Varnarmál Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Sanna Marín, forsætisráðherra Finna, ganga saman til blaðamannafundar í gær.
Varnarmál Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Sanna Marín, forsætisráðherra Finna, ganga saman til blaðamannafundar í gær. — AFP/Paul Wennerholm
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Sviðsljós

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Allt stefnir í að bæði Finnland og Svíþjóð muni sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu á næstunni en viðhorf almennings í löndunum tveimur gagnvart NATO-aðild hafa gerbreyst í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Nefnd á vegum finnsku ríkisstjórnarinnar skilaði í gær af sér hvítbók um þær breytingar sem orðið hefðu í öryggis- og varnarmálum Finna í kjölfar innrásarinnar, og mun finnska þingið hefja umræður um hana í næstu viku, þar sem rætt verður hvort rétt sé að ganga til liðs við varnarbandalagið.

Sanna Marín, forsætisráðherra Finnlands, fundaði í gær í Stokkhólmi með Magdalenu Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og ræddu þær um stöðuna í varnarmálum. Sagði Sanna Marín eftir fundinn að þingið myndi taka ákvörðun um NATO-aðild á næstu vikum. „Ég held að ákvörðunin verði tekin mjög fljótlega. Innan vikna, ekki innan mánaða.“

Hvítbók nefndarinnar lagði ekki fram ráðleggingar um hvort Finnland ætti að sækja um aðild, en benti á að án slíkrar aðildar nytu Finnar engra trygginga, þrátt fyrir að þeir hefðu nú um nokkra hríð verið samstarfsaðili Atlantshafsbandalagsins.

„Það er engin önnur leið til að fá öryggistryggingar en með fælingarmætti NATO og sameiginlegum vörnum, sem tryggðar eru með 5. grein Atlantshafssáttmálans,“ sagði Sanna Marín, en hún tekur fram að árás á eitt bandalagsríki teljist vera árás á þau öll.

Talið er nær öruggt að þingið muni samþykkja að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu, en kannanir benda til þess að um 68% Finna styðji nú slíka aðild. Er þó ekki lengra síðan en í janúar sem einungis um þriðjungur Finna var á því að landið ætti að ganga til liðs við bandalagið. Ástæða þessara umskipta er augljós. „Rússland er ekki sá nágranni sem við héldum,“ sagði Sanna Marín um helgina.

Talið er líklegt að Finnland muni senda inn aðildarumsókn fyrir leiðtogafund NATO í sumar sem haldinn verður 29.-30. júní í Madrid. Öll aðildarríkin verða að samþykkja þá umsókn, en ekki er gert ráð fyrir að neitt ríki, ekki einu sinni Ungverjaland, það NATO-ríki sem talið er hvað vinsamlegast Rússum, muni beita neitunarvaldi sínu ef Finnar og Svíar sækja um aðild.

Söguleg umskipti í Svíþjóð

Í Svíþjóð er svipuð staða uppi á teningunum, þar sem innrásin hefur gerbreytt almenningsálitinu á undraskömmum tíma. Þar, líkt og í Finnlandi, mælast um tveir þriðju kjósenda fylgjandi NATO-aðild, en slíkt hefði þótt óhugsandi í byrjun árs. Þá er talið nær óhugsandi að Svíar myndu vilja standa einir Norðurlandanna utan NATO, fari svo að Finnar sæki um aðild.

Sænski Sósíaldemókrataflokkurinn tilkynnti fyrr í vikunni að hann hygðist endurskoða stefnu sína í varnar- og öryggismálum, sem þóttu söguleg tíðindi eftir áralanga hlutleysisstefnu Svía. Víst þykir að aðildarumsókn gæti orðið að hitamáli í þingkosningum í haust, hafi Svíar ekki þá þegar sótt um aðild, þar sem hægriflokkarnir sem nú eru í stjórnarandstöðu hafa lýst því yfir að nái þeir meirihluta muni þeir sækja um aðild.

Þá hafa sænsk stjórnvöld einnig sett af stað endurskoðun á öryggisstefnu sinni, sem á að ljúka fyrir lok maí. Andersson ítrekaði þó í gær að ekki væri útilokað að Svíar myndu ákveða að halda sig áfram utan bandalagsins.

Óvíst um viðbrögð Rússa

Fljótlega eftir að umræða um hugsanlega NATO-aðild Finna og Svía hófst hótaði María Sakaróva, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, „pólitískum og hernaðarlegum afleiðingum“ fyrir ríkin tvö, án þess að útskýra það nánar.

Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, sagði sömuleiðis fyrr í þessari viku, að Rússar myndu grípa til aðgerða til þess að „færa jafnvægi á ný,“ ef Finnar gengju í NATO.

Ekki er vitað hvernig aðgerðir það yrðu, en Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hafði orð á því í síðustu viku, að bandalagið myndi huga að ráðum til þess að tryggja öryggi ríkjanna í því millibilsástandi sem myndi skapast á milli umsóknar og samþykktar aðildar.

Hitt er þó víst, að með aðild Finna myndu sameiginleg landamæri NATO og Rússlands lengjast um 1.340 kílómetra, og það yrði bein afleiðing af innrás, sem átti að draga úr ítökum NATO í nágrenni Rússlands. „Hvernig er þetta annað en strategískt klúður fyrir Pútín?“ spurði háttsettur bandarískur embættismaður í samtali við The Times.