Broddi B Bjarnason
Broddi B Bjarnason
Eftir Brodda B. Bjarnason: "Það nýjasta í hans máli er að honum var bent á að kannski kæmist hann að í Svíþjóð – einhvern tímann!"

Nýlega var frétt í RÚV um könnun sem Landlæknir gerði um biðlista. Þar kom fram að ársbið er eftir liðskiptum á hné og 1.730 manns bíða eftir liðskiptum á mjöðm eða hné. Viðmið Landlæknis, samkvæmt fréttinni, er að 80% sjúklinga komist í aðgerð innan 90 daga. Það er því langur vegur frá markmiðum að raunveruleika. Því miður.

Ekki kemur fram í þessari könnun hvað sjúklingar þurfa að bíða lengi eftir liðskiptaaðgerð á öxl, en miðað við það tilvik sem ég þekki skiptir það árum og ekkert fast í hendi hvenær af slíkri aðgerð yfirleitt getur orðið.

Þannig er að bróðir minn, sem er sárþjáður og með illa bilaðan axlarlið, fær ekki bót meina sinna þótt hann hafi leitað eftir því árum saman. Hann mun hafa farið fyrst til sérfræðilæknis vegna þessa 2011 eða fyrir 11 árum! Nú er svo komið að höndin er að verða honum ónýt til daglegra athafna og lækning jafn fjarri og fyrr. Þrátt fyrir stöðuga ýtni með hringingum og heimsóknum á læknastofur og sjúkrahús er hann engu nær.

Honum er vísað fram og aftur milli sérfræðinga og stofnana en aðgerð er ekki í sjónmáli. Hann fær engin svör um það hvort og þá hvenær verði hægt að skipta út ónýta liðnum.

Það nýjasta í hans máli er að honum var bent á að kannski kæmist hann að í Svíþjóð – einhvern tímann! Engin dagsetning fylgdi þessu eða nánara fyrirkomulag.

Bæklunarlæknirinn sagði honum að hér heima væri ekki aðgerð í boði því hjá LSH vantaði hjúkrunarfræðinga og engar skurðstofur væru tiltækar og svo var slegið úr og í.

Bróðir minn hefur ekki náð fullum nætursvefni mánuðum saman vegna verkja og verður að nota sterkar verkjatöflur til að komast í gegn um venjulegar athafnir daglegs lífs. Og honum hrakar sífellt.

Þetta bréf skrifa ég á opinberum vettvangi vegna þess að mér er ofboðið og ég skora á heilbrigðisráðherra að sjá til þess að þetta verði lagað.

Höfundur er pípulagningameistari.