Gaja Jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi tekur senn til starfa á ný.
Gaja Jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi tekur senn til starfa á ný. — Morgunblaðið/Eggert
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Framkvæmdastjóri Sorpu vonast til að hægt verði að ráðast í lagfæringar á húsnæði jarðgerðarstöðvarinnar Gaju í Álfsnesi í næsta mánuði og að mögulegt verði að hefja moltugerð að nýju í lok mánaðarins.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Framkvæmdastjóri Sorpu vonast til að hægt verði að ráðast í lagfæringar á húsnæði jarðgerðarstöðvarinnar Gaju í Álfsnesi í næsta mánuði og að mögulegt verði að hefja moltugerð að nýju í lok mánaðarins. Það er þó háð því að samningum við verktaka hússins og aðra sem komu að byggingunni ljúki í byrjun maí.

Myglugró greindist í ágúst á síðasta ári í klæðningu í lofti þess hluta húsnæðis Gaju sem hýsir moltugerð. Starfsemin hafði aðeins verið þar í um ár. Moltugerðin var stöðvuð í kjölfarið. Hins vegar hefur metangashluti stöðvarinnar verið rekinn í óbreyttu formi. Úrgangurinn er afgasaður þar en er síðan urðaður í stað þess að vinnast áfram í moltu, eins og ætlunin var.

Spurning hvort þrif duga

Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segir að gerð hafi verið áætlun um að endurræsa moltugerðina. Fyrsta skrefið sé að ljúka samningum við Ístak og fleiri um ábyrgð á gallanum og viðgerðir og séu viðræður á lokastigi. Vonast hann til að farsæl lausn fáist í byrjun maí.

Myglan var mest í loftklæðningu úr krosslímdu timbri. Spurður um viðgerð segir Jón Viggó að auðveldara sé að eiga við málið núna en áður vegna þess að húsið sé orðið þurrt. Spurningin snúist um það hvort hægt sé að þrífa plöturnar og mála með öðru efni eða hvort skipta þurfi um efni.

Stefnan er að ráðast í viðgerðir í maí og hefja moltugerð að nýju í lok mánaðarins. Fyrsta umferð af moltu yrði þá tilbúin í ágúst eða september.