Hólmfríður fæddist í Reykjavík 7. desember 1930. Hún lést á Landakotsspítala 26. mars 2022.

Útför hennar fór fram 7. apríl 2022.

Minningabrot um einstaka konu. Ég læt aðra um að skrá kennsluferil og önnur störf Hólmfríðar. Það væri lítið mál að skrifa heila bók / margar bækur um allt sem hún hefur áorkað um ævina. Ég mun aðeins rifja upp það sem sneri að samskiptum okkar, minningabrot sem ná yfir þrjátíu ár.

Ég byrja samt á því að fara rúmlega sextíu ár aftur í tímann, brot úr æsku. Ung kona gengur eftir Ásvallagötunni, lítil og grönn, í svarti þröngri lakkkápu og ljóst uppsett hár, tignarleg en smágerð. Myndin er afar skýr – barnsaugun skynjuðu strax að það var eitthvað stórt við þessa litlu konu.

Þessi minning kom upp í hugann þegar undirrituð var ráðin sem listgreinakennari við textíldeild Kennaraháskóla Íslands haustið 1989 og við Hólmfríður urðum samkennarar. Fljótlega byrjuðum við að vinna saman og ekki síst að ræða það sem okkur lá mest á hjarta, hinn skapandi þátt í öllu skólastarfi. Eftir því sem árin liðu fjölgaði samverustundum okkar og vináttan dýpkaði.

Hólmfríður var gjöful og lá ekki á skoðunum sínum. Samvera og maraþonsamræður hlíttu engum reglum, allra síst í tíma og rúmi. Sumar stundir voru skipulagðar, fundir og hittingar í skólanum eða langar samræður í síma. Kaffihús var ekki inni í myndinni því tímaramminn var of þröngur. Margar samverustundir áttum við á heimili hennar, sátum við stóra borðið sem var þakið fallegum veitingum og ýmsum gögnum. Veitingar á þriggja hæða kökudiski, smáskammtar af hinu og þessu góðgæti. Útlitið skipti miklu máli – hvernig allt var borið fram. Kökudiskurinn umkringdur myndum, pappír og kössum með fjölbreyttum efniviði. Textílbútar og þræðir flæddu um borðið því tilgangurinn var að rýna og lesa í efniviðinn. Þarna gátum við setið og gleymt tímanum, yfirleitt langt fram á kvöld eða lengur. Samveran endaði yfirleitt á því að ég fór heim með troðfullan poka af dýrgripum, oftast fleiri en einn. Mitt fyrsta verk var síðan að skrá það sem Hólmfríður hafði miðlað til mín í gegnum efniviðinn.

En flestar stundir okkar voru þannig að við rákumst óvænt hvor á aðra á göngum skólans þegar meirihluti starfsmanna var farinn. Við elskuðum að vinna fram eftir þegar friður lá í lofti. Við stóðum í stigaþrepum, upp við dyr eða í dyragætt, því upphaflega ætluðum við aðeins að skiptast á nokkrum orðum. En samtalið teygðist í ýmsar áttir og oft inn í nóttina. Á þessum gæðastundum með Hólmfríði fylltist hugurinn af fróðleik og visku sem snerist um textíl, listir og menntamál. Þetta voru gefandi stundir og góðar gjafir. Minningasarpurinn er bæði djúpur og víður, og einnig fullur af spurningum. Ég þakka Hólmfríði fyrir að hjálpa mér að opna dyr inn í gamla tímann og að lesa kvennasöguna í gegnum textílinn. Minning Hólmfríðar mun lifa áfram í texta og textílmunum.

Sigrún Guðmundsdóttir.

Máttarstólpinn Hólmfríður Árnadóttir er horfin á braut. Margar góðar minningar sækja að en Hólmfríður var kona sem fór sínar eigin leiðir, alltaf á undan, víðsýn, víðförul og réttsýn. Hún gekk í buxum þegar aðrar konur gengu í pilsum, kunni að svara fyrir sig á tímum þegar feðraveldið var óþarflega plássfrekt í hennar augum og sætti sig ekki við hrútskýringar. Hólmfríður ruddi leiðina fyrir svo marga og var einstök fyrirmynd. Hún tók móður mína undir sinn arm á erfiðum tímum í lífi hennar þegar hún stóð í hjónaskilnaði með tvö lítil börn. Þá var hún nemandi hennar við Kennaraskóla Íslands og það segir mikið að nemandi hennar hafi helst talið að best væri að leita til Hólmfríðar. Síðan þá voru ófáir bíltúrar og símtöl sem þær vinkonurnar áttu og alltaf var hún til staðar. Svo þegar mamma kvaddi töluðum við Hólmfríður áfram saman í símann þá átti hún það til að segja að við gætum talað saman um allt alveg eins og hún og mamma áttu til að gera. Pappírsverkin hennar Hólmfríðar, abstrakt verk af mömmu, fjöllum og ýmsu sem hún sá með öðrum hætti en við hin voru uppspretta ánægjulegra samtala gesta sem sáu verkin heima í stofu hjá mömmu. Hólmfríður kunni að rækta vini sína og byggja fólk upp. Póstkortin sem hún sendi okkur frá ýmsum ferðalögum þar sem heimskonan fékk að njóta sín voru innblásin, framandi og spennandi í augum barns og í baksýnisspeglinum í bílnum mínum hangir kort með hvatningarorðum frá stuðningskonu minni. Þegar ég fór í leiklistarnám til London laumaði hún að mér hundrað þúsund krónum sem munaði svo um að hjá mér kviknaði von um að einhvern veginn myndu himinhá skólagjöld ekki verða fyrirstaða. Hún hafði ekki hugmynd um hversu mikið ég mat þetta rausnarlega góðverk og þetta var ekki í eina skiptið sem hún laumaði að mér góðum gjöfum eða sendi blóm og hringdi á mikilvægum dögum í lífi mínu og minna. Hún var listakona fram í fingurgóma og ástríða hennar fyrir textíl og myndlist var aðdáunarverð. Hún var abstrakt listakona með einstakan stíl, frumkvöðull á sínu sviði og kennari af guðs náð. Hólmfríður var líka kona sem kunni og lét verða af því að framkvæma góðverk. Hún var næm og nösk á að vera til staðar fyrir þá sem á þurftu að halda og ég veit að margir nutu góðs af velvild hennar. Það var alltaf gaman að heimsækja Hólmfríði í Hvassaleitið. Allt var frumlegt í kringum hana, diskar, bollar og veitingar, og samtölin fóru á flug en rætt var um fortíð og framtíð, heima og geima, kvenfrelsi og listsköpun. Hólmfríður leit eins út öll þau ár sem ég þekkti hana – hún var ung alla tíð með hárið vafið kæruleysislega upp og fallegan bleikan varalit við skyrturnar sem einkenndu hana. Kona með stíl. Klassísk heimskona sem var alltaf gaman að eyða tíma með. Ég á alla tíð eftir að sakna vinkonu minnar Hólmfríðar og er full af þakklæti fyrir ógleymanleg kynni.

Þóra Karítas Árnadóttir.