Hrund Jóhannsdóttir fæddist 14. nóvember 1941 í Reykjavík. Hún lést 28. mars 2022 á Hrafnistu Laugarási.

Hún var dóttir hjónanna Jóhanns Sigurðssonar, f. í Dal í Miklaholtshreppi 24.4. 1913, d. 15.5. 1995, og Helgu Hannesdóttur, f. á Sveinsstöðum í Neshreppi utan Ennis, Snæfellsnesi 17.4. 1914, d. 19.4. 2006.

Hrund var elst í sínum systkinahópi, systkini hennar eru Hanna Birna, Rannveig Auður og Sigurður Rafn, sem lifa öll systur sína.

Hrund giftist hinn 21.4. 1963 Gunnari Jónssyni prentara, f. 31.7. 1938, en hann vann lengst af sem leigubílstjóri hjá Hreyfli. Gunnar lést 19.4. 2015.

Hrund lærði háriðn og hlaut meistararéttindi í þeirri grein árið 1967.

Börn Hrundar og Gunnars eru: 1) Jóhann Gylfi, f. 1959, maki Jóhanna Erlendsdóttir, börn þeirra eru: Hrund, Gunnar Örn og Bjarki Freyr. 2) Rannveig, f. 1962, maki Sigurður Gunnarsson, sonur þeirra er Sævar Ingi.

Langömmubörn Hrundar eru orðin sjö og hafði hún mikla ánægju af samvistum við þau öll. Þau heita: Jóhann Mikael, Tristan Örn, Aníta Sóley, Jóhanna Lára, Sigríður Hanna, Einar Gylfi og Thelma Ýr.

Hrund ólst upp í Reykjavík og bjó þar alla ævi, lengst af í Breiðholti, og síðar á Skúlagötu 44. Hún vann við háriðn lengi vel og ýmis störf í gegnum lífið, m.a. við verslunarstörf og á Borgarspítala sem aðstoðarræstingastjóri og móttökuritari á röntgendeild.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey.

Blátt lítið blóm eitt er,

ber nafnið: „Gleymd'ei mér“.

Væri ég fleygur fugl

flygi ég til þín.

Svo mína sálu nú

sigraða hefur þú,

engu ég unna má,

öðru en þér.

(Höf. ók.)

Fallega lagið um litla bláa blómið, gleym-mér-ei, sem hún mamma söng svo oft á gleðistundum og mannfögnuðum, kemur nú upp í hugann þegar hún hefur kvatt okkur og sál hennar sigruð. Við minnumst hennar með hlýhug og sorg í hjarta, en jafnframt viss um að henni líði miklu betur núna, laus úr viðjum lasleika og veraldlegra hluta sem íþyngdu henni, sérstaklega seinni ár.

Hún náði sér aldrei á strik eftir andlát pabba, sem lést 2015, þar sem stórt skarð var rofið í alla hennar líflínu og venjur. Þau áttu saman líf, ferðalög um landið sitt, erlendis og allan heiminn, bæði í raun og huga. Mamma elskaði þessar ferðir, sérstaklega seinni árin á húsbílnum, þar sem hún gat áfram verið húsmóðirin um borð og gamli sá um labbitúrana. Hún var höfðingi heim að sækja og það var öllu tjaldað til þegar gesti bar að garði, allt fína kaffistellið dregið fram, hvort sem það var gullslegið heima eða fokdýrt harðplast í útilegu. Hún naut sín vel á þessum stundum. Kunni sitt fag, enda fyrirmyndir sóttar til Harrod's og Buckingham Palace. Hún kunni góð skil á bresku krúnunni og flestu hefðarfólki heimsins í gegnum tíðina. Þar var hún á heimavelli.

Það gustaði stundum af henni og hún átti til óþolinmæði sem kom henni í koll. Hún keyrði t.d. aftan á bíl á grænu ljósi sem fór ekki af stað á sama tíma og hún og það var bara hneyksli, að hennar mati, að vera dæmd í órétti. Hún var okkur góð móðir og taldi sig alltaf heppna að hafa eignast svona góð börn, en gerði ekkert úr eigin hlut með útkomuna á uppeldinu.

Við minnumst margra skemmtilegra stunda með mömmu, en einnig þegar tímar voru erfiðir. Það er ekki alltaf sjálfgefið að berja af sér byrðar og erfiðleika sem á mann sækja í lífinu, en mamma gerði það eins vel og hún gat og treysti sér til. Við hlógum oft með henni að ýmsum sögum af okkur sjálfum og henni að skakka leikinn eða hvetja okkur áfram í vitleysunni. Hún leyndi á sér og hafði góðan húmor, var glettin og skaut oft athugasemdum eða orðum inn í samtöl á hárréttum tíma. Hún gat líka verið hvöss og ákveðin ef við vorum á rangri braut, en hún beitti þeim eiginleika sjaldan, enda við svo vel upp alin!

Hún á fjögur barnabörn og sjö barnabarnabörn sem öll hafa notið samvista við hana og henni var mjög í mun að fylgjast vel með skæruliðunum, eins og hún orðaði það stundum, eftir eitthvert óborganlegt prakkarastrikið. Þá hló hún og sá stundum sjálfa sig í þeim. Við eigum eftir að sakna mömmu, en gleðjumst á sama tíma yfir því að hún sé farin í Sóllandið að hitta gamla og ferðast á ný, frjáls sem fuglinn, laus við fjötra.

Vertu sæl, elsku mamma.

Jóhann Gylfi,

Rannveig og makar.

Elsku hjartans amma mín, ég vonaði svo innilega að þessi dagur kæmi ekki strax og vonaði svo innilega að hann kæmi bara alls ekki. Afar barnaleg ósk, ég veit. En nú er staðan þessi og hugur minn þeytist um víðan völl og safnar saman ótal minningum um glaðar stundir. Við nöfnurnar áttum margt sameiginlegt og vorum líkar að mörgu leyti. Það voru forréttindi að eiga hana að alla tíð og ég átti alltaf vinkonu í ömmu minni. Hún skildi mig alltaf og stóð alltaf með mér. Hún lagði mér stundum lífsreglurnar og var mikið í mun að ég stæði vörð um mig og mína og væri alltaf trú sjálfri mér. Síðustu árin voru oft á tíðum krefjandi út af faraldrinum og þeim takmörkunum sem honum fylgdu, við gátum ekki hist eins oft og okkur langaði, en hringdum því oftar hvor í aðra og ég sendi henni myndir af öllum skemmtilegum augnablikum í lífi okkar barnanna svo hún myndi ekki missa af neinu. Hún var bókstaflega með okkur öllum stundum í máli og myndum. Elsku amma hvað ég sakna þín mikið, aldrei er maður tilbúinn eða sáttur þegar kallið kemur. En ég ætla að halda áfram að vinna með það sem við tvær áttum einar saman síðasta árið og gera eins vel og ég get. Minning þín mun lifa í hjarta mínu og barnanna minna um ókomna tíð. Takk fyrir allt og allt elsku hjartans ömmugullið mitt. Ég elska þig að eilífu.

Þín

Hrund.

Hjartkær stóra systir okkar, Hrund Jóhannsdóttir, hefur kvatt, nokkuð óvænt, þó að heilsu hennar hafi hrakað um nokkurn tíma. Kveðjustundin er viðkvæm, svo margs að minnast á langri leið saman. Minningarnar birtast, bjartar og góðar. Við þökkum elsku Hrund innilega fyrir trausta fylgd hennar með okkur og fjölskyldum okkar í gegnum árin. Megi eilífa ljósið umvefja hana á nýjum stigum.

Svo opnast gylltar dyr

inn í glæsta sali,

nýjar víddir,

nýja ljósbjarta heima,

draumanna veröld.

Vertu svo góður

og gakktu í bæinn!

(Ólafur Ragnarsson)

Hafðu þökk fyrir allt og allt, elsku systir!

Dýpstu samúð okkar vottum við systkinunum kæru, Jóhanni Gylfa og Rannveigu, og fjölskyldum þeirra.

Hanna Birna, Rannveig Auður og Sigurður Rafn.

Við kveðjum hinstu kveðju kæra vinkonu okkar Hrund Jóhannsdóttur. Hrund var tignarleg kona, afar gestrisin, jákvæð, brosmild og hress. Leiðir okkar hjóna lágu fyrst saman með þeim heiðurshjónum Gunnari og Hrund fyrir 40 árum. Við áttum margar skemmtilegar samverustundir og ferðuðumst mikið saman bæði innanlands og eins til útlanda. Þetta voru frímúraraferðir og eins vorum við með þeim í svokölluðum Ferðavinum.

Eftir að við fréttum af andláti Hrundar tókum við fram gömlu myndirnar og eins diska með myndum frá nafna mínum á ferðalögum, það er ljúft að minnast og ánægjulegt að rifja upp þessar góðu samverustundir og þá kemur m.a. upp í hugann það sem nafni minn sagði gjarnan „Nú erum við í góðum málum.“

Það voru forréttindi að fá að kynnast og ferðast með þessum góðu og hressu hjónum. Nú er Hrund lögð af stað í sumarlandið til nafna og veit ég að tekið verður vel á móti henni.

Blessuð sé minning Hrundar vinkonu okkar.

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu hennar.

Gunnar Þórólfsson og

Jóhanna Friðgeirsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Elsku langamma.
Bros þú færðir í marga.
og hlýju í hjarta allra.
Góðhjörtuð við allt og alla.
Nú á góðan stað þú fórst.
Þú alltaf á báðum fótum stóðst.
Minning þín mun alltaf
vera í mínu hjarta
elsku langamma
góða ferð til þíns heima,
guð og englar munu þig geyma.
(Davíð,1991)

Söknum þín
Jóhann Mikael,
Aníta Sóley
og Einar Gylfi.