Sjóminjar Áttæringurinn Bliki er í öndvegi á safninu á Hellissandi.
Sjóminjar Áttæringurinn Bliki er í öndvegi á safninu á Hellissandi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Menning! Sjóminjasafnið á Hellissandi er áhugaverður viðkomustaður. Áraskipaöldinni eru þar gerð góð skil, en einnig náttúruminjum; fuglum og fjörusteinum. Þóra Olsen stýrir safni.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Merkilega margir erlendir ferðamenn sem hingað koma standa í þeirri meiningu að Íslendingar séu hættir að sækja sjó og veiða fisk. Þetta segir mér að við þurfum að skerpa á landkynningu og skerpa á ýmsu, rétt eins og mikilvægt er að halda gömlum minjum til haga; sýna og segja frá,“ segir Þóra Olsen á Hellissandi.

Sjóminjasafnið þar í þorpi er í umsjón Þóru og þegar Morgunblaðið var á ferð vestra á dögunum var hún að undirbúa sumaropnun. Safnið er vinsæll viðkomustaður ferðafólks; hvar það er í jaðri byggðarinnar á Hellissandi. Á næsta reit við safnið er nú verið að reisa gestastofu Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls sem tilbúin verður í sumar. Vestra sér fólk fyrir sér að þetta tvennt falli vel saman; saga og náttúra á tveimur sýningum hvorri í sínu húsinu sem bæði eru við sjávarsíðuna.

Elsta fiskveiðiskipið

Í Sjómannagarðinum á Hellissandi er minnismerkið Jöklarar eftir Ragnar Kjartansson, sem afhjúpað var árið 1976. Á sama stað er Þorvaldarbúð, torfhús sem lengst allra slíkra bygginga var íverustaður fólks á Hellissandi.

Í aðalhluverki er safnhúsið sem byggt var á sínum tíma yfir áttæringinn Blika . Sá var smíðaður árið 1826 fyrir Jón Jónsson, bónda í Akureyjum í Helgafellsveit. Bliki er elsta fiskveiðiskip sem varðveitt er á Íslandi. Þar í safninu eru einnig ýmsir gamlir munir, vélar, veiðarfæri, hvalbein, myndir og fleira – en þráðurinn í sýningu safnsins eru munir frá tíma áraskipanna og frá fyrri hluta tuttugustu aldar.

Fólkið nátengt umhverfi sínu

Síðari tíma viðbót er náttúrugripasafn. Þar er að finna uppstokkaða fugla og fiska, fjörusteina og kuðunga og fleira slíkt – sem varpar ljósi á lífríkið á þessum slóðum. Safnið, uppsetningu þess og sýningar hannaði Björn G. Björnsson leikmyndahönnuður.

„Fólk sem býr hér undir Jökli er flest mjög tengt umhverfi sínu. Á þessum hrjóstrugu slóðum hér undir Jökli eigum við allt undir náttúrunni og kröftum hennar. Fólk fylgist því vel með veðri, fuglalífi og hvernig náttúran virkar frá degi til dags. Margir safna líka náttúruminjum og fyrir 5-6 árum þegar við vorum að setja upp þetta safn reyndust margir íbúar hér eiga slíkar í fórum sínum,“ segir Þóra sem með Óskari Skúlasyni sinnir safninu í sjálfboðnu starfi. Um safnið er sjálfseignarstofnun sem á sér marga góða bakhjarla.

Fylgjast með breytingum

„Helsta áskorunin í safnstarfinu nú er að fylgjast með þeim ótrúlega hröðu breytingum sem átt hafa sér stað í sjávarútvegi á undanförnum tímum. Þar þurfum við ef til vill að koma sterkar inn. Nútíminn breytist fljótt í sögu, nú þegar tæknivæðingin er allsráðandi í sjávarútveginum,“ segir Þóra.