HM 2023 Alfreð Gíslason á eftir að fara með sitt lið til Færeyja.
HM 2023 Alfreð Gíslason á eftir að fara með sitt lið til Færeyja. — AFP
Alfreð Gíslason og hans menn í þýska landsliðinu sigruðu Færeyinga 34:26 í Kiel í gærkvöld í fyrri viðureign liðanna í umspilinu um sæti í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í handbolta.

Alfreð Gíslason og hans menn í þýska landsliðinu sigruðu Færeyinga 34:26 í Kiel í gærkvöld í fyrri viðureign liðanna í umspilinu um sæti í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í handbolta. Það forskot dugar þeim eflaust ágætlega fyrir seinni leikinn sem fer fram í Höllinni á Hálsi á laugardaginn. Lukas Zerbe skoraði sex mörk fyrir Þýskaland og Elías Ellefsen á Skipagötu skoraði fimm mörk fyrir Færeyjar.

Slóvenar standa höllum fæti eftir ósigur gegn Serbum á heimavelli í gærkvöld, 31:34.

Tékkar, sem eru í riðli með Íslandi í næstu undankeppni EM, gerðu jafntefli heima gegn Norður-Makedóníu, 24:24, eftir að hafa verið sex mörkum undir um tíma.

Svartfellingar eru undir talsverðri pressu eftir óvænt tap gegn Grikkjum á útivelli í gærkvöld, 25:23.

Ungverjar lentu líka í óvæntu basli gegn Ísraelsmönnum á útivelli, voru undir lengi vel en knúðu fram sigur að lokum, 33:32. Ísrael er einnig á meðal mótherja Íslands í undankeppni EM og er greinilega andstæðingur sem þarf að varast.

Króatar burstuðu Finna á útivelli, og seinni leikurinn er formsatriði.