Ríkt Sýrland er með ríka sögu, fjölda kastala og merkilegra minja.
Ríkt Sýrland er með ríka sögu, fjölda kastala og merkilegra minja.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heimshornaflakkarinn Björn Páll ferðast nú um Sýrland sem hann segir að sé í senn gullfallegt, öruggt, stórmerkilegt og fullt af vinalegasta fólki sem hann hefur hitt.

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

„Síðan ég byrjaði með ferðaskrifstofuna var Sýrland einn af fyrstu áfangastöðunum sem ég ákvað að fara til,“ sagði heimshornaflakkarinn Björn Páll Pálsson sem var staddur á Sýrlandi ásamt fríðu föruneyti þegar Síðdegisþátturinn heyrði í honum í vikunni.

Björn hefur ferðast einsamall á spennandi staði um allan heim síðasta áratuginn en ekki er langt síðan hann ákvað að deila fróðleiknum og ferðaástríðunni með öðrum og stofnaði ferðaskrifstofuna Crazy Puffin Adventures.

Björn, sem hafði ferðast um Sýrland í viku fyrir símtalið, var algjörlega heillaður af landi og þjóð.

Sagðist hann ekki hafa fundið fyrir neinu óöryggi síðan hann kom til landsins ásamt sjö manna hópi en hann sagði Sýrlendinga hafa tekið þeim opnum örmum, enda hafa nánast engir túristar ferðast til landsins um hríð, síðan stríð skall á í landinu.

„Ég myndi segja að núna væri Sýrland öruggara en London,“ sagði Björn.

Engir aðrir túristar

„Þetta er vinalegasta fólk sem ég hef kynnst. Það fyrsta sem maður heyrir þegar maður hittir sýrlenskt fólk er bara: Velkomin til Sýrlands. Þau eru rosalega ánægð að sjá túrista í landinu,“ sagði Björn sem segist ekki hafa séð neina aðra túrista á ferðalaginu.

„Þetta er búið að vera mjög sérstakt að vera að ferðast hérna um landið og vera alveg út af fyrir okkur,“ sagði hann en hópurinn hafði þá ferðast til Damaskus, Aleppo, Homs og var staddur í bænum Latakia. Björn staðfesti þó að Sýrland hefði verið vinsæll ferðamannastaður fyrir stríðið enda fullt af fögrum ströndum, strandbæjum og ómetanlegum minjum.

„Svo erum við búin að skoða mikið af kastölum og minjum. Við vorum í dag að skoða kastala sem er dagsettur alveg 5.000 ár aftur í tímann. Sýrland er með mjög ríka sögu og mjög mikið af fornminjum sem er gaman að skoða,“ sagði Björn sem segir að hægt væri að lýsa ferðinni sem menningarferð.

„Við erum að kynnast þjóðinni, matnum og borgunum,“ bætti hann við.

Stríðið setti mark á landið

Hann sagðist þó sjá það mark sem stríðið í Sýrlandi hefði sett á landið, sérstaklega í Aleppo og Homs þar sem mikið var sprengt. Þar er nú mikið af rústum glataðra minja eftir sprengjurnar.

Hópurinn leggur þó ekki mikla áherslu á að skoða áhrif stríðsins á landið heldur einblínir á að kynnast landinu sjálfu.

„En maður verður var við þetta stríðsástand sem var hérna í tíu ár, en það er alveg nóg að sjá,“ sagði Björn en hann staðfesti að það væri mikil öryggisgæsla hvarvetna. Hópurinn er því með sýrlenskan leiðsögumann og sagnfræðing sem fylgir þeim hvert fótmál, til að auðvelda pappírsvinnuna sem fylgir öryggisgæslunni, og er sérstaklega fróður um landið.

„Þetta er búið að vera mikið ævintýri,“ sagði Björn og staðfesti að auk þess væri veðrið alveg „geggjað“ á þessum árstíma, í kringum 25 gráðurnar.