Björg Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 29. mars 1953. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 7. mars 2022 eftir stutta sjúkrahúslegu. Foreldrar hennar voru Ingibjörg Guðrún Aðalsteinsdóttir, d. 1962, og Jón Eiríks Óskarsson, d. 1994. Systkini Bjargar eru sammæðra: Hjördís Baldursdóttir, d. 2020, alsystkini eru Selma Jónsdóttir og Bragi Jónsson og hálfsystkini samfeðra eru Sigurbjörg María Jónsdóttir, Þóra Helga Jónsdóttir, Karólína Margrét Jónsdóttir og Óskar Björgvin Jónsson.

Sonur Bjargar er Aðalsteinn Ingvarsson (Alli), f. 19. nóvember 1970. Faðir hans er Ingvar Ingvarsson, f. 1949. Eiginkona Alla er Katrín Harðardóttir, f. 4. desember 1969 og eru þau búsett í Vestmannaeyjum. Börn þeirra eru Eva, f. 2000, Telma, f. 2002 og Elís Þór, f. 2007. Sambýlismaður Evu er Kristgeir Orri Grétarsson, f. 1992. Björg varð langamma 9. mars 2022 þegar Eva hennar og Kristgeir eignuðust dreng. Hún hlakkaði mikið til að verða langamma, en því miður auðnaðist henni ekki að sjá litla drenginn þar sem hún lést tveimur dögum áður en hann kom í heiminn.

Þann 28. júlí 2022 giftist Björg eftirlifandi eiginmanni sínum, Jóni Þórarni Magnússyni, f. 18. október 1954. Þau hófu búskap í Reykjavík, bjuggu síðan á Ljósalandi rétt við Nesjavallaveg í fjögur ár og settust síðan að á bænum Bala í Þykkvabæ og hafa búið þar síðan. Börn Jóns eru: Alda Þórunn, Eva Hrönn, Magnús Þór, Guðlaugur Freyr og Þórður Thors.

Útför hennar fór fram í kyrrþey að hennar ósk 5. apríl 2022 frá Garðakirkju.

Ólíkt fólk verður á vegi okkar í gegnum lífið, sumir fljóta hjá, aðrir verða vinir okkar og enn aðrir tengjast okkur órjúfanlegum böndum. Það á við um Björgu okkar, hún kom lítil stelpa í Framnes og tengdist fjölskyldunni böndum sem voru órjúfanleg alla tíð. Björg leit á það sem sína lífsins lukku að hafa komið í Framnes og sagði gjarnan að líf sitt hefði fyrst byrjað þá. Hún kallaði okkur alltaf Framnesfjölskylduna sína. Hún talaði oft um að Lillý mamma okkar hefði reynst henni sem móðir og trúnaðarvinkona, sem hún gat alltaf leitað til. Þær áttu einstakt samband alla tíð. Hún sagði að Broddi pabbi okkar hefði gefið sér festu og hann reynst sér vel.

Við minnumst þess að á sunnudagsmorgnum þegar útvarpsmessan hljómaði og lambalærið var komið í ofninn hjá mömmu, þá hringdi Björg í múttu sína á Framnesi og spjölluðu þær góða stund. Eftir að mamma lést 2007 hringdi hún áfram reglulega í pabba.

Á Framnesi kynntist Björg Valda og Sillu, systkinum pabba, og við þau myndaði hún sterk vináttutengsl. Valdi var tveimur árum eldri en hún og hann átti við talörðugleika að stríða og gat ekki sagt Björg. Björg leysti það með sinn húmor að vopni og leyfði honum að kalla sig Bollu. Vinasamband Bollu og Valda var einstaklega fallegt. Þau brölluðu ýmislegt á sínum yngri árum, m.a. reyndu þau að komast á bak á beljunum þegar þau voru að sækja þær. Valdi lést fyrir aldur fram árið 2008.

Björg var hreinskilin, dugleg og ósérhlífin en hún var líka viðkvæm, ástrík og hlý og vildi öllum vel. Hún var töffari og skvísa, alltaf svo smart. Hún lakkaði neglurnar við eldhúsborðið, málaði sig daglega, líka í sveitinni og við systur horfðum á hana aðdáunaraugum. Björg var mikill dýravinur, átti alltaf hunda og hesta.

Björg eignaðist Alla sinn þegar hún var aðeins 17 ára gömul, þau voru um nokkurt skeið tvö ein saman og á þeim tíma þurfti hún verulega að hafa fyrir lífinu. Við systur eigum margar skemmtilegar minningar frá heimsóknum þeirra mæðgina í sveitina og elskuðum að passa og leika við Alla. Björg var afar stolt af Alla sínum og fjölskyldunni hans.

Á aðventunni þegar við systur og fjölskyldur gerðum laufabrauð var Björg stundum með. Þetta eru dýrmætar minningar og henni fannst þetta svo skemmtilegt eins og okkur öllum. Björg gerði allt frá grunni eins og elsku mútta. Í síðasta skiptið sem Björg var með okkur í laufabrauðsgerð, þá vorum við hjá henni og Jóni í Ljósalandi. Þetta var svo fallegur dagur og í öllum gluggum hafði Björg tendrað kertaljós. Hún elskaði kertaljósin og birtuna frá þeim.

Björg var áhrifavaldur í lífi okkar, hún var okkur fyrirmynd um margt og samvera með henni gaf okkur hlýju í hjartað og elska hennar var óendanleg. Þegar ljóst var að komið væri að kveðjustund þá var það okkur systrum afar dýrmætt að sitja hjá Björgu og hennar nánustu síðustu dagana.

Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til Jóns, Alla og fjölskyldu.

Hjartans þakkir fyrir allt, elsku Björg okkar. Sofðu rótt.

Framnessystur þínar,

Sigrún, Hrafnhildur

og Hjördís Edda.