Öflugur Björn Leví stefnir óðfluga að ræðukóngstitlinum á þessu þingi.
Öflugur Björn Leví stefnir óðfluga að ræðukóngstitlinum á þessu þingi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Píratinn Björn Leví Gunnarsson hefur tekið afgerandi forystu í keppninni um ræðukóng Alþingis nú þegar 152. löggjafarþingið er komið í páskafrí. Björn Leví hefur flutt 401 ræðu og athugasemd/andsvar og talað í 1.173 mínútur frá því þingið var sett 23.

Píratinn Björn Leví Gunnarsson hefur tekið afgerandi forystu í keppninni um ræðukóng Alþingis nú þegar 152. löggjafarþingið er komið í páskafrí.

Björn Leví hefur flutt 401 ræðu og athugasemd/andsvar og talað í 1.173 mínútur frá því þingið var sett 23. nóvember 2021. Það eru nær 20 klukkustundir samtals.

Næstir koma Andrés Ingi Jónsson Pírati með 315 ræður og athugasemdir og hefur talað í 931 mínútu samtals. Síðan koma Gísli Rafn Ólafsson Pírati (335/891), Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu (320/717) og Guðmundur Ingi Kristinsson Flokki fólksins (244/703). Sú þingkona sem lengst hefur talað er Helga Vala Helgadóttir Samfylkingu (242/579). Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er sá ráðherra sem lengst hefur talað (207/592).

Ræðukóngur þriggja síðustu þinga, Birgir Þórarinsson Sjálfstæðisflokki, hafði fremur hægt um sig að þessu sinni. Hann hefur flutt 47 ræður/athugasemdir og talað í 172 mínútur á yfirstandandi þingi.

Samkvæmt yfirliti á vef Alþingis hafa 105 alþingismenn og varamenn þeirra tekið til máls það sem af er 152. löggjafarþinginu, en þingmenn eru sem kunnugt er 63 talsins. Fluttar hafa verið 3.726 þingræður og gerðar 3.494 athugasemdir. Meðallengd þingræðu er 3,6 mínútur.

Alþingi kemur saman að nýju mánudaginn 25. apríl, að loknu páskahléi. Þingið mun starfa í eina viku en síðan tekur við tveggja vikna hlé vegna sveitarstjórnarkosninganna 14. maí. Nefndarstörfum á að ljúka 3. júní. Þinglok eru síðan áformuð föstudaginn 10. júní.

sisi@mbl.is