Rannsókn hafin Byrjað var að grafa upp fjöldagröf í Bútsja í gær til þess að hægt væri að rannsaka stríðsglæpi Rússa þar og var fjöldi viðstaddur.
Rannsókn hafin Byrjað var að grafa upp fjöldagröf í Bútsja í gær til þess að hægt væri að rannsaka stríðsglæpi Rússa þar og var fjöldi viðstaddur. — Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson
Stefán Gunnar Sveinsson Kristján Jónsson Karim Khan, aðalsaksóknari Alþjóðlega sakamáladómstólsins, sagði í gær að Úkraína væri „vettvangur glæps,“ en hann var þá staddur ásamt öðrum saksóknurum við dómstólinn í Bútsja.

Stefán Gunnar Sveinsson

Kristján Jónsson

Karim Khan, aðalsaksóknari Alþjóðlega sakamáladómstólsins, sagði í gær að Úkraína væri „vettvangur glæps,“ en hann var þá staddur ásamt öðrum saksóknurum við dómstólinn í Bútsja. Dómstóllinn rannsakar og sækir til saka fyrir stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyni og fyrir þjóðarmorð.

„Við erum hér, því við höfum rökstuddan grun um að verið sé að fremja glæpi innan lögsögu dómstólsins,“ sagði Khan, en hafist var handa í gær við að grafa upp fjöldagrafir í Bútsja til þess að hægt væri að rannsaka frekar ásakanir um stríðsglæpi Rússa þar.

Ummæli Khans féllu sama dag og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu lýsti því yfir að Rússar hefðu sýnt „skýr merki um brot á alþjóðlegum mannúðarlögum“ í Úkraínu á tímabilinu frá 24. febrúar, þegar innrás þeirra hófst, til 1. apríl, eða áður en fjöldamorðin í Bútsja komust í hámæli.

Erfitt að búa sig undir svona

Ljósmyndarinn Óskar Hallgrímsson, sem búsettur er í Kænugarði, fór í gærmorgun ásamt fjölmiðlafólki til uppgraftarins í Bútsja. Sagði hann í samtali við mbl.is í gærkvöldi að fjölmennt teymi hefði verið við rannsóknir á vettvangi, bæði frá yfirvöldum í Úkraínu en einnig fólk sem komið var víðar að.

Fimm lík voru grafin upp á meðan Óskar var í Bútsja, en vitað er um að minnsta kosti 57 einstaklinga í fjöldagröfinni, sem grafin var upp í gær. Sagði Óskar að fleiri gætu hafa verið grafnir þar. „Miðað við þær upplýsingar sem ég fékk frá fólkinu í Bútsja þá eru eingöngu óbreyttir borgarar í þessum fjöldagröfum. Fólk frá Hostomel og Bútsja,“ sagði Óskar.

Hann benti á að grafirnar hefðu verið teknar af íbúum í Bútsja en ekki rússneskum hermönnum.

„Íbúar í Bútsja gerðu þetta til að taka lík af götunum á meðan Rússarnir voru enn í borginni. Rússnesku hermönnunum var nákvæmlega sama og létu líkin liggja á götunum. Þeir grófu því ekki fólk í fjöldagryfjum til að fela líkin eða eitthvað slíkt,“ sagði Óskar. Hann bætti við að fjöldagrafirnar væru nærri kirkju í borginni, og að í fyrstu hefði fólk fengið að jarða líkin í friði, en svo hafi Rússarnir byrjað að skjóta á það. „Fyrir vikið varð fólkið hrætt við að fjarlægja líkin og þau söfnuðust upp á götunum,“ sagði Óskar.

Þetta var í annað sinn sem Óskar kemur að þessari fjöldagröf, og sagði hann að fyrri heimsóknin hefði verið erfiðari. „Í morgun var þetta frábrugðið vegna þess að fólk var að vinna við að safna upplýsingum og reyna að bera kennsl á líkin. Þar af leiðandi fann maður að það væri verið að gera eitthvað. Hryllingurinn var meiri í fyrra skiptið. Auk þess vissi ég af þessari fjöldagröf í fyrra skiptið. En svo er sumt sem erfitt er að búa sig undir eins og til dæmis lyktin,“ sagði Óskar.

„Auðvitað líður manni ekki vel eftir að hafa séð svona lagað. Þetta er hræðilegt. En ef til vill er maður að einhverju leyti að verða samdauna ástandinu,“ sagði Óskar að lokum.