[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Besta deildin Víðir Sigurðsson vs@mbl.is FH, KR og Stjarnan komast í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn í haust en ná ekki að ógna þremur efstu liðum deildarinnar í keppninni um Íslandsmeistaratitilinn.

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

FH, KR og Stjarnan komast í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn í haust en ná ekki að ógna þremur efstu liðum deildarinnar í keppninni um Íslandsmeistaratitilinn.

Þetta er niðurstaðan í spá Morgunblaðsins sem setur FH og KR í fjórða og fimmta sætið, nokkuð á eftir toppliðunum þremur en með talsvert fleiri stig en Stjarnan sem er í sjötta sætinu.

Miðað við stigafjöldann í spánni munar litlu á Stjörnunni og KA í baráttunni um að ná sjötta sæti og komast í efri hlutann.

Breytt varnarlína hjá FH

Árangur FH í deildinni í fyrra, sjötta sætið, var sá lakasti í tvo áratugi en Hafnarfjarðarliðið rétti hlut sinn talsvert eftir að Ólafur Jóhannesson tók við liðinu á miðju tímabili. Hann er með liðið áfram og það hefur þótt sýna ágætis tilþrif á undirbúningstímabilinu þar sem það m.a. vann Víking í úrslitaleik Lengjubikarsins.

Mestu breytingarnar hjá FH eru á varnarlínunni en Guðmann Þórisson, Pétur Viðarsson, Hörður Ingi Gunnarsson og Hjörtur Logi Valgarðsson eru allir farnir. Finnur Orri Margeirsson kom frá Breiðabliki og hefur leikið sem miðvörður og bakverðirnir Ástbjörn Þórðarson og Haraldur Einar Ásgrímsson hafa bæst í hópinn.

FH missti kantmanninn snögga Jónatan Inga Jónsson til Noregs en fékk mikinn liðsauka í Kristni Frey Sigurðssyni, sem hefur verið einn besti miðjumaður deildarinnar með Val undanfarin ár og vann þar titla með Ólaf við stjórnvölinn. Hann getur breytt talsverðu í Kaplakrika.

FH er með lið sem getur hvenær sem er unnið liðin þrjú sem reiknað er með í toppsætunum en gæti vantað breidd til að fylgja þeim eftir alla leið.

Ekki eins gamlir í ár

KR-ingar hafa haft orð á sér fyrir að vera með „gamalt“ lið en Rúnar Kristinsson er að yngja það upp smám saman. Stærsti munurinn á liði KR á milli ára er að Óskar Örn Hauksson er horfinn á braut. Þá fótbrotnaði Kristján Flóki Finnbogason fyrir stuttu og missir af talsverðum hluta tímabilsins. Kjartan Henry Finnbogason fer fyrir sóknarleiknum en byrjar mótið í tveggja leikja banni.

Færeyski landsliðsmaðurinn Hallur Hansson er kominn frá Vejle í Danmörku og miklar vonir eru bundnar við hann á miðjunni hjá KR. Framherjarnir Sigurður Bjartur Hallsson og Stefan Ljubicic komu frá Grindavík og HK og þeir auka breiddina í sóknarleiknum. Eins er bakvörðurinn Aron Kristófer Lárusson kominn frá ÍA. Stefán Árni Geirsson lofaði góðu í fyrra og gæti verið í stóru hlutverki í ár.

KR náði þriðja sætinu á endasprettinum í fyrra og er þar með í Evrópukeppni í sumar. Allt fyrir ofan fjórða sætið myndi eflaust teljast afar góður árangur í Vesturbænum í ár.

Barátta um sjötta sætið?

Stjarnan datt niður fyrir miðja deild í fyrsta sinn í ellefu ár á síðasta tímabili. Ágúst Þór Gylfason tók við liðinu sem hefur þótt lofa góðu í vetur en varð hins vegar fyrir miklu áfalli þegar Hilmar Árni Halldórsson slasaðist í febrúar og missir af öllu tímabilinu. Hann hefur verið lykilmaður liðsins undanfarin ár og einn besti leikmaður deildarinnar.

Óskar Örn Hauksson, leikjahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi, er kominn í Garðabæinn en eins og málin þróuðust má segja að hann fylli skarð Hilmars. Reynsla hans gæti orðið Stjörnumönnum afar dýrmæt.

Jóhann Árni Gunnarsson er kominn frá Fjölni og þar er efnilegur miðjumaður á ferð sem getur sett mark sitt á Stjörnuliðið. Emil Atlason hefur verið á skotskónum í vetur og það væri Garðbæingum dýrmætt ef hann tæki það með sér inn í Íslandsmótið.

Af byrjunarliðsmönnum síðasta árs eru auk Hilmars þeir Heiðar Ægisson, Eyjólfur Héðinsson og Magnus Anbo horfnir á braut.

Tímabilið hjá Stjörnunni gæti snúist um að halda sig í hópi efstu sex liðanna og komast í úrslitakeppnina. Allt annað væri bónus.

Lið 4-6 í Bestu deild karla

Í þriðja hlutanum af spá Morgunblaðsins fyrir Bestu deild karla í fótbolta 2022, þar sem tuttugu sérfræðingar og aðrir áhugasamir sem starfa hjá eða skrifa fyrir miðla Árvakurs greiddu atkvæði, birtum við liðin sem enduðu í fjórða til sjötta sæti.

FH hafnaði í fjórða sæti með 176 stig, KR varð fimmta með 169 stig og Stjarnan í sjötta sæti með 130 stig. Þar fyrir neðan voru KA með 127 stig, ÍA með 77, ÍBV með 69, Leiknir R. með 65, Fram með 64 og Keflavík með 46 stig. Síðasti hluti spárinnar verður birtur í laugardagsblaðinu.