari að okkar tíma, tíma stríðs og fjöldamorða rússneska hersins á Úkraínumönnum. Sannleikurinn er oft lyginni líkastur og það á sannarlega við um Selenskí, sem var áður einn vinsælasti leikari heimalandsins og fór með hlutverk forseta Úkraínu í sjónvarpsþáttum.

Selenskí er líka klókur og sá að leiðin að hjörtum fólksins var í gegnum samfélagsmiðla og sjónvarp enda var hann studdur í framboði af ólígarka sem á sjónvarpsstöð. Í myndinni voru sýndar ólíkar hliðar á manninum, allt frá hinum mjúka manni fólksins yfir í harða stjórnmálamanninn sem bauð Pútín birginn. Sumum kann ef til vill að þykja nóg um athyglisþörf Selenskís sem nýtti áður hvert tækifæri til að taka upp vídeó fyrir samfélagsmiðla, jafnvel undir stýri. En nú er ástandið annað og skilaboðin eftir því. Heimurinn fylgist með á meðan Úkraína er lögð í rúst. Ég hvet alla til að horfa á þessa vönduðu heimildarmynd sem finna má á vef RÚV og heitir Zelensky forseti.

Helgi Snær Sigurðsson