Sóknarprestur Á vettvangi dagsins hefur þjóðkirkjan beitt sér í málefnum hælisleitenda og í umhverfisvernd, segir sr. Dagur Fannar Magnússon, hér við við altarið í Bræðratungukirkju í Biskupstungum sem hann þjónar.
Sóknarprestur Á vettvangi dagsins hefur þjóðkirkjan beitt sér í málefnum hælisleitenda og í umhverfisvernd, segir sr. Dagur Fannar Magnússon, hér við við altarið í Bræðratungukirkju í Biskupstungum sem hann þjónar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Kirkja og kristinn boðskapur eiga alltaf erindi við líðandi stund. Trúin varðar alla og speglar alla mannlega tilveru. Á vettvangi dagsins hefur Þjóðkirkjan beitt sér í málefnum hælisleitenda og í...

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Kirkja og kristinn boðskapur eiga alltaf erindi við líðandi stund. Trúin varðar alla og speglar alla mannlega tilveru. Á vettvangi dagsins hefur Þjóðkirkjan beitt sér í málefnum hælisleitenda og í umhverfisvernd. Kemur þar með alveg skýr skilaboð. Þá má segja að starf prestsins spanni þetta allt: að ganga með fólki í gleði og sorg og allt þar á milli,“ segir séra Dagur Fannar Magnússon, nýr sóknarprestur í Skálholti. Hann var settur inn í starfið um síðustu helgi, á pálmasunnudag og í aðdraganda páska.

Upprisan kjarni kristindóms

„Upprisa Jesú er kjarni kristindómsins. Með upprisunni vöknum til vitundar um núið, um eilífðina og hið æðsta og mesta í þessu lífi og handan þess líka. Guðsríkið er innra með okkur og handan okkar á öllum tímum og utan hans. Alltaf aðgengilegt og innan seilingar,“ segir Dagur Fannar sem vígðist til prests fyrir þremur árum. Fór þá til þjónustu í Heydölum í Breiðdal austur á landi og átti þar, með fjölskyldu sinni, góðan tíma. Fékk mikilvæga reynslu í starfi. Svo fór þó að Suðurlandið kallaði og þegar starf Skálholtsprests var laust sótti okkar maður um og fékk.

„Ég vann hér í Skálholti sumarið 2019 og líkaði vel. Fékk þá sterkari áhuga á staðnum og prestakallinu sem var áður til staðar. Ég er frá Selfossi en sem peyi var ég mikið hjá ömmu minni, Perlu Smáradóttur, sem bjó í Reykholti hér í Biskupstungum. Þá á ég ættir að rekja að bænum Tjörn hér í Tungunum og þar býr skyldfólk mitt í dag. Tengslin við sveitina eru sterk og hingað leitaði hugurinn,“ segir Dagur Fannar.

Tólf kirkjur í átta sóknum

Morgunblaðið tók hús á Degi Fannari á dögunum austur í sveitum. Þau Dagur, Þóra Gréta Pálmarsdóttir kona hans og börnin þrjú búa sem sakir standa á bænum Hvítárbakka. Verða þar uns viðgerðir á prestsbústað í Skálholti eru afstaðnar.

Í hinu víðfeðma Skálholtsprestakalli eru alls tólf kirkjur í átta sóknum. Alls eru sóknabörnin um 1.500 auk þess sem fólk er á sitt annað heimili í sumarhúsabyggðunum í uppsveitum Árnessýslu mætir oft til viðburða og helgihalds. Ætlað er að margir muni til dæmis mæta til athafna nú um páskana en í Skálholtsprestakalli hefur skapast rík hefð fyrir innihaldsríku og miklu helgihaldi. Þar má nefna að nú í vikunni hafa í Skálholti verið Kyrrðardagar , en þar fær fólk tækifæri til þess að draga sig frá áreiti hversdagsins og líta inn á við með inntak páskanna til hliðsjónar.

Á bænadögum og um páska verða athafnir í allflestum kirkjum Skálholtsprestkalls, sem spannar Biskupstungur, Laugardal, Grímsnes, Grafning og Þingvallasveit. Af einstökum athöfnum á næstu dögum má nefna messu sem verður í Þingvallakirkju við sólarupprás kl. 6 að morgni páskadags. Sama dag er fjölskylduvæn árdagsmessa kl. 8 í Skálholti. Á eftir verður börnum boðið í páskaeggjaleit. Svona mætti áfram telja athafnir sem sr. Dagur Fannar og sr. Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti hafa með höndum.

Kirkjan er fólkið

„Guðfræðin snertir allar hliðar mannlegrar tilveru; heimspeki og sagnfræði, tungumál og siðfræði og fleira. Ég var fljótt ákveðinn í því að leggja þessi fræði fyrir mig og stefndi á prestskap. Guðfræðin spannar margt og sjálfur hef ég í æ ríkari mæli fært mig inn á svið trúfræðinnar. Hef dregist að helgisiðafræði og hugmyndum um það hvernig virkja má núvitund og íhugun í gegnum helgisiði. Ég legg mig líka eftir safnaðaruppbyggingu, því að fólk finni sig sem hluti samfélagi. Kirkjan er fólkið,“ segir sr. Dagur Fannar Magnússon.

Enginn lyftir bjarginu einn

Skálholt er stór staður á alla lund og þar stóð vagga íslenskrar menningar, mennta, lista og lýðræðis. Margir stórir viðburðir í Íslandssögunni tengjast staðnum með einhverju móti eða gerðust þar.

„Á þessum arfi má byggja á marga lund og tækifærin eru óteljandi. Að starfinu hér í Skálholti koma margir og hingað er stöðug umferð alla daga. Ferðafólk til dæmis er áhugasamt um staðinn, helgi hans og sögu. Hér vinnum við nokkur saman, sóknarprestur, vígslubiskup, staðarhaldari og fleiri, og ég trúi að samstarf okkar allra verði gjöfult og gott. Enginn lyftir bjarginu einn,“ segir sr. Dagur Fannar og enn fremur:

„Og hvernig sem á allt er litið eru kirkjan og starf hennar alltaf mikilvægur þáttur í hverju samfélagi. Þar þurfum við auðvitað samgöngur, verslun, skóla, heilsugæslu og fleira. Starf og þjónusta kirkjunnar kemur einnig sterkt inn í þessa breytu – enda þótt hlutverkið hafi breyst hratt á síðustu árum – rétt eins og allt annað í samfélaginu.“