Grásleppuveiðar Fiskistofa hefur staðið fleiri báta að brottkasti.
Grásleppuveiðar Fiskistofa hefur staðið fleiri báta að brottkasti. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is Fátt bendir til þess að skortur á aflaheimildum sé afgerandi skýring þess að grásleppubátar hafa verið staðnir að stórfelldu brottkasti að undanförnu.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Fátt bendir til þess að skortur á aflaheimildum sé afgerandi skýring þess að grásleppubátar hafa verið staðnir að stórfelldu brottkasti að undanförnu. Aðeins tveir þeirra 13 báta sem um ræðir höfðu hvorki fengið úthlutað aflamark né leigt til sín. Þetta kemur fram í svari Fiskistofu við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Í drónaeftirliti í mars stunduðu allir sjö bátar sem flogið var yfir brottkast og var um að ræða 30-90% af öllum þorski sem fékkst í grásleppunetin og var um að ræða stóran hrygningarþorsk, en þorskur er óhjákvæmilegur meðafli veiðanna. Í kjölfar umfjöllunar um brottkast grásleppubáta hófst mikil umræða um hvort skortur á aflaheimildum væri skýring brottkastsins.

Flogið var á ný yfir tvo báta í síðustu viku og voru þeir einnig staðnir að brottkasti. Síðan fjóra báta til viðbótar í gær og var brottkast greint hjá öllum. „Af þessum 13 eru tveir sem hafa hvorki fengið úthlutað aflamark né leigt til sín, einn sem hefur leigt til sín 30 kíló og einn sem hefur leigt til sín 18 tonn. Þremur hefur verið úthlutað innan við tveggja tonna aflamarki. Aðrir voru með úthlutaðar aflaheimildir og óveitt frá tæplega fjórum tonnum og upp í yfir 100 tonn, einn af þeim hafði áður en grásleppuveiðar hófust leigt frá sér allt aflamark en leigt aftur til sín fáein tonn áður en veiðar hófust,“ segir í svari Fiskistofu.

Tíu án nokkurra heimilda

Þá hafa alls 10 bátar fengið útgefið leyfi til grásleppuveiða á vertíðinni án þess að hafa heimildir til veiða á þorski. Jafnframt voru 10 með tveggja tonna aflamark eða minna, sem þeir höfðu í flestum tilvikum leigt til sín áður en sótt var um grásleppuleyfi. „Þess ber þó að geta að það er ekki ólöglegt eða óeðlilegt að stunda grásleppuveiðar án þess að hafa aflamark í þorski. Þessir aðilar geta í einhverjum tilvikum landað þorski í VS-afla ásamt því að hafa möguleika á að leigja til sín aflamark eftir á þegar ljóst er hve mikið hefur veiðst,“ áréttar Fiskistofa.

Benda má þó á að grásleppunet liggja í sjó um nokkurn tíma og fæst úr netunum þorskur sem telst ekki af miklum gæðum og fæst því lítið fyrir hann, að því er blaðamaður kemst næst. Kostnaður við löndun, veiðigjald og þjónustu fiskmarkaða getur skapað aðstæður þar sem mikill fjárhagslegur hvati er til brottkasts.