Byggingarlist Viðhafnarmannvirkið Orkahaugur (e. Maeshowe) á Orkneyjum (um 2700 f.Kr.) sem getið er í Orkneyinga sögu. Fjöldi norrænna rúna er á veggjum í grafhvelfingunni sem voru ristar um jólin 1153. Sumar þeirra hafa beina tilvísun til Íslands og er þar nefndur Gaukur Trandilsson á Stöng í Þjórsárdal.
Byggingarlist Viðhafnarmannvirkið Orkahaugur (e. Maeshowe) á Orkneyjum (um 2700 f.Kr.) sem getið er í Orkneyinga sögu. Fjöldi norrænna rúna er á veggjum í grafhvelfingunni sem voru ristar um jólin 1153. Sumar þeirra hafa beina tilvísun til Íslands og er þar nefndur Gaukur Trandilsson á Stöng í Þjórsárdal. — Ljósmynd/Hjördís Sigurgísladóttir/Dennis Davíð Jóhannesson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókarkafli Bókin Straumar frá Bretlandseyjum er afrakstur sögulegs rannsóknarverkefnis arkitektanna Hjördísar Sigurgísladóttur og Dennis Davíðs Jóhannessonar og fjallar um hvernig áhrif frá Bretlandseyjum hafa mótað íslenska byggingarlist frá upphafi...

Bókarkafli Bókin Straumar frá Bretlandseyjum er afrakstur sögulegs rannsóknarverkefnis arkitektanna Hjördísar Sigurgísladóttur og Dennis Davíðs Jóhannessonar og fjallar um hvernig áhrif frá Bretlandseyjum hafa mótað íslenska byggingarlist frá upphafi byggðar og fram á daginn í dag. Fjölmargar myndir prýða bókina en Hjördís og Dennis ljósmynduðu flest mannvirkin sem fjallað er um.

Lærdómur sögunnar

Fólk hefur þörf fyrir að þekkja uppruna sinn, menningu og sögu. Sagan veitir okkur sameiginlegt minni. Hún gefur okkur tilfinningu fyrir stað, tengslum, stund og samfélagi. Höfundar telja að þekking og skilningur á sögunni sé grundvöllur skapandi hugsunar og nýsköpunar í byggingarlist. Án sögunnar getum við því vart verið. Íslensk byggingarsaga spannar um 1150 ár og er samofin sögu þjóðarinnar. Úr byggingum má lesa ótalmargt um menningu og búskaparhætti landsmanna. Til að skilja byggingarsöguna þarf að leita út fyrir landsteinana en þar liggja rætur hennar. Það er skoðun höfunda að norrænum áhrifum hafi verið gerð nokkur skil í byggingarsögunni en minna hafi farið fyrir keltneskum og öðrum áhrifum frá Bretlandseyjum. Þeim hefur lítt verið haldið til haga eða þau hugsanlega sniðgengin vegna vanþekkingar eða af þjóðernisástæðum. Um keltnesk áhrif á Íslandi í upphafi byggðar virðist beinlínis hafa ríkt þöggun og andstaða (Gísli Sigurðsson 2013:75-87). Þetta neikvæða viðhorf hefur ef til vill hamlað rannsóknum á þeim áhrifum.

Menningararfur lýsir oft pólitískri athöfn og er stundum notaður sem stjórntæki til að halda á lofti þjóðernisstefnu og félagslegri aðgreiningu þjóðernis- og þjóðfélagshópa, eins og t.d. norrænum karlmönnum á kostnað keltneskra kvenna og þræla. Úr þessu vilja höfundar bæta. Innblástur er sóttur víða. Höfundar hafna meðvitað þeim skýringum sem byggjast á félagslegum forréttindum þeirra sem móta menningararfinn á kostnað þeirra sem standa utan við mótun stefnunnar. Þar og í Íslandssögunni hefur hlutur Kelta hugsanlega verið fyrir borð borinn og ber að leiðrétta ef rétt reynist.

Markmið þessa rannsóknarverkefnis var að safna og skrásetja heimildir um keltnesk, norræn-keltnesk og önnur áhrif frá Bretlandseyjum og sýna fram á hvernig þau hafa sett mark sitt á byggingarsögu Íslands. Leitast var við að beita gagnrýnni hugsun og gagnaöflun úr fjölbreyttum heimildum. Víða var leitað fanga svo sem í byggingarsögu, skipulagsfræði, fornleifafræði, sagnfræði, bókmenntum og munnmælum. Í sumum tilfellum leitast höfundar við að færa rök fyrir því af hverju áhrifin koma til álita, vega og meta rök með og á móti og síðan að draga ályktanir á grundvelli þess. Í öðrum tilfellum eru áhrifin svo augljós að ekki þarf að færa sérstök rök fyrir þeim. Áhrif menningartengsla á stíltegundir og byggingarhætti geta verið með ýmsu móti og flókin. Þegar þau áhrif eru vegin og metin er þarft að hafa í huga aldagamla skilgreiningu Rómverjans Vitruvius (70-15 f.Kr.) á byggingarlist en samkvæmt henni hvílir hún á þremur gildum sem kallast á latínu firmitas, utilitas og venustas eða styrkur, notagildi og fegurð. Þessi skilgreining er enn í fullu gildi í dag. Í ritinu eru áhrifin frá Bretlandseyjum m.a. skoðuð í ljósi þessara gilda sem geta haft mismunandi vægi í hinum ýmsu mannvirkjum og verið með ýmsu móti.

Áhugi á þessu rannsóknarverkefni á rætur að rekja til þess að Hjördís og Dennis, höfundar þessa rits, stunduðu bæði nám í arkitektúr við háskóla í Skotlandi og hafa ferðast víða um Bretlandseyjar. Þau hafa því þekkingu á byggingarsögu Bretlandseyja og uppruna keltneskra og annarra breskra áhrifa á íslensk mannvirki. Þau hafa jafnframt kynnt sé það sem skrifað hefur verið um íslenska byggingarlist. Það vakti athygli þeirra að lítið hefur verið fjallað um keltnesk og önnur áhrif frá Bretlandseyjum í byggingarsögu Íslands og margt virtist á huldu um þau.

Bretlandseyjar eru eyjaklasi í Norður-Atlantshafi. Helstu eyjarnar eru Stóra-Bretland (England, Skotland og Wales), Írland og margar fleiri minni eyjar, svo sem Mön, Suðureyjar og Norðureyjar (Orkneyjar og Hjaltland). Þegar saga Íslands er skoðuð kemur í ljós að samskiptin við fólk frá Bretlandseyjum hafa, frá upphafi byggðar, verið töluverð og sambandið oft náið en stundum stormasamt eins og í Þorskastríðunum á 20. öld og eftir bankahrunið á Íslandi 2008. Samskiptin tengjast m.a. fundi Íslands og landnámi fólks frá Bretlandseyjum, þrælahaldi, kristnu trúboði og ritlist, verslun og fiskveiðum. Stór hluti landnámsfólks er talið vera frá norrænum byggðum á Bretlandseyjum, aðallega frá vesturströnd Skotlands og skosku eyjunum en einnig frá Írlandi. Margt af því var norrænt fólk sem hafði búið á Bretlandseyjum í lengri eða skemmri tíma. Fjölmargir höfðu tekið sér maka af keltnesku kyni og sumir hverjir tekið kristna trú en kristni hafði borist til Írlands á 5. öld og þaðan til Skotlands á 6. öld. Landnámsfólkið hafði með sér fjölda þræla og vinnufólk. Þrælar urðu hlutfallslega fjölmennur vinnuhópur á stórbýlum hérlendis á 10. öld. Í hópi landnámsfólks hafa einnig verið nokkrir alírskir og skoskir. Norðmenn og Keltar áttu ýmislegt sameiginlegt og því var blöndun þeirra töluverð og til varð hópur norrænskeltnesks fólks. Þetta fólk, sem kom frá Bretlandseyjum, hefur flutt með sér þarlenda byggingarhætti til Íslands og aðlagað þá aðstæðum eins og landnemar gjarnan gera. Rætur íslenskrar byggingarlistar liggja að hluta til í þessari norrænu-keltnesku blöndun fólks og menningar. Sú blöndun gerir íslenska menningu nokkuð sérstaka og frábrugðna þeirri sem þróaðist á hinum Norðurlöndunum. Skömmu eftir kristnitökuna árið 1000 barst stafrófið með enskum farandbiskupum til landsins frá Bretlandseyjum en þá hófst blómaskeið íslenskrar menningar.

Í upphafi 15. aldar hófu Englendingar siglingar til Íslands í stórum stíl og ráku umfangsmikla verslun hér á landi. Áhrif þeirra voru slík að tíðkast hefur að kenna öldina við þá og kalla hana Ensku öldina. Þá snerust samskiptin við Breta að miklu leyti um fiskveiðar og viðskipti. Síðan fara þau þverrandi samfara auknum áhrifum Danakonungs á Íslandi og einokunarversluninni sem fylgdi í kjölfarið og stóð frá 1602-1787. Sigur Breta í Napóleonsstyrjöldunum 1815 varð til þess að breska heimsveldið efldist mjög og Bretland varð öflugasta ríki heims á 19. öld. Iðnbyltingin, sem hófst í Bretlandi á 18. öld, átti seinna eftir að hafa töluverð áhrif á Íslandi með vélvæðingu í sjávarútvegi, iðnaði, nýjum byggingarefnum, tækni og hugmyndafræði. Með upplýsingunni á 18. öld og verslunarfrelsi á Íslandi á 19. öld aukast samskiptin við Bretland og hafa allar götur síðan verið töluverð, ekki síst eftir hernám Breta í heimsstyrjöldinni síðari. Hernám Breta árið 1940 olli straumhvörfum á Íslandi og breytti samfélaginu á róttækan hátt sem leiddi til þess að Íslendingar slitu konungssambandinu við Danmörku og stofnuðu Lýðveldið Ísland 1944. Þarna verður til öflug þjóðfélagsbylting. Í stað danskra áhrifa komu engilsaxnesk áhrif sem hafa verið mikil allar götur síðan. [...]

Ýmislegt fleira mætti nefna svo sem áhuga breskra fræðimanna á sagnaarfi Íslendinga sem er náskyldur þeirra eigin bókmenntum. Frá lokum 18. aldar, þegar rannsóknarleiðangrar Joseph Banks og John Thomas Stanley komu til Íslands, hefur verið stöðugur straumur Breta út í sveitir landsins. Þeir voru með fyrstu mönnum til að heillast af náttúru og sögu Íslands. Í þeirra hópi voru rithöfundurinn og listamaðurinn William G. Collingwood og William Morris sem er einn þekktasti hönnuður og hugsjónamaður Bretlands á 19. öld. Þeir ferðuðust um landið og heimsóttu sögustaði sem þeir ýmist skrifuðu um eða máluðu myndir af. Það má því segja að þeir hafi fundið upp menningartengda ferðaþjónustu á Íslandi á 19. öld. Um árabil hafa Bretar verið mjög fjölmennir meðal erlendra ferðamanna á Íslandi. Einn af seinni tíma Bretum sem heimsótt hafa Ísland er hinn heimsþekkti náttúrufræðingur og sjónvarpsmaður David Attenborough. Hann hefur gert heimildamyndir fyrir BBC og varað við því að jarðarbúar standi nú frammi fyrir óafturkræfum skaða á náttúrunni og samfélagslegu hruni ef ekki verði gripið til róttækra aðgerða í loftslagsmálum og beinir orðum sínum sérstaklega til loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP26 í Glasgow í nóvember 2021. Hann hefur hvatt arkitekta til að hanna umhverfisvænar byggingar og sjálfbært umhverfi.

Íslendingar hafa löngum sótt menntun til Bretlandseyja og verið nákunnugir breskri menningu og listum. Á síðustu áratugum, eða frá 1937, hefur fjöldi íslenskra arkitekta farið þangað til náms og hafa þeir sett mark sitt á byggingar og umhverfi hérlendis. Einnig hafa arkitektar frá Bretlandseyjum sest að á Íslandi og aðrir unnið til verðlauna hérlendis og haft áhrif.

Á hinum ýmsu tímum hafa þessi samskipti og tengsl haft margs konar áhrif á mannvirki á Íslandi. Þau áhrif hafa lítt verið rannsökuð og hugsanlega vanmetin, sérstaklega þau keltnesku. Það sem stendur upp úr, þegar heildarniðurstöður verkefnisins liggja fyrir, er hversu mikil áhrifin frá Bretlandseyjum hafa verið. Það er höfundum ljóst að þessi áhrif hafa mótað íslenska byggingarsögu svo og íslenskt samfélag frá upphafi byggðar og fram á þennan dag. [...]