Ásta Ólafsdóttir fæddist 8. janúar 1939. Hún lést 30. mars 2022.

Útför hennar fór fram 13. apríl 2022.

Nú þegar Ásta móðursystir mín er fallin frá vil ég minnast hennar og Eiríks fyrri eiginmanns hennar nokkrum orðum. Þau orð fjalla öðru fremur um áttunda áratug síðustu aldar. Þá voru þau ung hjón og ráku myndarbú á Skúfslæk. Ásta var nokkru yngst átta systkina frá Syðstu-Mörk í Vestur-Eyjafjallahreppi. Eiríkur og Ásta með syni sína Magnús, Árna og Óla voru tíðir gestir hjá okkur í Skeiðarvoginum þegar þau komu ýmissa erinda til borgarinnar. Halla dóttir þeirra bættist svo í hópinn þegar leið á áratuginn. Þegar teygðist úr mér fór ég að taka þátt í kartöfluupptöku á haustin og varð svo alvöru vinnumaður á Skúfslæk sumrin 1972 og´73. Á Skúfslæk var gott að vera. Reyndar svo gott að næstu árin þar á eftir var ég viðloðandi Skúfslæk. Þar ríkti góð harmónía í takt við tíðarandann, Eiríkur sá meira um útiverk en Ásta þau innandyra en bæði ráku búið í góðri samvinnu. Eiríkur var kannski rólegri og íbyggnari en bros og kitlandi hlátur hans sannarlega á sínum stað. Ásta stundum fljótari til svars og snögg til verka. Standandi á hlaðinu eitt gott vorkvöldið sannfærði Ásta mig um að sveitamennska væri lífið og þá var ég nálægt því að ákveða að verða sveitamaður og bóndi. Í allri umræðu og athafnasemi upplifði ég virðingu og góðmennsku þeirra hjóna. Ég tók líka eftir gagnkvæmri virðingu þeirra hvors fyrir öðru. Við vinnu og í hvíld var endalaus umræða. Fyrir mig var þetta þroskandi. Þótt ég væri unglingur var umræðan við Ástu og Eirík alltaf á jafningjagrunni og skynsemi og rök skiptu mestu en ekki raddstyrkur eða hefðarvald. Allir verkferlarnir maður sem ég lærði á þessum árum á Skúflæk. Helst að ég sjái eftir að hafa ekki verið meira með Eiríki í bílskúrnum og lært að laga og gera við. Í þeim efnum var Eiríkur snillingur og þurfti sjaldan að leita út fyrir eigin getu til að halda vélum og bílum gangandi. Allt þetta sýnist mér hafa færst vel á milli kynslóða. En hlutirnir breytast. Ferðunum fækkaði heldur á Skúfslæk þegar ég eltist, Eiríkur féll frá um aldur fram og á endanum brá Ásta búi og fluttist á Selfoss og hefur búið þar með Sigurði seinni eiginmanni sínum. Allir góðir hlutir taka enda og það gerði líka Skúfslækjarævintýrið. Ásta frænka var þó áfram á sínum stað og hafði sannarlega sína sterku nærveru og rödd. Hún var fyrsta manneskja á staðinn og boðin og búin ef eitthvað bjátaði á hjá eldri systkinum hennar og það gilti um marga aðra; Ásta lét sér annt um margt fólk, ekki síst öll þau börn og unglinga sem hún bæði á Skúfslæk en svo enn frekar seinna tók að sér, hjálpaði og stóð vaktina með. Alltaf var hægt að hringa í Ástu til að leita aðstoðar eða fregna. Og svo var gaman að sjá hvað hún og Siggi seinni eiginmaður hennar áttu góða vist saman og nutu ekki síst ferðalaga og hestamennsku.

Þótt nokkur tími sé frá brottför Eiríks vil ég, nú þegar Ásta er fallin frá, þakka elsku frænku minni og Eiríki fyrir uppeldi, samferð, aðstoð og vinskap allan sem ég mun ávallt njóta og aldrei gleyma.

Haukur Hjaltason.

Með faxið í fanginu, kankvís, vakandi yfir rekstrinum, reiðubúin að hleypa fyrir með bros á vör. Þannig er ein af þeim góðu minningum sem við geymum um Ástu.

Ásta átti við heilsubrest að stríða seinustu misseri en hafði fram að því verið einstaklega hraust og forkur mikill. Eftir erfiðan vetur kom svo vorið ljósa og bjarta og tók Ástu í fangið, hlýlega og umvefjandi líkt og hún reyndist samferðafólki sínu.

Um leið og við hjónin þökkum fallega samferð minnumst við Ástu sérstaklega úr hestaferðunum okkar, einlægni hennar, vináttu og ekki síst nestisboxins í bílnum hjá Sigga í áningum; kaffibrúsans og notalegra stunda undir vegg, milli þúfna – eða þar sem fjölskyldan kom saman hverju sinni.

Við vottum tengdadóttur okkar Höllu, Erling Val okkar, elsku Valdísi Ástu, Sigga og allri fjölskyldunni einlæga samúð.

Þuríður Sigurðardóttir,

Friðrik Friðriksson.