Gjörningur Tara Njála Ingvarsdóttir og Silfrún Una Guðlaugsdóttir fremja gjörning á Leysingum í Alþýðuhúsinu á Siglufirði á morgun kl. 15.
Gjörningur Tara Njála Ingvarsdóttir og Silfrún Una Guðlaugsdóttir fremja gjörning á Leysingum í Alþýðuhúsinu á Siglufirði á morgun kl. 15.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Listahátíðin Leysingar verður haldin í Alþýðuhúsinu á Siglufirði nú yfir páskahelgina, 15.-17. apríl, og er það í áttunda sinn sem hátíðin fer fram.

Listahátíðin Leysingar verður haldin í Alþýðuhúsinu á Siglufirði nú yfir páskahelgina, 15.-17. apríl, og er það í áttunda sinn sem hátíðin fer fram. Að venju hefst hún á föstudaginn langa með sýningu í Kompunni og gjörningum í sal og einnig verður boðið upp á tónleika og upplestra. Hátíðin hefur verið afar vel sótt þau ár sem hún hefur verið haldin og að þessu sinni taka tíu listamenn þátt í henni; Kristín Ómarsdóttir, ljóðskáld og rithöfundur; Davíð Þór Jónsson, tónskáld og píanóleikari; myndlistarmennirnir Silfrún Una Guðlaugsdóttir, Tara Njála Ingvarsdóttir, Halldór Ásgeirsson og Sindri Leifsson; Óskar Guðjónsson, tónskáld og saxófónleikari; Skúli Sverrisson bassaleikari, Samúel Rademaker rithöfundur og háskólanemi og Þórir Hermann Óskarsson, tónskáld og píanóleikari.

Herlegheitin hefjast kl. 14 á morgun með opnun sýningar Sindra í Kompunni í Alþýðuhúsinu og kl. 15 fremja þær Silfrún og Tara gjörning. Annar gjörningur verður framinn 15.45 af þeim Samúel og Þóri og enn einn kl. 16.20, af Halldóri og Þóri. Á laugardagskvöld kl. 21 verða tónleikar Óskars og Skúla og á sunnudag kl. 16 les Kristín upp ljóð. Kl. 16.45 mun Davíð Þór svo halda tónleika.

„Brjálað að gera“

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, kölluð Alla, er hæstráðandi í Alþýðuhúsinu og hefur þar lengi stýrt öllu listrænu starfi og skipulagi hátíðarinnar. Hún segir Leysingar í fyrstu hafa verið gjörningadagskrá á föstudaginn langa og þannig hafi það verið í nokkur ár. Nú sé þetta orðin þriggja daga dagskrá með fleiri tegundum listviðburða. Og Siglufjörður hefur að sama skapi orðið sífellt vinsælli áfangastaður og mikil uppbygging í bænum. Alla bætir við að á veturna hafi skíðasvæðið mikið aðdráttarafl. „Við Siglfirðingar köllum þetta náttúrlega siglfirsku Alpana,“ segir hún kímin.

Alþýðuhúsið er í eigu Öllu og hún er þar með vinnustofu sína þar sem hún vinnur að landsþekktum tréskúlptúrum sínum. „Það er alltaf brjálað að gera,“ segir Alla kímin en hún hefur staðið að menningarstarfsemi í 30 ár, fyrst í listagilinu á Akureyri og síðan í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Síðustu tíu ár hefur hún svo rekið Alþýðuhúsið.

Reyndir og óreyndir í bland

Eins og sjá má af upptalningu listamannanna sem taka þátt í Leysingum í ár eru þeir flestir þekktir en þó ekki allir. Sem er engin furða því nokkrir eru ungir og að stíga sín fyrstu skref í listinni, t.d. þær Silfrún og Tara. „Þær útskrifuðust fyrir tveimur árum úr Listaháskólanum, ég reyni alltaf að hafa yngra listafólk líka innan um, blanda saman eldri og reyndari og svo yngri. Það er svo gaman og spennandi í listum að koma auga á og gefa tækifæri því sem vel er gert. Þannig að auðvitað koma alltaf nýir listamenn fram á sviðið sem vert er að fylgjast með,“ segir Alla.

Samúel er líka ungur listamaður og leggur áherslu á kvikmyndahandrit, er líka leikskáld og hefur fengist við ljóðagerð og smásagnaskrif. „Hann er að feta fyrstu skrefin,“ segir Alla. Þórir er sömuleiðis í yngri kantinum en þó kominn með nokkurra ára reynslu og hefur unnið með ýmsum tónlistarmönnum og hljómsveitum. Þórir mun bæði fremja gjörning með Samúel og hinum margreynda gjörningalistamanni Halldóri Ásgeirssyni. „Það er stundum þannig, þegar fólk safnast saman hérna, að þá verður til dýnamík á milli fólks. Halldór sá sér leik á borði þegar hann vissi af þessum fína píanóleikara, að tæla hann með sér í gjörninginn. Halldór hefur unnið mikið með tónlistarfólki í sínum gjörningum,“ segir Alla.

Enginn aðgangseyrir er að hátíðinni en við innganginn boðið upp á frjáls framlög. Alla segir að með því sé tryggt að allir geti notið listarinnar, óháð fjárhag. „Það er alltaf sett eitthvað í körfuna og þetta hefur komið ágætlega út hjá okkur,“ segir Alla. helgisnaer@mbl.is