Kristín Gunnarsdóttir fæddist í Reykjavík 18. desember 1948. Hún lést á Landspítalanum 2. apríl 2022.

Útför hennar fór fram 13. apríl 2022.

Amma Sissa.

Ég mun að eilífu vera þakklátur, elsku amma Sissa, fyrir alla þína skilyrðislausu ást og stuðning, hvort sem það var að styðja mig og stappa í mig stálinu í náminu, tómstundum eða ástríðum. Þú trúðir alltaf á mig og hjálpaðir mér að skilja gildi þess að taka frá tíma til að njóta lífsins og lenda í ævintýrum líka. Amma hafði alltaf bestu ráðin, ég hef lært svo mikið um raunverulegan tilgang lífsins af henni og ég mun að eilífu geyma í hjarta mínu allar fallegu stundirnar sem ég átti með henni.

Daníel Ohayon.

Amma Sissa var góðlátasta manneskja sem ég hef kynnst. Hún sá alltaf það besta í mér og hvatti mig til að vilja verða betri. Stuðningurinn og kærleikurinn sem hún sýndi mér tók aldrei enda og ég mun ævinlega vera henni þakklát fyrir það. Ég mun sakna hennar meira en orð fá lýst og mun að eilífu geyma minningu hennar og ástina til hennar í hjarta mínu.

Keren Lilja Ohayon.

Elsku hjartans Sissa frænka. Mikið er ég þakklát fyrir að hafa kynnst þér og eytt dýrmætum tíma með þér og fjölskyldunni á hinu fallega heimili ykkar á Álftanesinu.

Í minningu barnsins og fram á fullorðinsár voru hlýjan sem þú gafst frá þér, fallega brosið þitt og ástúð þín sem tók alltaf á móti mér ómetanleg.

Ef ég staldra við eitt augnablik þá finn ég ennþá dásamlegu lyktina af þér og enn í dag yljar hún og minningin um þig mér um hjartarætur.

Alltaf var hlýlega heimilið þitt og enn fallegra hjarta þitt opið fjölskyldu og vinum og aldrei skorti neitt á, hvorki í mat né drykk, skemmtilegum samræðum eða hlátri.

Það var bara alltaf einhvern veginn gaman.

Ég er svo lánsöm að hafa fengið að vera hluti af lífi þínu og þakka fyrir það allar stundir.

Elsku fallega og góða Sissa frænka eins og ég hef alltaf kallað þig. Ég kveð þig með tárum en veit að þú ert komin örugg í sumarlandið með elsku Kristínu okkar.

Fallega minningin um einstaka konu munu alltaf lifa í hjarta mínu.

Takk fyrir ómetanlegar stundir og áhrif á mitt líf elsku frænka og góða ferð.

Þar til við sjáumst aftur elskan mín.

Elsku hjartans Nína, Benni og fjölskyldan öll.

Hjarta mitt grætur með ykkur og ég sendi ykkur allan minn kærleika og styrk á erfiðum tímum.

Guðrún Lilja og fjölskylda.

Það ríkir söknuður og sorg í huga manns þegar góðir vinir hverfa yfir móðuna miklu, þrátt fyrir þá staðreynd að öll hverfum við þangað fyrr eða síðar og losnum þar með frá líkamsfjötrum. Þegar ég fékk þær fregnir að Kristín Gunnarsdóttir æskuvinkona mín væri farin til Sumarlandsins flaug margt í gegnum hugann um vinskap okkar Sissu eins og hún var af flestum kölluð. Kynni okkar hófust þegar við vorum í öðrum bekk barnaskóla Dalvíkur. Sissa flutti með foreldrum sínum og systur frá Reykjavík til Dalvíkur. Með komu hennar í okkar fámenna bekk kom nýr og ferskur andblær sem lýsti upp skólastofuna. Sissa var falleg, skemmtileg og kærleiksrík, hún hafði svo skemmtilega frásagnargáfu sem lyfti frásögn hennar oft á tíðum inn í ævintýraheim. Það fylgdi henni alltaf ferskleiki og ævintýrablær. Hún var heimskona sem fór víða og upplifði margt. Alltaf tókst henni að segja þannig frá að hversdagshlutir urðu allt í einu spennandi. Á vináttu okkar Sissu bar aldrei skugga. Stundum liðu mörg ár án þess að við hittumst eða heyrðumst en þá voru það jólakortin sem við sendum hvor annarri og gáfu vísbendingu um að allt væri í þokkalegu standi. Þegar svo við hittumst féllum við um leið í gamla góða gírinn og ræddum alla heima og geima, en alltaf fyrst um dýrgripina okkar, börnin og fjölskylduna. Líf Sissu var ekki alltaf dans á rósum. Mikill harmur var að henni kveðinn þegar Kristín Arna dóttir hennar lést 19. ágúst 2007. Eftir slíkan missi verður engin samur.

Mér finnst það vera forréttindi að hafa átt Sissu að vinkonu í áratugi og með þessum fátæklegu orðum vil ég þakka vináttuna og tryggðina. Sissa gerði heiminn betri og skemmtilegri og hún mun gera allt fallegra og skemmtilegra í sumarlandinu. Ég vil trúa því að skilnaðarstundin héðan sé dagur samfunda og fagnaðar í Sumarlandinu.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf sem gleymist eigi

og gæfa var það öllum er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku Wim, Nína, Benni, Hrabba, Ragnheiður og fjölskyldur, mínar innilegustu samúðarkveðjur. Guð blessi heimkomu Kristínar Gunnarsdóttur.

Svanhildur Árnadóttir.

Kristín (Sissa) og Örn bróðir minn kynntust ung, á skólaárum sínum, langt innan við tvítugt. Þau voru jafnaldrar og þetta var mikil ást. Þau voru bæði forkar duglegir, komu sér vel áfram og unnu mikið saman, meðal annars í bókabúðinni Grímu í Garðabæ, sem þau áttu og ráku um árabil, og síðan í öðrum verslunum sem þau áttu, meðal annars flísaversluninni Marás. Þau bjuggu um skeið í Mosfellssveit, síðan fluttu þau í Kópavog og loks út á Álftanes, þar sem þau eignuðust glæsilegt einbýlishús. Svo gerðist það sem gerist oft, þau skildu. Það var áfall. Sissa var í miklu uppáhaldi hjá foreldrum mínum og okkur öllum. Sérstaklega áttu þau pabbi gott skap saman og höfðu lík áhugamál og lífsviðhorf; ég man eftir Sissu með okkur í veiðiferð norður á Skaga og oft uppi í sumarbústað. Hún var glæsileg stúlka, ljóðelsk og söngvin, greind og vel máli farin, hafði góða frásagnargáfu og var hrókur alls fagnaðar í gleðisamkvæmum, sem þá voru tíð í fjölskyldunum. Hún hafði ekki langt að sækja það, foreldrar hennar, Gunnar Pálsson og Jónína Guðrún Thorarensen, voru glæsilegt og skemmtilegt gleðifólk, miklir vinir foreldra minna. Minningarnar um samfundi okkar allra ylja mér enn um hjartarætur. Því miður áttum við Sissa allt of stutta samleið, en sú samleið var skemmtileg og það þakka ég fyrir.

Halldór Ármann Sigurðsson.

Sissa frænka, eins og Kristín var alltaf kölluð á mínu heimili, kvaddi södd lífdaga eftir áralöng erfið veikindi.

Sissa ólst upp á Dalvík í aristókratíu þeirra tíma og bar þess ávallt vitni hvernig sem á stóð hjá henni. Mikið var um gestakomur, góðan mat, dýrar veigar, ljóðalestur o.þ.u.l. Heimilinu stjórnuðu „höfðingjadóttirin“ Jónína G. Egilsdóttir Thorarensen frá Sigtúnum og síldarsaltandinn Gunnar Pálsson.

Í húsinu bjuggu ennfremur Sigríður afasystir og Stína föðursystir sem Sissa dýrkaði og dáði alla tíð.

Þegar síldin hvarf síðla sjöunda áratugarins urðu þungbærar breytingar og fjölskyldan flutti suður. Dalvík var þó ætíð „nafli alheimsins“ í augum Sissu enda þótt hún byggi þar einungis fram á unglingsár.

Sissa lét sér alla tíð mjög annt um alls kyns matargerð og hélt áfram að safna uppskriftum eftir að hún var farin að heilsu og gat í raun hvorki lesið né klippt út úr blöðum af þeim sökum. Hún var auk þess uppfull af alls kyns húsráðum.

Þrátt fyrir veikindi sín fylgdist Sissa vel með og hafði ótrúlegt minni. Oft hef ég flett upp í henni og nánast aldrei komið að tómum kofunum.

Ung að árum kynntist Sissa Erni Á. Sigurðssyni og eignaðist með honum þrjú börn: Jónínu, Kristínu og Benedikt. Þau slitu hjónabandi sínu eftir margra ára sambúð.

Sissa giftist síðar Cornelis Wilhelmus Van der Aa, Wim, og flutti með honum til Hollands ásamt Kristínu dóttur sinni. Eftir 15 ára búsetu þar komu þau heim, settust að í Hafnarfirði, þá á Selfossi og að lokum í Garðabæ.

Kristín lést af slysförum í ágúst 2007 og náði Sissa sér líklega aldrei eftir það.

Fjölskyldan var Sissu allt, hún elskaði börnin sín og barnabörnin fjögur. Það var henni mikil styrkur að hafa daglegt samband við Nínu dóttur sína sem býr með fjölskyldu sinni í Ísrael. Hún elskaði ferðirnar þangað á meðan hún hafði heilsu til. Þar naut hún samvista við Nínu, eiginmann hennar, Koby Ohayon, og barnabörnin Daníel og Keren Lilju sem hún var svo stolt af.

Það sem einkenndi Sissu var höfðingslund, velvilji, hrifnæmi og glæsileiki. Það leyndi sér ekki þegar hún gekk í salinn. Ekki að hún væri að vekja á sér athygli heldur var útgeislunin slík. Hún vildi öllum vel og sýndi ávallt öðrum áhuga og virðingu.

Þó að lífið hafi oft verið Sissu erfitt og erfið veikindi sett svip sinn á það missti hún aldrei móðinn. Ég veit ekki hvaðan henni kom sá styrkur. En hún var trúuð og þess fullviss að hún færi á vit Kristínar, mömmu og pabba eftir jarðneska lífið.

Wim var stoð og stytta Sissu í veikindum hennar. Elska hans, þolinmæði og þrautseigja er aðdáunarverð. Vist á hjúkrunarheimili hefði löngu verið nauðsyn hefði hans ekki notið við.

Það eru nær sex áratugir síðan við Sissa kynntumst í raun og náið. Nú kveð ég kæra vinkonu og frænku með miklum söknuði. Djúpur kærleikur, skemmtileg samvera og gagnkvæm virðing batt okkur saman, eins ólíkar og við vorum.

Elsku Wim, Benni, Nína og fjölskyldur; okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Stefanía Harðardóttir.

Kristín var aldrei kölluð neitt annað en Sissa af okkur fjölskyldunni. Hún var yngri systir mömmu, en þær systurnar voru þrjár. Sissa var stór hluti af æsku okkar systkinanna og lífi. Smitandi hláturinn hennar og stríðni er nokkuð sem við munum líklega minnast brosandi um ókomna tíð, lífsorkan og athyglin sem hún sýndi okkur og líklega öllum sem henni kynntust. Þær systurnar spilandi á gítar og píanó, syngjandi og dansandi sem ungar konur og svo eftir að við börnin urðum stór og þær bjuggu hvor í sínu landinu ferðaðist mamma oft til Hollands, stundum ásamt Guðmundi eiginmanni sínum, þar sem þau borðuðu góðan mat, skemmtu sér og áttu góðar stundir saman en oft fór hún ein til að vera með Sissu. Þær systur gátu talað um allt sem þeim datt í hug, oftast sammála um hlutina og alltaf góðar vinkonur.

Fyrsta minning mín um Sissu er seint um kvöld eftir að allir voru farnir að sofa. Þetta var þegar hún og Össi ráku svínabúið á Hamri í Mosó, ég gat ekki sofið en Nína frænka, elsta dóttir Sissu og eins konar uppeldissystir mín, átti mun auðveldara með svefn og var því steinsofnuð. Ég læddist fram í eldhús þar sem hún sat og var að lesa blöð. Hún tók á móti mér með hlýja, mjúka faðminn sinn og sagði mér að setjast hjá sér. Við spjölluðum í smá stund þar til Sissa sá að átta ára gamla frænka hennar var farin að geispa og ákváðum við að ég myndi henda mér upp í rúm aftur. Mig langaði svo til að segja henni hvað ég elskaði hana mikið þannig að ég spurði Sissu hver hennar uppáhaldslitur væri og fékk svar um hæl, blár. Ég bauð henni góða nótt og sagði við hana: „Þegar ég er orðin stór ætla ég að gefa þér milljón bláar slaufur,“ sem var líklega það mesta og besta sem ég gat hugsað mér á þessum tíma. Tilfinningin er enn sú sama þótt langt sé síðan, mig langaði og langar alltaf að gleðja Sissu frænku af því að þannig manneskja var hún.

Ég og drengirnir mínir, mamma mín, maðurinn hennar og Gunnar bróðir minn (Gussi) minnumst Sissu frænku með væntumþykju, þakklæti í hjarta og söknuði. Minningin um hláturinn hennar, endalausa væntumþykju og athygli lifir með okkur um ókomna tíð.

Elsku Nína, Benni, Wim og fjölskyldur, við sendum ykkur ástar- og samúðarkveðjur.

Ragnheiður Arngrímsdóttir, Hrafnhildur Gunnarsdóttir og fjölskyldur.