„Lífið og skátastarfið hefur kennt mér mikilvægi þess að reyna að gera ævintýri úr öllu sem býðst.

„Lífið og skátastarfið hefur kennt mér mikilvægi þess að reyna að gera ævintýri úr öllu sem býðst. Tilveran er til að njóta og páskarnir eru frábær tími til þess að eiga gæðastundir með fólkinu sínu,“ segir Helga Þórey Júlíudóttir, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta. „Þegar synirnir voru komnir í páskafrí var sú skyndiákvörðun tekin að bruna norður í land og vera hér yfir hátíðina. Erum í skátaskálanum Valhöll í Vaðlaheiði og héðan þar sem við erum, beint andspænis Akureyri, er frábært útsýni yfir bæinn. Fríið getur ekki klikkað.“

Helga og Þorsteinn Guðmundsson, eiginmaður hennar, eiga þrjá stráka sem eru 10, 15 og 18 ára. „Fyrir strákana er upplifun að vera hér fyrir norðan og taka sér aðeins frí frá tölvunni. Skjáhvíld er mikilvæg. Sjálf er ég frá Akureyri, ólst hér upp og veit hvað staðurinn hefur upp á að bjóða. Núna er ætlunin að fara á skíði í Hlíðarfjalli, í sundlaugina, ganga að gamla Fálkafelli, skála sem skátarnir eiga, og fleira skemmtilegt tikkar væntanlega inn.“

Stundum er sagt að páskarnir séu besta frí ársins: fimm frídagar í röð. Tími til að njóta. „Hér á Akureyri þarf ég að skreppa í verslun til að kaupa tvö páskaegg. Þau mun ég fela hér í Valhöll og búa þannig til ratleik fyrir strákana mína, svo hér verður mikil gleði á páskadagsmorgun,“ segir Helga Þórey.