Maríupol Rússneskur hermaður stendur vörð í miðborg Maríupol í fyrradag. Borgin var sögð á valdi Rússa í gær.
Maríupol Rússneskur hermaður stendur vörð í miðborg Maríupol í fyrradag. Borgin var sögð á valdi Rússa í gær. — AFP/by Alexander Nemenov
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Rússneska varnarmálaráðuneytið lýsti því yfir í gær að hafnarborgin Maríupol væri nú á valdi rússneska hersins eftir sex vikna umsátur. Sögðust Rússar hafa tekið til fanga 1.026 úkraínska landgönguliða úr 36.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Rússneska varnarmálaráðuneytið lýsti því yfir í gær að hafnarborgin Maríupol væri nú á valdi rússneska hersins eftir sex vikna umsátur. Sögðust Rússar hafa tekið til fanga 1.026 úkraínska landgönguliða úr 36. herfylki landgönguhersins, en það herfylki hefur leitt vörn borgarinnar undanfarnar vikur.

Stjórnvöld í Kænugarði sögðust ekki geta staðfest fall Maríupol, en Vadím Boitsjenkó, borgarstjóri hafnarborgarinnar, sagði að enn væri barist í borginni. Hrósaði hann mjög verjendum borgarinnar. „Þegar þeir segjast vera úr stáli, ættum við að muna að stál getur einnig brotnað, en þeir eru að verjast, og Maríupol er enn úkraínsk borg,“ sagði hann. Ramzan Kadyrov, leiðtogi Téténa, sem tekið hafa þátt í bardögum um borgina, skoraði á þá sem eftir væru að gefast upp, frekar en að sólunda lífi sínu.

Fátt bendir til efnavopna

Sérfræðingar í beitingu efnavopna hafa lýst yfir efasemdum um að Rússar hafi gripið til slíkra vopna í Maríupol á mánudaginn. Þannig hafi lýsingar á þeim einkennum sem fólk fann fyrir ekki stemmt við þau einkenni sem fylgi notkun taugaeiturs á borð við Sarín-gas, og margt annað geti orsakað einkennin, sér í lagi þar sem barist hefur verið í verksmiðjum og öðrum stöðum þar sem ýmis spilliefni gætu dreifst um andrúmsloftið.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varaði hins vegar við því í fyrrinótt að Rússar kynnu að grípa til táragass með íblönduðum efnum til að svæla síðustu verjendur Maríupol úr varnarstöðum sínum, en beiting táragass er ekki lögleg í hernaði, þó að hún sé leyfileg við löggæslustörf. Rússneska utanríkisráðuneytið mótmælti orðum Blinkens, og sakaði Bandaríkin um að reyna að koma áróðri af stað.

Sakar Rússa um þjóðarmorð

Joe Biden Bandaríkjaforseti sakaði Rússa í fyrrinótt um þjóðarmorð í Úkraínu, og sagði hann að Vladimír Pútín Rússlandsforseti væri að reyna að útrýma hugtakinu „Úkraínumaður“ með gjörðum sínum í stríðinu.

Sagði Biden að sífellt fleiri sönnunargögn fyrir því að kalla stríðsglæpi Rússa þjóðarmorð væru að koma í ljós. „Meiri sönnunargögn eru að birtast um þá hræðilegu hluti sem Rússarnir hafa framið í Úkraínu. Og við munum bara sjá meira og meira um eyðilegginguna. Við munum láta lögfræðingana ákveða á alþjóðavettvangi hvort þetta falli undir skilgreininguna, en það lítur vissulega þannig út fyrir mér,“ sagði Biden.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, fagnaði ummælum Bidens og sagði þau vera „sönn orð sanns leiðtoga“. Sagði hann brýnt að kalla hlutina sínum réttum nöfnum þegar staðið væri á móti hinu illa.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagðist hins vegar ekki vilja taka undir það að um þjóðarmorð væri að ræða, þar sem Úkraínumenn og Rússar væru „bræðraþjóðir“. Mótmæltu úkraínsk stjórnvöld þeim orðum Macrons og sögðu bræður ekki drepa hvora aðra.

Macron sagði það þó einnig augljóst að Rússar hefðu framið stríðsglæpi í innrás sinni, en að hann myndi halda áfram umleitunum sínum til að leita sátta, og að ekki væri hjálplegt að grípa of sterkt til orða.

Rússnesk stjórnvöld mótmæltu einnig orðum Bidens, og sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta þau „óásættanleg“ fyrir forseta Bandaríkjanna.

Vara við árásum á Kænugarð

Þá varaði rússneska varnarmálaráðuneytið við því að rússneski herinn myndi neyðast til að ráðast á stjórnstöðvar Úkraínuhers í Kænugarði, ef Úkraínumenn létu ekki af árásum sínum á rússneskri grund.

„Við sjáum úkraínskar hersveitir reyna að fremja skemmdarverk og ráðast á rússneskt landsvæði,“ sagði í yfirlýsingu ráðuneytisins. Greint var frá því í fyrradag að skemmdarverk hefðu verið framin á lestarbrú í Belgorod-héraði, sem myndu tefja fyrir liðsflutningum Rússa til austurhluta Úkraínu.