Efling Agnieszku Ewu Ziólkowsku, varaformanni félagsins, barst uppsagnarbréf í gær ásamt öðrum.
Efling Agnieszku Ewu Ziólkowsku, varaformanni félagsins, barst uppsagnarbréf í gær ásamt öðrum. — Morgunblaðið/Ásdís
Enn gustar um Eflingu og var í gær Agnieszku Ewu Ziólkowsku, varaformanni félagsins, sagt upp ásamt öðrum starfsmönnum Eflingar, líkt og boðað hafði verið. Kvaðst hún mundu athuga lögmæti uppsagnarbréfsins í samtali við mbl.is í gær.

Enn gustar um Eflingu og var í gær Agnieszku Ewu Ziólkowsku, varaformanni félagsins, sagt upp ásamt öðrum starfsmönnum Eflingar, líkt og boðað hafði verið. Kvaðst hún mundu athuga lögmæti uppsagnarbréfsins í samtali við mbl.is í gær. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og B-listi hennar samþykktu á stjórnarfundi á mánudag að öllu starfsfólki Eflingar yrði sagt upp.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfgreinasambands Íslands, sagði í samtali við mbl.is í gær að hann bæri fullt traust til Sólveigar Önnu. „Ég trúi því að Sólveig Anna hafi farið eftir þeim leikreglum sem í gildi eru,“ sagði hann.

Það væri miður þegar gripið væri til hópuppsagnar á vinnustöðum enda væri um að ræða lífsafkomu og atvinnuöryggi launafólks. „Þegar slíkt gerist er það grundvallaratriði að ætíð sé farið eftir öllum lögum og reglum og tryggt að kjarasamningsbundin réttindi séu virt í hvívetna,“ sagði hann.

Gabríel Benjamin, trúnaðarmaður starfsfólks Eflingar, sagði þá við mbl.is í gær að skrifstofa Eflingar væri „korter í að vera með öllu óstarfhæf“ eftir hópuppsögnina.

Sagði hann fáeina starfsmenn hafa mætt á skrifstofuna í dag til þess að sinna fyrirspurnum félagsmanna.

Óvíst er hvort eða hverjir munu aftur sækja um hjá félaginu. Ekki hefur náðst á Ragnar Þór Inólfsson, formann VR, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir blaðamanna, vegna málsins.