Jón Þ. Hilmarsson
Jón Þ. Hilmarsson
Eftir Jón Þ. Hilmarsson: "Meint brot geta þannig verið nánast óviðráðanlega óupplýsanleg að sögn ákæruvaldsins en samt dómtæk!"

Formaður lögmannafélagsins skrifaði ágæta og tímabæra grein í Mbl. 28. mars sl. um réttláta málsmeðferð og málshraða. Ekki eru nákvæmlega tilgreindar ástæður að baki þessari grein enda er ekki auðvelt að gera brotalömunum ítarleg skil í stuttri grein.

Opinbera umræðan mætti þó vera ögn fjörlegri enda þrífast misgjörðir best í þögn og skugga. Ívitnuð grein mætti gjarnan verða upphaf að fögru sambandi við raunveruleikann.

Enn um peningaþvætti

Ábendingar um undarleg dómsmál sem eiga að tengjast peningaþvætti berast undirrituðum í nokkrum mæli og verður ekki undan því vikist að vekja á þeim þá athygli sem þau eiga vissulega skilið. Það er ekki eins og þetta séu stök eða einangruð tilfelli sem borin eru upp.

Í tilteknu dómsmáli fyrir Hæstarétti tjáir vararíkissaksóknari sig þannig í málflutningi og viðfangsefnið á merkilegt nokk að vera peningaþvætti:

Ómögulegt sé að lýsa í smáatriðum eða rekja hvert einstaka fjárhæðir ávinnings brotsins hafi runnið í því skyni að lýsa broti varnaraðila með nákvæmari hætti.

Vissulega má finna til með vararíkissaksóknara að vinna vinnuna sína sómasamlega, sönnunarbyrðin þvælist auðvitað fyrir og lögfull sönnun er einnig til vandræða. Saksóknari þarf að hafa manndóm til að geta þrætt hinn mjóa veg réttvísinnar. Þegar manndóminn skortir er einfaldast að biðja dómendur að láta ekki smáskitleg smáatriði rugla hina gefnu niðurstöðu. En á ákveðnum punkti getur samanlagður fjöldi smáatriða oftlega ekki lengur verið smáatriði.

Það er ein af skyldum saksóknara að meta sjálfstætt hvort mál séu dómtæk og þá hvort líklegra sé en ekki að sakfellt verði. Það hlýtur að flokkast undir þversögn að saksóknari játi að höfðað mál eigi ekkert erindi í dómsal, að hluta eða öllu leyti. Meint brot geta þannig verið nánast óviðráðanlega óupplýsanleg að sögn ákæruvaldsins en samt dómtæk!

Hér er sem sagt ekki talin þörf á að upplýsa mál af neinni vandvirkni og ramma brot inn. En þetta er áhrifamikil innsýn í þankagang vararíkissaksóknara. Það er líka mögulega sama tilfinning hjá sakborningum sem þurfa að eyða tíma og fjármunum í að verja sig gegn ómarkvissum málatilbúnaði af þessu tagi.

Það er svo með peningaþvætti að helst þarf að slá nákvæmu máli á það sem kemur út úr þvottavélinni. Afrakstur peningaþvættis á almennt séð að vera mælikvarði notaður til að mæla annars illa útreiknanlegan hagnað af ólögmætri starfsemi en ekki öfugt. Það er grundvallaratriði.

Það hlýtur enn að vera svo að ákæruvaldið skuli sanna meint brot og ná utan um umfang þess. Og það hlýtur að vera í verklýsingu ákæruvaldsins að slá sem nákvæmustu máli á fjölda og magn. Órökstuddar ágiskanir í málflutningi saksóknara eru ekki ásættanlegar. Heiðarleikinn og háttsemin virðast hafa gengið á dyr hjá háttvirtum vararíkissaksóknara fyrir nokkru.

Þetta kann meðal annars að skýra að mál þvælast í dómskerfinu í allt að fimmtán ár að sögn, þegar verklag ákæruvaldsins er ekki merkilegra en raun ber vitni. En hvar enda kröfur vararíkissaksóknara um afslátt af réttlætinu?

Trúlega skýringin á óskapnaðinum er að raunverulegt peningaþvætti er ekki það mikið að umfangi á Íslandi hjá örfyrirtækjum og einstaklingum að eftirlitsaðilar og ákæruvald reyna að blása það út umfram tilefni. Eins og hendi sé veifað á Ísland að vera orðið miðstöð peningaþvættis. Skynsemin virðist því miður ekki eiga lögheimili hjá eftirlitsvaldinu.

Ugglaust hefur Einstein haft íslenska peningaþvættiseftirlitsiðnaðinn í huga þegar honum varð að orði: „ Any fool can know. The point is to understand.“

Höfundur er endurskoðandi. jon@vsk.is

Höf.: Jón Þ. Hilmarsson