Anna Sólmundsdóttir fæddist 5. apríl 1947. Hún lést 12. mars 2022.

Útförin fór fram 24. mars 2022.

Elsku mamma. Nú hef ég hugsað um þessa minningargrein í nokkra daga og hvort ég eigi að skrifa hana yfirhöfuð, því það eru ekki til orð yfir það sem þú varst mér og því munu þessi orð aldrei ná því flugi sem þau eiga skilið.

Síðustu dagar hafa einkennst af þakklæti, svo ótrúlega miklu þakklæti fyrir tímann sem við fengum og kærleikann og viskuna sem þú gafst mér, svo ekki sé talað um hláturinn sem við deildum, enda segir það nokkuð um þig að geta fengið (uppáhalds)son þinn til þess að hlæja á dánarbeði þínum þó svo að ég hafi verið meira og minna hágrenjandi. Hágrenjandi að hvísla orðum að þér sem þú nú þegar vissir en ég vildi bara vera viss, vera alveg viss um að þú vissir hversu mikið ég elska þig, vera alveg viss um að þú vissir hversu mikið þú hefur kennt mér, vera alveg viss um að þú vissir hversu stór hluti þú ert af mér. Þú ert og hefur alltaf verið skærasta ljósið í mínu lífi og vísað mér veginn í gegnum lífsins ólgusjó en nú er sjórinn spegilsléttur um stund og tími til að syrgja. Syrgja og gráta það að lífið er breytt og verður aldrei eins. Þú lifir í hjarta mínu, mamma, og eina sem ég get gert til að heiðra minningu þína er að umvefja börnin mín þeirri hlýju og kærleika sem þú gafst mér í vöggugjöf og hefur gefið mér allar götur síðan.

Ég segi það sama og ég sagði við prestinn: það er verið að fara að jarða bestu mömmu í heimi.

Góða ferð mamma og Guð þig geymi.

Þinn sonur,

Herbert (Hebbi).