Stefana Gunnlaug Karlsdóttir fæddist 19. ágúst 1931. Hún lést 28. mars 2022. Útför hennar fór fram 13. apríl 2022.

Við vorum hálfsystur og enn man ég hve glöð ég varð að frétta af henni! Ég var fimm ára en hún 13 og var á ferð í Reykjavík en bjó annars í Staðarsveitinni. Hugsa sér að eiga stóra systur – og svo var hún svo sæt og blíð. Flestir í kringum mig áttu systkini, sumir mörg, og stelpan á efri hæðinni sem var líka einbirni sinna foreldra hafði nýverið sagt mér að hún ætti hálfsystur fyrir norðan sem væri væntanleg í bæinn og þá fengju þær að hittast. Og var ég þá ekki svo heppin að frétta af minni hálfsystur sem einnig bjó úti á landi. Bjuggu bara öll hálfsystkin úti á landi?

Við Stefana urðum aldrei mjög nánar, aldursmunur og ólíkt uppeldi og svo kom fljótt í ljós þegar við stækkuðum að áherslurnar voru ólíkar, ekki sammála í pólitík svo við ákváðum að ræða slík mál sem minnst, ég var í bókum en hún í viðskiptum en alltaf höfðum við samt um nóg að ræða. Það voru börnin, það var sameiginleg fjölskylda og ýmsar ættarsögur af lifandi og liðnum og margt fleira. Við hittumst í kaffi og frænkuhittingum og áttum gegnum tíðina mörg og löng samtöl í síma.

Hún bar hag barna sinna og barnabarna mjög fyrir brjósti og fylgdist með sigrum þeirra og vonbrigðum og lagði til ráð og samtöl og kannski eitthvað fleira.

Hún var snjöll kaupsýslukona með allt á hreinu. Framkoman var hrein og bein og tíguleg, erindið skýrt og ef reynt var að leiða hana á villigötur sá hún oftast við því og gerði þá viðkomandi grein fyrir með stuttum, meitluðum setningum að slíku sæktist hún ekki eftir.

Svo margar góðar minningar sitja eftir, takk fyrir að vera systir mín, elsku Stefana.

Þóra Elfa Björnsson.

Þá hefur hún kvatt þessa jarðvist ömmusystir sona minna. Sönn íslensk valkyrja, sveitastelpan sem kom fátæk í borgina en með útsjónarsemi lét hún drauma sína rætast og lagði heiminn að fótum sér. Stefana var bæði aðsópsmikil og þýð í allri framkomu. Auk þess að eiga bæði börn og buru kom hún á laggirnar glæsilegri snyrtivöruverslun á Laugaveginum. Þar var hún allt í öllu, flaug heimshorna á milli til að opna viðskiptasambönd og flytja inn fallegar skart- og snyrtivörur í hæsta gæðaflokki. Yfir henni var þessi einstaka reisn sem geislar af einlægum og hjartahlýjum dömum. Hvar sem hún kom lýstist upp umhverfið, þannig var hún bara, en jafnframt alltaf svo blátt áfram.

Það var ekki bara að við tengdumst fjölskylduböndum, heldur var hún mér lærimóðir, fyrirmynd og vinkona. Hún var höfðingi heim að sækja, fagurkeri mikill, vel lesin og viðförul. Hún var sannur lífskúnstner og maður kom ekki að tómum kofunum í viðræðum við hana. Það sem hún lagði til málanna var einfaldlega kjarni málsins, hún hafði þá skörpu sýn að hún hitti beint í mark. Hún hafði afar góða nærveru, hlustun og stórt hjarta.

Það var öðruvísi að stunda viðskipti fyrir tíma netsins, þetta var á tímum Facit-ritvéla og Canon-reiknivéla. Tollskráin var innbundin í möppu og helstu tollnúmerin kunni hún utan að. Þetta var á þeim tíma þegar þurfti að fá stimpla hjá gjaldeyriseftirlitinu á hvern reikning, áður en hægt var að fara í bankann til að kaupa ávísun til að borga fyrir vörurnar. Svo var til fyrirbæri sem hét Verðlagseftirlitið og það vildi líka fá sínar skýrslur. Á þessum tíma þurfti að gjöra svo vel að fara í eigin persónu með alla pappírana á hvern stað áður en mátti svo mikið sem selja eina greiðu. Vinnudagurinn var langur og við bættist heimilið. Hvernig hún Stefana fór að því að láta allt ganga upp, alltaf svona æðrulaus og yfirveguð, má líklega rekja til þess veganestis sem hún fékk í sveitinni, á Krossum. Hún vandist snemma á að vinna mikið, gera mikið úr litlu og hafa yfirsýn yfir heildarmyndina.

Ég var svo lánsöm að kynnast einnig móður hennar, Maríu Ásmundsdóttur, þeirri miklu sauma- og myndlistarkonu, sem kenndi Stefönu mikið. María lét ekkert stoppa sig, eftir hana liggur ógrynni ljósmynda og málverka, unnin með einstakri tækni með textíl og olíumálun. Síðustu áratugina bjó hún á 5. hæð í Vesturbænum og gekk upp og niður stigana án þess að blása úr nös. Hún lést árið 1996, nokkrum vikum fyrir 98 ára afmælið, og hélt heimili fram undir það síðasta.

Ég kveð Stefönu með þakklæti fyrir allar okkar góðu stundir. Börnum hennar, barnabörnum, barnabarnabörnum og öllum aðstandendum og vinum votta ég mína dýpstu samúð.

Rut Rikey Tryggvadóttir.

Eðli og hugsanlegan tilgang tilverunnar skilur víst enginn – og í glundroða sínum og firringu virðist mannlífið og mannlegt hlutskipti næsta fjarstæðukennt ef ekki fáránlegt fyrirbæri. – Jafnframt er það staðreynd að flest okkar virðast þó hafa djúpstæða þörf fyrir að finnast eða trúa að líf sitt hafi tilgang og að eitthvað gefi því gildi. Og sitthvað getur stuðlað að því að svo verði. Þar virðist vináttan vera eitt hið nærtækasta. Svo er sem hún geti vakið þessa nauðsynlegu tilfinningu, tilfinningu fyrir óskilgreindum tilgangi, innbyggðum í lífið – þrátt fyrir allt.

Þessar hugrenningar um verðmæti vináttunnar leituðu á mig, nú við kveðjustund Stefönu Karlsdóttur. Ég átti því láni að fagna að kynnast þeim hjónum, Ólafi Jóni og Stefönu, fyrir rúmum fjórum áratugum. Um langt árabil naut ég gestrisni þeirra og hlýju á fallegu heimili þeirra á Hávallagötunni, auk þess á Þórgautsstöðum í Borgarfirði og síðar á Sléttuveginum eftir að Stefana fluttist þangað.

Það ríkti alltaf sérstök persónuleg reisn og orka yfir Stefönu, og jákvæð og glaðvær stemning í nærveru hennar. Hlýjan og birtan frá vinarhug hennar lifir áfram þótt hún hafi nú kvatt.

Ég votta fjölskyldu hennar, ættingjum og vinum innilega hluttekningu.

Magnús Skúlason.

HINSTA KVEÐJA
Vinátta okkar Stefönu var traust og verðmæt. Við áttum ófáar gleðistundir sem ég er þakklát fyrir að eiga í minningunni. Ég kveð kæra vinkonu með ljóðinu Horfinn vinur eftir Gunnar Dal:
Vel ég man
hvar vin hef átt
þótt venjulega
segi fátt.
En þegar burt
hann frá mér fer
finn ég best
hvað hann var mér.
Dórothea Júlía
Eyland.