— Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stykkishólmur og Helgafellssveit sameinuðust nýverið, en þar er einn reisulegasti bær á Snæfellsnesi og um leið samgöngugátt til Vestfjarða með ferjunni Baldri.

Stykkishólmur og Helgafellssveit sameinuðust nýverið, en þar er einn reisulegasti bær á Snæfellsnesi og um leið samgöngugátt til Vestfjarða með ferjunni Baldri.

Efling atvinnulífs næst á dagskrá

• Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri í viðtali • Verkefnin blasa við en það gera tækifærin einnig • Frekari sameiningar vel mögulegar vestra • Fjöldi tækifæra og tillagna til atvinnuuppbyggingar Dagmál

Andrés Magnússon

Stefán Einar Stefánsson

Jakob Björgvin Jakobsson var ráðinn bæjarstjóri Stykkishólms árið 2018 af meirihluta H-listans, hafði verið bæjarstjóraefni listans fyrir kosningarnar, án þess að hafa þó verið í framboði sjálfur. Hann ólst upp í Hólminum, en sinnti lögmennsku í höfuðborginni, þar til hann sló til og gaf kost á sér til starfans, þá 35 ára gamall.

Hann er aftur bæjarstjóraefni H-listans, en á móti er sameinað framboð tveggja lista, sem lutu í lægra haldi síðast. Þrátt fyrir að hafa skilað inn framboði voru forvígismenn listans ekki tilbúnir til þess að svara spurningum Morgunblaðsins, málefnaskrá órædd.

Það má því eiga von á snarpri kosningabaráttu á Snæfellsnesi, en hún mun að einhverju leyti einnig markast af því að nýverið sameinuðust Stykkishólmur og Helgafellssveit á ný, en Hólmurinn var aðskilinn frá sveitinni 1892. „Við erum að koma heim,“ segir Jakob og brosir. „Við erum Hólmarar, síðan Helgfellingar, þá Snæfellingar og Vestlendingar.“

20 tillögur um atvinnulíf

Jakob segir að verkefni komandi kjörtímabils leiði mjög af þeirri braut sem mörkuð hafi verið á undanförnum fjórum árum, en þar er einkum horft til þarfa íbúa. „Við höfum lyft grettistaki í öldrunarmálum, unnið að útivistarsvæðum og göngustígum,“ nefnir hann.

Atvinna og athafnalíf skiptir miklu máli í hverju byggðarlagi og í bígerð er mikil efling atvinnulífs til samræmis við skýrslu, sem er við það að koma út, þar sem fram koma 20 tillögur þar að lútandi.

„Þetta er samansafn af fjölmörgum tillögum úr öllum áttum, alveg frá innviðastyrkingu upp í auðlindanýtingu Breiðafjarðar og allt þar á milli, baðaðstöðu og lón tengt ferðaþjónustu.“

Frekari sameiningar

Þrátt fyrir sameininguna er sveitarfélagið ekki ákaflega stórt og fremur fámennt, rétt um 1.300 manns. Samstarfið hafi verið nokkuð fyrir og ekki stórfelldra breytinga að vænta. Til framtíðar sé ekki óeðlilegt að horfa til frekara samstarfs og sameininga.

„Það er erfitt fyrir mig að tala við aðra, en á þessu kjörtímabili höfum við átt samtöl bæði við Dalamenn og Snæfellinga. Ég geri ráð fyrir að þau haldi áfram.“

Þar skipti samgöngur sköpum. „Skógarstrandarvegurinn er eiginlega hraðahindrun á samskipti milli byggða, þannig að við erum miklu frekar að fara út á Nes. Samt á Skógarstrandarvegur að heita stofnvegur en er bara malarvegur. Hann segir það hraðahindrun á bæði samgöngur og atvinnuuppbyggingu, sem sé þeim mun bagalegra þar sem tækifærin blasi hvarvetna við.

Unga fólkið tekið að þyrpast í bæinn á ný

• Atvinnustig hátt í Hólminum • Þörf á frekari uppbyggingu Dagmál

Andrés Magnússon

Stefán E. Stefánsson

Í febrúar síðastliðnum samþykktu íbúar Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar að sameina sveitarfélögin tvö. Þar munu íbúar því ganga til kosninga í nýjasta sveitarfélagi landsins í maí næstkomandi.

Tvö framboð skiluðu inn listum. Annars vegar er það H-listi framfarasinna og hins vegar Í-listi Íbúalistans. H-listinn hefur verið með hreinan meirihluta síðasta kjörtímabilið og teflir fram öðru sinni bæjarstjóraefninu Jakobi Björgvin Jakobssyni.

Dagmál Morgunblaðsins óskuðu eftir samtali við oddvita framboðanna beggja. Mætti Hrafnhildur Hallvarðsdóttir til leiks fyrir hönd H-lista, sem hún leiðir, en þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um sáu efstu menn á lista Í-listans sér ekki fært að mæta til leiks. Var sú skýring gefin að enn ætti fólk eftir að stilla saman strengi, ekki síst vegna sameiningarinnar fyrrnefndu, og að ekki væri tímabært að tjá sig við fjölmiðla.

Sáu sér ekki fært að mæta

Þar við sat en auk Hrafnhildar boðuðu blaðamenn Morgunblaðsins Sævar Benediktsson hjá fyrirtækinu BB og synir ehf. til leiks. Það kom því nokkuð á óvart þegar bróðir hans, Hafþór, mætti á svæðið og sagði Sævar upptekinn. Hann hefði sent sig í sinn stað.

„Það er ekkert nýtt. Ég hef farið til tannlæknis fyrir hann,“ útskýrði Hafþór og uppskar hlátur viðstaddra. Viðtalið við þau Hafþór og Hrafnhildi má nálgast í hljóðupptöku á mbl.is og á helstu hlaðvarpsveitum undir heitinu Dagmál – Kosningar 2022.

Hrafnhildur segir áherslumun milli framboðanna og hún neitar því ekki að H-listinn halli sér meira til hægri í pólitíkinni meðan Í-listinn njóti frekar stuðnings félagshyggjuaflanna á svæðinu. Spurð út í hvernig afstöðumunur listann á yfirstandandi kjörtímabili hafi birst segir hún að H-listinn hafi lagt áherslu á framkvæmdir og uppbyggingu en hlotið gagnrýni fyrir það, þar sem það hafi kallað á lántökur. Nefnir hún sem dæmi frágang á lóð grunnskólans sem var byggður árið 1985 en lóðin aldrei kláruð.

„Það var ekki alveg samstaða um það. Það kostaði og við áttum ekki fullt af peningum en við vildum fara í það. Hún hafði verið nógu lengi svelt. Við fórum líka í að ljúka við byggingu leikskólans. Hann var byggður 2007. Þá vantaði eina deild því þá voru færri börn. Nú vantar okkur fleiri leikskólapláss af því að unga fólkið er að þyrpast heim.“

Þau Hrafnhildur og Hafþór eru sammála um að atvinnustig í sveitarfélaginu sé með besta móti. Er hann raunar mjög skorinorður þegar kemur að stöðunni.

Allir geta fengið vinnu

„Það þarf enginn að vera atvinnulaus hérna og það ætti í raun að slökkva á atvinnuleysisbótasjóðum um land allt almennt í dag. Það þarf að draga fólkið út og láta það fara að vinna. Það geta allir fengið vinnu sem vilja vinna. Það vantar fólk alstaðar.“

Bendir Hafþór á að fyrirtækin sæki starfsfólk víða að og að uppbygging víðar á landinu smiti yfir í Hólminn. Þannig hafi aukin umsvif í laxeldi á Vestfjörðum haft jákvæð áhrif á þjónustugeirann á Snæfellsnesi. T.a.m. hafi skipasmíðastöðin í Stykkishólmi mikið að gera í viðhaldi því tengdu.

Hrafnhildur segir sveitarstjórnina vilja búa í haginn með frekari uppbyggingu. Þannig verði best stuðlað að hóflegum en traustum vexti. Segir hún mikinn í hug í fólki og að það sé t.d. jákvætt að fasteignaverð í Stykkishólmi sé hátt í samanburði við önnur svæði á landsbyggðinni.