Mál flutt í Hæstarétti Formaður Lögmannafélags Íslands hefur áhyggjur af lágu hlutfalli kvenna í stétt lögmanna.
Mál flutt í Hæstarétti Formaður Lögmannafélags Íslands hefur áhyggjur af lágu hlutfalli kvenna í stétt lögmanna. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Kynjahlutfall félagsmanna Lögmannafélags Íslands er áhyggjuefni að mati Sigurðar Arnar Hilmarssonar formanns félagsins.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Kynjahlutfall félagsmanna Lögmannafélags Íslands er áhyggjuefni að mati Sigurðar Arnar Hilmarssonar formanns félagsins.

Í árskýrslum LMFÍ má finna ýmsar fróðlegar upplýsingar, segir Sigurður Örn í grein sem hann ritar í nýútkomið Lögmannablað. Á hverju ári sé þar gerð grein fyrir „þróun kynjahlutfalls félagsmanna LMFÍ“ en við nánari skoðun sjáist að þróunin sé nánast engin. Árið 2013 voru konur 30,2% félagsmanna, en átta árum síðar voru þær 31,2% félagsmanna. Nærtækara væri því að kalla stöplaritið „stöðnun kynjahlutfalls félagsmanna LMFÍ“.

Hlutfallið sé enn verra ef litið er til sjálfstætt starfandi lögmanna og fulltrúa þeirra. Samkvæmt síðustu ársskýrslu LMFÍ voru konur 27,2% þeirra lögmanna sem eiga eða starfa á lögmannsstofum.

En hvað veldur? spyr Sigurður Örn í greininni. „Einhverjir kynnu að halda að kynjaskiptingin héldist í hendur við kynjahlutföll útskriftarárganga lagadeilda landsins. Svo er ekki. Samkvæmt upplýsingum frá öllum lagadeildum landsins voru konur 57,5% brautskráðra á árunum 2012-2021. Á hverju þessara ára hafa lagadeildirnar brautskráð fleiri konur en karla. Samt breytist kynjahlutfall LMFÍ nánast ekki neitt. Ef kynjahlutfall LMFÍ yrði yfirfært á útskriftarárgangana væri eins og 380 konur hefðu ekki útskrifast á þessu tímabili. En það gerðu þær sannarlega. Þær bara skila sér ekki inn í félagið eða staldra stutt við,“ segir Sigurður Örn. Hann segir það sameiginlegt verkefni lögmanna að breyta þessu.

Í fyrsta lagi mætti kynna betur lögmennsku sem starfsvettvang fyrir fjölbreyttari hóp. Í öðru lagi þurfi að gæta þess að konur fái sömu tækifæri og karlar, hvort heldur er við nýráðningar, þróun í starfi eða framgang. Í þriðja lagi þurfi að huga betur að starfsumhverfi lögmanna. Það sé að mörgu leyti gamaldags, bæði hvað varðar vinnutíma og vinnulag. Í fjórða lagi þurfi að huga að brottfalli úr stéttinni og ástæðum þess.

Í lok febrúar 2022 voru félagar í Lögmannafélagi Íslands 1.058 talsins. Fjöldi lögmanna sem flutt geta mál fyrir héraðsdómstólum er 698 og fjöldi þeirra sem auk þess hafa réttindi til málflutnings fyrir Landsrétti er 61. Þá hafa 297 félagsmenn aflað sér réttinda til málflutnings fyrir Hæstarétti.